2 vikna á erfitt með að kúka

05. apríl 2024

Ég er nokkuð viss um að barnið mitt sé með Dyschezia, þ.e. að hann sé að rembast vitlaust, nái ekki að slaka á hringvöðvanum og á því erfitt með að losa sig við hægðir. Hann er bara á brjósti og hægðirnar eru mjög linar þannig þetta er ekki hægðatregða. Nú hef ég lesið að það sé lítið hægt að gera við þessu en að hann fatti að lokum hvernig á að slaka á vöðvanum. Mamma benti mér á að nota hitamæli og ég gerði það og þá kom helling úr honum og svo prófaði ég líka einu sinni windi en eftir það las ég að það væri ekki sniðugt því það gæti tafið ferlið og jafnvel valdið því að þetta verði til vandræða í framtíðinni. Ég hef heyrt að það gæti verið sniðugt að nudda endaþarms svæðið með eyrnapinna í staðinn til að fá hann til að slaka á hringvöðvanum. Mælið þið með því? Einhver önnur ráð en að bara bíða? Hann sefur mun minna en hann gerði og það sést á honum að hann er þreyttur og mjög oft rembingur í honum.

Góðan dag, til hamingju með krílið og takk fyrir fyrirspurnina,

Helst viljum við að barnið nái að skila hægðum sjálft, ef það gengur ekki má reyna að nota hitamæli/windi eða svo slíkt. En það er ekki endilega góð lausn fyrir lengri tíma en getur hjálpað ef þess þarf. Það getur hjálpað að nudda maga barnsins, hjálpa barninu með því að láta fæturnar "hjóla".Í sumum tilvikum getur hjálpað að nudda svæðið með eyrnapinna eða blautri grisju til að fá barnið til að rembast. Ef þessi ráð dugar ekki ráðlegg ég þér að hafa samband við ungbarnavernd á heilsugæslunni þinni. Gangi ykkur vel.

Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir