Fæðugjöf 7 mánaða
Dóttir mín er 7 mánaða og vill ekki borða mat. Er búin að vera reyna gefa henni síðan hún varð 5 mánaða. Henni finnst gott að fá ávexti og annað í fæðunet að smakka. En það fer ekkert ofan í hana. Er að gefa henni graut og mauk en hún skilar öllu. Harðlokar svo munninum og setur tunguna fyrir. Hún er einungis á brjósti og þrifnar vel. En finnst brjóstagjöfin vera farin að taka smá orku frá mér. Hvað get ég gert til að fá hana til að borða? Eða er þetta alveg eðlilegt?
Það er mjög mismunandi hvernig og hversu mikið börn borða á fyrstu vikum og mánuðum eftir að fæðugjöf byrjar. Eðlilegt er að barn borði ekki mikið fyrstu vikurnar. Gott er að velja orkuríkan og járnríkan mat.
Hjá sumum tekur það tíma. Ef hún pissar vel, þyngist vel og líður vel er líklega í lagi að halda áfram að reyna gefa henni áfram fjölbreytt fæði. Spurning hvort hún sé svöng þegar matartímar eru eða hvort hún sé nýlega búin að fá brjóst. Hún má bragða á öllum mat, elduðu kjöti, fisk, kjúkling og eggjum t.d. Mikilvægt er að sýna þolinmæði og gefast ekki upp. Með grautinn gæti verið gott að setja brjóstamjólk út í til að hún finni kunnuglegt bragð.
Matartíminn á líka að vera skemmtilegur, gott er að leyfa dóttur þinni að prufa að matast sjálf ef hún hefur getu til (t.d. mjúkt og soðið grænmeti, eða annað). Sumir skoða Baby lead weaning og þá er Solid Starts appið mjög þægilegt til viðmiðunar.
Ef þú hefur áhyggjur ráðlegg ég þér að hafa samband við ungbarnavernd á heilsugæslunni þinni.
Gangi þér vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir ljósmóðir.