Flug á meðgöngu með lágsæta fylgju

29. maí 2024

Góðan dag Fæ smá misvísandi upplýsingar varðandi flug á meðgöngu. Er með lágsæta fylgju og fer í aukasónar á 28 viku. Upp kom ferð sem ég ætti að fara í ca 4 tíma flug þegar ég væri gengin 25 vikur. Ef það hefur ekki blætt er eitthvað sem mælir gegn því að fljúga? Hef óskað eftir svörum frá Mæðravernd en fékk mjög óljós svör þar sem í raun er ekki nefnt neitt um að ég mætti það ekki en sú sem var með mig í sónarnum við 20 viku virtist fegin að ég færi ekki í flug fyrr en eftir 28 viku þegar væri búið að skoða aftur hvar fylgjan var.

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,

Um 10-20% þeirra sem greinast með lágsæta fylgju í 20 vikna sónar eru áfram með lágsæta fylgju eða fyrirsæta fylgju, þ.e. fylgju sem liggur yfir innra opi legháls, við 34 vikur.

Sé fylgja í raun og veru fyrirsæt er mælt með að fara að varlega á meðgöngunni, þar á meðal væri ekki ráðlagt að fara í flug þar sem skjót viðbrögð eru þörf ef skyldi fara að blæða.

Strangt til tekið væri öruggast að fljúga ekki, þá sérstaklega ef aðrir áhættuþættir eru til staðar. Ef allt hefur gengið vel, meðgangan án annara áhættuþátta og ekki blætt frá leggöngum á meðgöngunni á þessum tíma get ég aðeins ráðlagt þér að taka upplýsta ákvörðun út frá þeim upplýsingum sem þú hefur. Gangi þér sem allra best.

Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.