Hvað er utanlegs fóstur?
Hvað er utanlegsfóstur?
Takk fyrir fyrirspurnina,
Utanlegsþungun er þungun sem er ekki í leginu. Þegar frjóvgun verður eftir samfarir, þá frjóvgast egg í öðrum eggjaleiðaranum og þarf að flytjast um 2-3 dögum síðar í legið til að geta vaxið og dafnað þar.
Þessi ferð frá eggjaleiðara að legi gengur ekki alltaf upp. Algengast er utanlegsþungun í öðrum eggjaleiðaranum en getur verið annars staðar í nánd við legið.
Eggjaleiðarinn getur ekki stækkað eins og legið gerir á meðgöngu og því er hætta á að eggleiðarinn rofni ef þegar fóstrið stækkar. Það getur valdið innvortis blæðingu og verið lífshættulegt. Því þarf ávallt að rjúfa utanlegsþungun.
Algengasta einkenni utanlegsþungunar er mikill verkur öðrum megin í kviðnum. Í sumum tilfellum fylgja blæðingar með. Stundum er utanlegsþungun einkennalaus.
Utanlegsþungun er greind með sónartæki og mælingu á þungunarhormóni s-HcG í blóði.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.