Brjóstakorn
Brjóstakorn eru fróðleiksmolar um ýmsa þætti brjóstagjafar.
Flestum mæðrum finnst betra að bjóða barni bæði brjóst í hverri gjöf fyrstu dagana. Sog barnsins örvar mjólkurframleiðslu og gjöf beggja brjósta hjálpar til að koma í veg fyrir þan og stálma í brjóstum.
Í hverri gjöf er best að breyta um byrjunarbrjóst. Ef fyrst er gefið hægra brjóst og svo skipt yfir á vinstra, ætti að breyta röðinni í næstu gjöf. Til að muna hvaða brjóst var síðast gefið má nota ráð eins og nælu, brot á brjóstainnleggi, skipta hring milli handa o.s.frv. Ef það gleymist hvaða brjóst var gefið síðast er þó enginn skaði skeður.
Stundum er mæðrum sagt að tæma brjóst sín alveg eftir hverja gjöf með mjólkun þeirrar mjólkur sem barnið skilur eftir. Þetta er ekki raunhæft og í raun er mjólkandi brjóst aldrei tæmt. Þetta gæti verið ráðlagt ef of lítil mjólk er til staðar og verið er að reyna að auka framleiðslu, en undir venjulegum kringumstæðum er það óþarfi.
Þegar brjóstagjöf er komin vel á veg fara margar mæður yfir í það að gefa aðeins annað brjóstið í gjöf. Þó er alltaf hluti mæðra sem heldur áfram að gefa bæði brjóst í hverri gjöf. Sumar eru með börn sem eru lengi að drekka. Sumar eru með lítil brjóst eða hafa farið í brjóstaaðgerð og enn aðrar bara kjósa það að hafa þennan háttinn á.Tilgangur með því að kreista brjóstið er að fá fram meira flæði mjólkur þegar barn er hætt að drekka sjálft. Það örvar mjólkurlosunarviðbragðið. Þetta er ekki nauðsynleg ef allt gengur vel, en virkar sérstaklega vel á fyrstu dögunum til að hjálpa barninu að ná meiri broddi.
Brjóstið er einfaldlega kreist saman og nuddað eða mjólkað á meðan barnið drekkur á brjóstinu. Þetta ætti ekki að vera sársaukafullt og barnið þarf að drekka á meðan (opna vel- stopp- loka munni) til þess að þetta virki. Ekki er nauðsynlegt að nota þessa aðferð alltaf, en þetta getur verið hjálplegt fyrstu dagana.
Þessi aðferð getur einnig virkað vel fyrir þær mæður sem eru að nota brjóstapumpu til þess að ná upp mjólkurframleiðslu, Þá er brjóstið nuddað eða mjólkað á meðan verið er að pumpa.
Snúningsviðbragðið hjálpar barni að finna vörtuna. Það er til staðar við fæðingu en hverfur við 2 - 4 mánaða aldur. Sumir telja þó að það vari lengur hjá börnum sem eru á brjósti. Ef snúningsviðbragðið er ofurvirkt getur barn truflast auðveldlega og orðið pirrað þegar það á að grípa brjóstið.
Viðbragðið að kúgast ver loftvegi barns fyrir stórum hlutum. Það er örvað mun framar í munni ungbarns en fullorðins. Sumir nýburar kúgast við þrýsting á miðja tungu. Viðbragðið er ofurvirkt í sumum börnum og ef það er stöðugt örvað getur það valdið því að barnið verður fráhverft brjóstinu. Þetta getur verið vandamál ef móðir hefur óvenjulega langar geirvörtur, hefur kröftugt losunarviðbragð eða ef ónærgætnum næringaraðferðum er beitt.
Ef barn byrjar að kúgast við þrýsting á miðja tungu nær það ekki að draga vörtutoppinn að mótum harða og mjúka gómsins. Afleiðingin verður sú að barnið klemmir vörtuna, veldur móðurinni sársauka og nær ekki nægilegri mjólk úr brjóstinu. Þar sem þetta tengist þroska barnsins er ekki auðvelt að laga það, en einfaldar æfingar gætu hjálpað. Hægt er að prófa að láta foreldri hreinsa fingur vel (vera með stuttklipptar neglur) og setja upp í góm barnsins. Fingurinn er svo smám saman færður innar í munn barnsins til þess að æfa það í að taka vörtuna innar í munnin. Þetta getur tekið nokkra daga. Þegar búið er að finna punktinn þar sem barnið byrjar að kúgast er fingurinn látinn hvíla á gómnum rétt áður en þeim punkti er náð. Þegar barnið hefur sogið þar nokkrum sinnum er fingrinum rennt aðeins ofar, að gómmótunum. Þegar það hefur sætt sig við fingurinn á eðlilegu dýpi án vandræða er komin tími til að prófa brjóstið. Það getur verið hjálplegt að gefa smá mjólk með.
Hóstaviðbragðið verndar barnið fyrir ásvelgingu (aspiration) vökva í loftvegi. Það getur verið vanþroska í fyrirburum og jafnvel sumum fullburða börnum. Hósti í gjöf er venjulega viðbragð við vökva á niðurleið (kyngingarvandamál) en hósti á milli gjafa getur verið viðbragð við vökva á uppleið (bakflæði).
Róleg afvenjun
Talið er heppilegast að venja barn af brjósti smám saman ef þess er kostur, sama hversu gamalt barnið er. Þá á sér stað aðlögun í brjóstvefnum og flestar konur sleppa við óþægindi í brjóstum. Einnig halda brjóstin betur lögun sinni og fituforða. Einnig er betra fyrir barnið að vera ekki svipt mörgum gjöfum samtímis. Barn getur túlkað það sem höfnun og brugðist illa við. Líkamlega er líka gott fyrir meltingarfæri barnsins að aðlagast nýrri fæðu hægt og rólega.
Ekki er algilt hve langan tíma róleg afvenjun tekur. Það fer eftir aldri barns og aðstæðum hverju sinni.
Til að byrja með er staða brjóstagjafarinnar er kortlögð. Þá getur verið gott að skrá niður hve margar gjafir eru á sólarhring, hvenær þær eru og hverjar eru mikilvægari (vinsælli) en aðrar. Brjóstabörn geta tekið mismargar gjafir á sólarhring en þá verður að miða við meðaltal. Síðan er ein og ein gjöf tekin út á þeim hraða sem hentar móður og barni.
Snögg afvenjun
Ef mjólkurframleiðsla er komin vel á skrið og nauðsynlegt reynist að hætta snögglega verða ákveðin líkamleg viðbrögð. Brjóstin verða þanin, aum og jafnvel hnökrótt og hætta á brjóstabólgu eykst. Snögg lækkun á hormóninu prólaktín getur líka valdið þunglyndistilfinningu.
Hér eru nokkur ráð til að minnka óþægindi og forðast vandamál.
Alltaf bíða eins lengi með að mjólka og hægt er og mjólka eins lítið og hægt er að komast af með. Ef eingöngu er um mjólkun í mjaltavél að ræða er rétt að draga smám saman úr mjólkunum. T.d. ef mjólkað hefur verið á 3 klst. fresti er lengt yfir í á 4 klst. fresti, svo 6 klst. fresti svo 8 klst. svo 12 klst. o.s.frv. Ef mjólkað var 200 ml. í einu er breytt yfir í 150 ml. í einu, svo 100 ml. svo 50 ml. o.s.frv. Hversu hratt hægt er að trappa framleiðsluna niður fer eftir aðlögun brjóstanna og flestar konur finna það vel sjálfar.
Tíminn sem tekur að hætta fer eftir hversu mikil framleiðslan var. Ef mjólk er lítil er jafnvel hægt að hætta beint án mikilla viðbragða. Athugið að margra mánaða gömul börn sem grípa brjóstið nokkrum sinnum á nóttu án þess að virðast drekka mikið geta verið að taka til sín mörg hundruð ml. Ef um fulla framleiðslu er að ræða tekur um 2-3 vikur að hætta en minna ef vel gengur.
Eðlilegt er að konur geti kreist fram dropa eða finni fyrir leka í nokkrar vikur eða mánuði eftir að hætt er.
Brjóstvefurinn teygir sig upp í handarkrikann hjá mörgum konum. Mjólkin framleiðist í þessum vef og rennur fram í gangakerfið. Einstaka kona fær óþægilegan stálma í þetta svæði. Hann verður oft verður verri við notkun brjóstahaldara sem þrengja að göngum og hindra eðlilegt flæði. Stíflaðir mjólkurgangar og brjóstabólga geta komið í þennan vef sem og brjóstvefinn í brjóstinu sjálfu. Kaldir bakstrar eftir gjafir og Íbúfen draga úr þrota og geta bætt líðan. Brjóst eru vökvarík líffæri og viðkvæm fyrir áverkum og þrota. Þegar þroti myndast veldur það hindrun bæði á blóðrás og sogæðakerfi. Slík vökvahindrun veldur staðbundinni bólgu, verkjum og hættu á sýkingu. Af þessari ástæðu er mikilvægt fyrir konur með brjóstvef í handarkrika að forðast föt sem þrengja að eða brjóstahaldara sem þrýstir að vefnum á meðan stálminn gengur yfir.
Aukabrjóstvefur, gangar og vörtur geta verið hvar sem er á svokallaðri mjólkurlínu sem liggur frá handarkrika niður í nára. Aukavefur getur mjólkað.Hann líkist eðlilegum kirtilvef en er alveg aðskilinn frá hinum eiginlega brjóstvef. Þetta eru eðlileg frávik á sköpunarverkinu og ekki álitið sjúklegt. Þar sem ekki er útrás fyrir framleidda mjólk í aukavef þornar mjólkin þar upp líkt og við afvenjun og eymslin minnka smám saman. Sjálf brjóstin verða ekki fyrir neinum áhrifum. Það er þekkt að konur finna ekki fyrir einkennum fyrr en eftir eitt eða fleiri börn.
Aukamjólkurgangar geta opnast hvar sem er á mjólkurlínunni. Þeim tengist hvorki brjóst eða vörtuvefur. Þeir geta lekið í brjóstagjöf.
Aukavörtur eru oft ófullkomnar að formi og líkjast fæðingarbletti. Þær liggja á mjólkurlínunni og eru algengastar í undirbrjóstsfellingunni. Lítill ganga og kirtilvefur er undir og mjólkurdropar geta sést við losunarviðbragð. Slíkur vefur getur þó sjaldnast framleitt eitthvert magn mjólkur. Mæður geta verið fullvissar um það að aukabrjóst og aukavörtur munu ekki trufla brjóstagjöf, þó einstaka sinnum geti myndast brjóstabólga í slíkum vef sem þarfnast meðferðar. Vel formaðar aukavörtur sjást stöku sinnum en slíkt liggur gjarna í ættum. Slíkum aukavörtum eru gjarnan tengdir gallar á þvagrásarkerfi.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að algengasta ástæða þess að mæður hætta brjóstagjöf er að þær telja sig ekki hafa næga mjólk. Langflestar mæður geta þó framleitt næga mjólk fyrir barnið sitt og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að mjólkurframleiðslan sé ekki næg.
Ákveðin hegðun barna getur valdið því að foreldrar telja barnið ekki vera að fá nóg. Þegar barnið kvartar við brjóstið, sýgur brjóstið mjög lengi eða virðast allt í einu vilja drekka mun oftar en venjulega koma áhyggjur foreldra gjarnan fram. Þessi hegðun barnsins á sér oftast aðra skýringu. Í sumum tilfellum kemur mjólkurlosunarviðbragðið seint fram og barnið verður óþolinmótt. Barnið getur verið þreytt eða yfir sig æst og þarf að sjúga lengur til þess að ná ró. Stundum Þarfnast barnið nálægðar við móður eða líður einfaldlega ekki vel.
Vaxtarkippir geta verið ein skýringin á auknum sogtíma barnsins. Þá sjúga þau brjóstið oftar og lengur til þess að örva brjóstin til að framleiða meiri mjólk. Vaxtarkippir virðast koma oftast á eftirfarandi aldri:
2.-3. vikna
6. vikna
3. mánaða
Barnið gæti viljað sjúga á klukkutíma fresti í 1-2 daga en fellur síðan aftur hægt í sama gjafafjölda og áður.
Sogmynstur barns og líkamsstarfssemi móður getur breyst með tímanum. Barn getur orðið tæknilegra færara um að ná meira mjólkurmagni á styttri tíma og þannig verið að fá nóg að drekka.
Þegar mjólkurframleiðsla móður hefur aðlagast kröfum barnsins finnst móður brjóstin verða mýkri og hún finnur ekki fyllingu milli gjafa jafnvel þótt þau séu að framleiða sama eða meira magn mjólkur. Leki úr brjóstum verður líka minni eftir því sem tíminn líður og hefur ekkert með mjólkurmagn að gera. Einnig geta konur fundið minna fyrir mjólkurlosunarviðbragðinu þegar líður á brjóstagjöfina.
Öfug kjöltustaða
Móðir situr, barn liggur þvert yfir kjöltu móður og snýr maga að maga. Barnið liggur á framhandlegg handar sem er fjær brjósti, lófi styður milli herðablaða barnsins og greipin er lauslega utan um hálsinn. Þetta veitir stuðning bæði við höfuð og háls. Hendin nær brjósti stjórnar geirvörtu með U-gripi, þá er vinstri lófi á brjóstkassa undir vinstra brjósti, þegar hann snýr upp kemur þumallinn á utanvert brjóstið en hinir fjórir fingurnir á svæðið sem snýr að miðju. Brjóstið hvílir þá í U formi sem myndast milli þumals og vísifingurs.
Þegar barn opnar munninn ýtir móðir með lófanum milli herðablaða barnsins. Þetta gerir það að verkum að haka barns kemur fyrst að brjósti og veitir því tækifæri til að grípa vel ósamhverft um vörtuna. Ekki ýta á hnakka barnsins. Hann er viðkvæmur og barn bregst við með því að streitast á móti. Gott er að nota púða til þess að halda barni nálægt brjóstinu.
Þegar mæður eru komnar á lagið geta þær jafnvel rennt hinum handleggnum undir barnið og þannig lokið gjöf í venjulegri kjöltustöðu. Öfug kjöltustaða er góð þegar móðir og barn eru að læra á brjóstagjöfina.
Kjöltustaða
Móðir situr, barn liggur þvert yfir kjöltu móður og snýr maga að maga. Höfuð barnsins liggur á framhandlegg eða í olnbogabót þeirrar handar sem er nær brjóstinu. Framhandleggur styður við bak barnsins og höndin er um rass og mjaðmir þess. Gott er að nota púða til þess að halda barni nálægt brjóstinu.
Besta tak á brjósti í kjöltustöðu er samlokutak, þá er brjóstið klemmt saman milli þumals annars vegar og hinna fingranna á móti. Passa að klemma saman eins og munnur barns liggur. Hugsið ykkur muninn á að reyna að bíta í fótbolta eða stóra þykka samloku sem hægt er að móta flata. Sá hluti vörtubaugs sem snýr að neðri kjálka barns kemur fyrst að munninum. Vörtu er vísað upp í góminn og efri vör er sá hluti sem síðast lokast yfir vörtuna. Takinu er haldið meðan barnið sýgur fyrstu sogin, hvílir og er byrjað aftur að sjúga. Þá er byrjað að losa varlega.
Kjöltustaðan er ein algengasta gjafastellingin og sú sem oftast er sýnd á myndum. En hún getur verið erfið fyrir nýjar, óvanar mæður. Það getur verið erfitt að stjórna höfði barnsins í þessari stellingu og nýfædda barninu hættir til að kreppast í hnút. Kjöltustaða er heldur ekki besti valkosturinn ef móðir og barn eiga í vandræðum með grip eða ef móðir er með sárar vörtur. Þessi stelling hentar vel fyrir eldri börn þar sem brjóstagjöfin gengur vel.
Fótboltastaða
Móðir situr og barnið liggur við hlið hennar. Móðir hefur þéttan púða við hlið sér til að barn sé lárétt í hæð við brjóst móður. Barn snýr maga að móður og líkami þess er undir handlegg hennar. Rass barnsins hvílir við bak stólsins, sófans eða veggsins sem setið er upp við. Efra bak barns hvílir á framhandlegg móður og hún styður við háls þess með höndinni. Hin hendin stjórnar geirvörtu með C-gripi, þar sem fjórir fingur eru undir brjósti og þumalfingur vel fyrir ofan geirvörtubaug.
Þetta er mjög gagnleg staða fyrir konur sem farið hafa í keisaraskurð því barnið kemur hvergi nærri skurðsárinu. Hún er líka góð fyrir mæður með flatar eða inndregnar vörtur og börn með grip eða sogvandamál því móðir hefur betri yfirsýn yfir brjóst og barn. Hún hefur líka betri stjórn á höfði barns.
Hliðarlega
Móðir liggur á hliðinni með kodda undir höfði. Barn liggur á hliðinni og snýr að móður, gjarnan með púða eða upprúllað handklæði við bakið. Móðir lyftir neðri hendi upp og efri hendi stýrir geirvörtu.
Hliðarlega er hjálpleg mæðrum sem eru að jafna sig eftir keisaraskurð eða spangarklippingu. Hún er góð leið til að róa barnið fyrir svefn, fyrir næturgjafir eða ef móðir er þreytt og þarf hvíld um leið og hún gefur brjóst.
Biological nurturing “barnið finnur geirvörtuna sjálft”
Móðir er í hálfsitjandi stöðu þannig að það fari vel um hana og hún nái slökun. Barnið er lagt ofan á móður húð við húð, maga við maga með höfuð á milli brjóstanna og barnið leitar sjálft að geirvörtunni. Þyngdaraflið er látið styðja við barnið sem hvetur leitunarviðbragðið.
Þegar móðir og barn eru í nánu húð við húð sambandi eftir fæðinguna, flæðir oxytocin auðveldlega hjá móður. Áhrifin eru jákvæð fyrir brjóstagjöf og tengslamyndun. Í biological nurturing heldur móðirin á barninu eins lengi, oft og í eins miklu húð við húð snertingu og hún vill, jafnvel þó barnið sé ekki svangt eða að drekka.
Sömu grundvallaratriði gilda um brjóstagjöf eftir keisaraskurð og fæðingu um leggöng. Þegar fylgjan hefur verið fjarlægð úr leginu hefst hormónaferlið sem örvar mjólkurmyndunina. Áður var talið að keisaraskurðurinn sem slíkur hefði þau áhrif að mjólkurframleiðslu seinkaði. Aðgerðin sjálf getur mögulega haft einhver áhrif, þá sérstaklega ef mikið hefur blætt, en það sem er talið spila stærstan þátt er aðskilnaður móður og barns eftir aðgerðina. Minni snerting móður og barns og færri tækifæri til þess að leggja barnið á brjóst virðist því hafa mest um það að segja hversu vel brjóstagjöfin kemst af stað. Það er því mikilvægt að móðirin fái barnið í fangið um leið og hægt er og að barnið sé lagt á brjóst sem allra fyrst. Í dag fær móðirin barnið yfirleitt á bringuna á meðan hún er enn á skurðarborðinu og er jafnvel reynt að leyfa barninu að sjúga brjóstið ef það er farið að leita. Annars er barnið lagt á brjóst helst um leið og er komið inn á vöknun þar sem móðirin er fyrst eftir aðgerðina að jafna sig. Ef þarf að flytja barnið á vökudeild eftir keisaraskurð aðstoðar ljósmóðir móðurina við að handmjólka brjóstin sem fyrst til þess að hún fái örvun.
Fyrstu dagana eftir aðgerðina getur móðirin fundið fyrir verkjum og er þá mikilvægt að finna brjóstagjafastellingu sem henni líður vel í. Sumum mæðrum finnst gott að liggja á hliðinni. Þá eru púðar notaðir til þess að stuðla að vellíðan hennar, t.d. undir höfuð, milli fóta og við bakið og getur einnig hjálpað að setja lítinn kodda eða upprúllað handklæði yfir kviðinn til að verja skurðsvæðið frá mögulegum spörkum frá barninu. Ef móðir er með smá brjóst getur hjálpað að hafa kodda undir barninu til þess að hækka það aðeins upp.
Öðrum finnst betra að sitja og er þá yfirleitt betra að sitja í góðum stól en í rúminu. Það er gott að hafa þá kodda eða brjóstagjafapúða undir barninu, bæði til að koma því fyrir í þægilegri hæð og til að vernda skurðsvæðið. Mörgum finnst gott að gefa barninu í fótboltastellingunni þar sem barnið kemur þá ekki nálægt skurðsvæðinu.
Það er mikilvægt að leggja barnið sem oftast á brjóst fyrstu dagana (og nætur) og sleppa snuði og ábótargjöfum nema sérstakar ástæður gefi tilefni til þess.
Einnig er gott að passa upp á að taka verkjalyf reglulega yfir daginn til þess að slá á verkina og þannig gera brjóstagjöfina þægilegri.
Mæður nýbura og ungbarna eru oft áhyggjufullar vegna flensufaraldra og annarra veikinda sem ganga meðal manna. Þær hafa þó flestar í fórum sínum sterkt vopn fyrir börnin sín sem er brjóstagjöfin. Í brjóstamjólk eru efni sem styrkja varnarkerfi nýbura gegn pestum.
Brjóstabörn geta þó eftir sem áður orðið veik en fá þá venjulega veikina vægari.
Ef mæður smitast sjálfar er mikilvægt að þær haldi brjóstagjöf áfram. Það er liður í að hjálpa barninu að verjast. Þær hafa að öllum líkindum smitast nokkrum dögum áður en þær urðu einkenna varar. Á þeim tíma er líkami þeirra byrjaður að mynda mótefni. Þau mótefni berast með mjólkinni til barnsins og hjálpar þeim að verjast veikinni. Ekki er vitað hvort veirurnar sjálfar komast yfir í mjólkina en það er talið ólíklegt miðað við rannsóknir á fyrri faröldrum. Ef mæður treysta sér ekki til að hafa barnið í svo náinni snertingu í veikindunum er sjálfsagt að mjólka brjóstin og fá ósmitaðan fjölskyldumeðlim til að gefa barninu hana.
Það er engan veginn hægt að koma í veg fyrir að móðir smiti barn sitt en það er hægt að minnka líkurnar. Góður handþvottur er mikilvægur sem aldrei fyrr. Það er líka mælt með að mikið veikar mæður noti maska við umönnun barna sinna á meðan smitskeiðið stendur yfir (1 degi fyrir einkenni-7 dögum eftir að einkenni byrjuðu) því ekki er alltaf auðvelt fyrir móður með barn í höndunum að grípa bréfþurrku.
Aðalsmitleiðir flestra veirusýkinga eru hósti og hnerri eða réttara sagt öndunarfæradropar sem berast með hósta og hnerra. Þannig að fólk þarf að vera í nokkuð nánu sambandi til að smitast. Veiran getur líka lifað í dropum sem lenda á yfirborði þannig að almennt hreinlæti skiptir máli. Það er skynsamlegt að forðast mannmarga staði og samneyti við fólk með flensueinkenni ef ungbarn er á heimilinu.
Ef barnið veikist er mikilvægt að það fái brjóstamjólkina áfram. Eins og áður segir fær það mótefni með henni og einnig er algengt ef börn fá hita að þau þurfi að sjúga brjóst jafnvel oftar en endranær til að uppfylla aukna vökvaþörf. Það ætti ekki að gefa barninu aðra vökva t.d. vatn eða þurrmjólk því það veikir varnarmátt brjóstamjólkurinnar. Þetta gildir til 6 mánaða aldurs. Eftir það byrja margar mæður að kynna aðra fæðu fyrir börnum sínum sem er eðlilegt. Brjóstamjólkin á þó að vera í aðalhlutverki áfram og á flensutímabilum er skynsamlegt að halda í brjóstagjöfina jafnvel ívið lengur en ætlað var.
Það er í góðu lagi fyrir mæður með börn á brjósti að taka inn flensulyf sem eru í boði. Þau á að taka sem allra fyrst eftir að einkenna verður vart en það getur líka gagnað að taka þau fyrribyggjandi ef mikið samneyti hefur verið við smitaðan einstakling. Börnum sem veikjast má líka gefa flensulyf hvort sem þau eru á brjósti eða ekki. Þessi lyf á auðvitað eingöngu að taka inn í samráði við lækni. Skammtar fara þá eftir aldri. Það er einnig í lagi að bólusetja konur sem eru með barn á brjósti.
Sum börn vilja ekki fara á brjóst strax eftir fæðingu en vilja svo taka það seinna. Það getur því borgað sig að reyna aðeins áfram og sjá hvort barnið taki ekki brjóstið á endanum. Ef móðir hefur nægar mjólkurbirgðir eru góðar líkur á því að barnið taki brjóstið af sjálfsdáðum, yfirleitt ekki seinna en við 4-6. vikna aldur. Stundum þurfa mæður að handmjólka sig eða fara í brjóstapumpu reglulega fyrstu dagana til að örva mjólkurmyndun ef barnið neitar brjóstinu.
Ef barn nær ekki að taka brjóstið verður það ergilegt og getur það valdið vanlíðan hjá móður og dregið úr kjarki hennar og annarra sem eru í kring. Konum líður gjarnan eins og barnið sé að hafna þeim og getur það reynst erfitt.
Mikilvægt er að fá leiðsögn hjá ljósmóður og/ eða brjóstagjafaráðgjafa til þess að læra leiðir til þess að auka líkur á að barnið taki brjóstið. Til eru ýmis hjálpartæki sem geta hjálpað barninu að læra að taka brjóstið.Ástæðurnar geta verið ýmsar, t.d. óþroskað sog, tunguhaft, flatar eða innfallnar geirvörtur o.fl.
Mikilvægt er að móðir hafi barnið húð við húð eins fljótt og hægt er eftir fæðingu, það örvar barnið til þess að vilja sjúga og örvar brjóstin til að framleiða mjólk. Stundum verður aðskilnaður á milli móður og barns fljótt eftir fæðingu og getur það í sumum tilfellum valdið því að barnið vilji ekki taka brjóstið strax. Ef barnið fer á brjóst eftir fæðinguna er mikilvægt að fá aðstoð með að sjá hvort það sé að taka brjóstið rétt og leyfa því að vera eins lengi á og það vill.
Barn vill frekar grípa í brjóst þar sem mjólkurflæðið er gott, þannig að ef barn fer á brjóst og flæði er lítið eða ekkert grípur það kannski en ekki vel. Þau eru ófær um að ná mikilli mjólk svo þau japla í smá stund og sofna svo. Þetta er líklega staðan hjá mörgum börnum á fyrstu dögunum þar til mjólk móðurinnar fer að aukast.
Flestar mæður hafa næga mjólk/brodd fyrir barnið sitt fyrstu dagana. Mikilvægt er að barnið grípi geirvörtuna vel til þess að ná broddinum og þannig örva brjóstin til þess að framleiða meiri mjólk.
Brjóstakýli í brjóstagjöf er læknisfræðilegt vandamál sem oftast er afleiðing ófullnægjandi meðferðar við brjóstabólgu (mastitis) eða brjóstabólgu sem lætur ekki undan meðferð. Um 3% kvenna með brjóstabólgu fá brjóstakýli. Um er að ræða sýkingu sem hefur valdið graftarpolli í brjóstvef. Stundum lekur smávegis gröftur úr geirvörtunni.
Brjóstakýli myndast þegar einkenni brjóstabólgu dvína ekki þrátt fyrir sýklalyfjameðferð heldur breytist þéttingin í brjóstinu í afmarkaða kúlu sem getur valdið allt frá litlum eymslum upp í verulega slæma verki. Roðinn getur haldist eins, aukist eða horfið. Hitinn getur lækkað og almennur lasleiki viðhelst.
Greining er gerð með þreifingu og ómskoðun á brósti. Ómskoðun sýnir staðsetningu og legu kýlisins. Afmörkuð vökvasöfnun sést sem hægt er að tæma út með ástungu. Stundum þarf að endurtaka ástungu. Mikilvægt er að hætta ekki brjóstagjöf snögglega á þessum tíma þar sem það getur gert ástandið verra. Sýklalyf eru gefin samhliða og mælt með hvíld og áframhaldandi brjóstagjöf.
Ef gerð er ástunga með nál þarf aðeins staðdeyfingu. Síðan er stungið á kýlið og dreginn út gröftur. Eftir á þarf engar umbúðir nema í mesta lagi lítinn plástur. Konan fer síðan heim. Ef endurteknar ástungur skila ekki árangri getur þurft að opna kýlið á skurðstofu og setja inn dren. Sjúkrahúslega er yfirleitt hálfur dagur eða heillBarnið á rétt á að vera hjá móður sinni á sjúkrahúsinu þar sem það er alfarið háð henni um alla næringu. Þegar gröftur hættir að seytla úr dreninu er það fjarlægt (oftast eftir 1-4 daga).
Mikilvægt er að halda áfram brjóstagjöf hvort sem kýli er fjarlægt með ástungu eða skurði, þar sem hún kemur í veg fyrir að brjóstin fyllist og ný brjóstabólga myndist. Það getur því tafið fyrir batanum ef konan hættir brjóstagjöf á þessu tímabili. Ef skurðsár er við vörtu þannig að það lendi upp í barni eða að það er eindreginn vilji móður, má mjólka brjóstið tímabundið eða hætta brjóstagjöf alveg á því brjóstinu sem skorið var í en gjöf haldið áfram á hinu. Ef móðir ákveður að hætta brjóstagjöf þeim megin sem skurðurinn er ætti að hvetja hana til að mjólka það brjóst annað slagið á meðan framleiðslan dvínar þannig að þrýstingur verði aldrei til verulegra óþæginda.
Ef brjóstakýli er batnandi er mælt með að klára 7-10 daga sýklalyfjameðferð. Konur geta fengið tíma hjá brjóstaráðgjafa sem fylgir konunni eftir með símtali eða kemur í vitjun.
Einkenni
Helstu einkenni brjóstabólgu eru roði, hiti, bólga og verkur í brjóstinu á afmörkuðu svæði og getur hún verið með eða án þess að konur fái hita. Brjóstabólga kemur fram sem aumur blettur eða hnútur í brjósti. Um 3-10% mjólkandi mæðra fá brjóstabólgu.
Brjóstabólga getur verið án sýkingar, þar sem er roði, eymsli og hiti í brjósti.
Brjóstabólga getur verið með sýkingu, þar sem er roði, hiti og eymsli í brjósti ásamt hitahækkun (≥38,5˚C) í meira en 24 klst. Flensulík einkenni og kuldahrollur getur komið fram.
Brjóstabólgu getur fylgt brjóstaígerð (abscess) þar sem bólgan veldur graftarpolli í brjóstvef.
Orsakir
Orsakir brjóstabólgu geta verið margar:
Sár á geirvörtu
Ófullnægjandi tæming úr brjósti
Röng staðsetning barn á brjósti, barnið nær ekki góðu taki eða ósamhæft sog barns
Löng hlé á milli gjafa
Mikil mjólkurframleiðsla
Fatnaður sem þrengir að brjóstum
Streita og/eða þreyta hjá móður
Aðskilnaður móður og barns
Meðferð
Þegar brjóstabólga kemur upp er mikilvægasta meðferðin að tæma brjóstið oft og vel, en stífla í mjólkurgangi er oftast orsök brjóstabólgu. Gott er að reyna að hvílast og nærast eins vel og hægt er, jafnvel skríða upp í rúm og hafa barnið nálægt með óhindraðan aðgang að brjóstinu. Mikilvægt er að hætta ekki með barnið á brjósti þegar brjóstabólga er til staðar, þar sem það eykur líkurnar á sýkingu og ígerð.
Hitabakstur á brjóstið í nokkrar mínútur fyrir gjöf getur hjálpað til við að tæma brjóstið og auðvelda mjólkurflæði. Best er að staðsetja barnið þannig á brjóstinu að hakan snúi að bólgunni/stíflunni, það auðveldar tæmingu á því svæði. Best er að reyna að leggja barnið fyrst á sýkta brjóstið til þess að auka líkur á að það tæmi sem mest úr því brjósti. Einnig er gott að nudda brjóstið varlega á meðan á gjöf stendur, en gott er að nudda brjóstið frá stíflunni og í átt að geirvörtu. Stundum getur verið gott að handmjólka eða nota mjaltavél eftir brjóstagjöf ef brjóstið mýkist ekki vel eftir gjöf. Mikilvægt er að passa að barnið taki brjóstið rétt og vel. Eftir brjóstagjöf er gott að nota kaldan bakstur í nokkrar mínútur til þess að draga úr bólgu, bjúg og verkjum.
Oft duga þessar ráðleggingar til þess að laga brjóstabólgu. Ef kona hefur verið með einkenni brjóstabólgu, hita og flensulík einkenni í 24 klst þarf að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum, ásamt því að halda áfram að leggja barnið ört á brjóst. Gott er að taka inn verkjalyf á meðan mestu verkirnir og hitinn er að ganga yfir.
D mer (Dysphoric milk ejection)
Það kemur fyrir að konur finni fyrir vanlíðan tengt brjóstagjöf. Það er vanlíðan sem er einungis tengd við brjóstagjöfina og er ekki til staðar annars. Þetta er fremur sjaldgæft fyrirbæri og hefur verið skilgreint sem D-MER og merkir vanlíðan tengd mjólkurlosunarviðbragði. Vanlíðanin hellist yfir konur þegar mjólkurlosunarviðbragðið verður og hverfur nokkrum mínútum síðar, yfirleitt á innan við fimm mínútum.
Þær tilfinningar sem konur geta meðal annars fundið fyrir er kvíði, svimi, mikill leiði, pirringur, vonleysi, reiði, skömm, ofurviðkvæmni og þunglyndi. Í mjög alvarlegum tilvikum geta konur fundið fyrir alvarlegum þunglyndiseinkennum og sjálfsvígshugsunum.
Upplifun D-MER er ólík fæðingarþunglyndi, þar sem hún er alfarið tengd mjólkurlosunarviðbragðinu og hormónum sem tengjast því. D-MER getur verið til staðar í nokkrar vikur, mánuði eða alla brjóstagjöfina.
Vanlíðanin er talin tengjast hormónunum sem koma fram við brjóstagjöfina, Prolactin og Oxitocin ásamt Dópamíni. Þegar mjólkurlosunarviðbragðið fer í gang minnkar magn Dópamíns í líkamanum svo magn Prolactins geti aukist og framleitt meiri mjólk fyrir barnið. Flestar konur finna ekki fyrir því þegar þetta gerist en hjá konum með D-MER fellur magn Dópamíns í líkamanum óvenjulega mikið með þeim afleiðingum að konurnar finna fyrir vanlíðan.
D-MER er líkamlegt ástand sem tengist hormónum og er ekki sálrænt ástand. Einkennin geta verið mismunandi eftir konum og misalvarleg.
Fyrirbærið hefur lítið verið rannsakað og margir vita ekki að það sé til.
Konum finnst þær eiga að geta gefið barninu sínu brjóst og geta notið þess, nándarinnar og tengslamyndunar. Tilfinningar geta komið fram um að það sé eitthvað mikið að og valdið mikilli hræðslu. Sumar konur hætta snemma með barnið sitt á brjósti vegna þessa.
Hvað er til ráða?
Lítið er vitað um hvað hægt er að gera til þess að minnka vanlíðan. Talið er að streita geti gert ástandið verra og er því mikilvægt að reyna að skapa aðstæður þar sem konur finna ekki fyrir streitu og reyna þannig að koma jafnvægi á þau hormón sem tengjast brjóstagjöfinni. Gott er að passa að drekka vel af vatni og minnka neyslu á koffeini. Það er gott fyrir konur að þekkja ástandið og vita hvað er að gerast þegar þær finna fyrir þessu. Það er gott að ræða þessar tilfinningar og líðan við fagaðila, ljósmóður, hjúkrunarfræðing eða lækni og fá aðstoð og ráðleggingar.
Hjálplegar síður
Flestar mæður geta framleitt næga mjólk fyrir barn sitt. Ónóg mjólkurframleiðsla tengist oft læknisfræðilegum vandamálum s.s. brjóstaaðgerð, lélegu sogi barns, rangri stöðu við brjóstið, pillunni, vanstarfsemi skjaldkirtils og fleiri þáttum. Flest af þessum vandamálum er oftast hægt að leiðrétta.
Eftir fæðingu er broddur í brjóstum sem barn sýgur fyrstu dagana. Barn sýgur oft 8-12 sinnum á sólarhring. Mjólkin ætti að koma á 2-5 degi eftir fæðingu. Barn þitt fæðist með auka vökva í vöðvum sínum og skilst hann út á fyrstu 48 klst. eftir fæðingu. Þetta þyngdartap er venjulega um 200-230 gr eða um 5-7% af líkamsþyngd. Nýru nýbura við fæðingu eru óþroskuð og því ekki tilbúin til að fá of mikið magn af vökva á þessum tíma. Þess vegna er þetta litla magn af broddi (límkenndi gulleiti vökvinn sem kemur úr brjóstunum áður en mjólkin kemur) fullkomin fæða fyrir meltingu barns og broddurinn er einnig mjög ríkur af mótefnum. Á fyrsta sólarhring eftir fæðingu framleiðir þú um 37 ml af broddi. Barn þitt sýgur 7-14 ml í hverri gjöf.
Venjulega á öðrum til þriðja degi fara brjóst þín að breytast þ.e. verða heitari, fyllri og þyngri. Á þessum tíma byrjar þú að framleiða breytta mjólk sem er samsett mjólk af bæði broddi og þroskaðri mjólk. Mjólkin er gulleit að lit. Seinna verður hún hvít, eða á 5-7 degi. Finni móðir ekki breytingar á brjóstum sínum er ráðlagt að hafa samband við brjóstagjafaráðgjafa, ljósmóður eða heilsugæsluhjúkrunarfræðing.
Þegar mjólkin er komin, ættir þú að finna að brjóstin eru fyllri fyrir gjafir og mýkri eftir gjafir. Þú gætir séð mjólk dreypa úr eða jafnvel sprautast úr öðru brjóstinu er barnið sýgur hitt brjóstið. Þetta er svokallað losunarviðbragð.
Barn þarf að fara á brjóst að minnsta kosti 8-12 sinnum á sólarhring fyrstu vikurnar. Mörg nýfædd börn sjúga 10-12 sinnum eða oftar (kannski ekki á fyrsta sólarhring en eftir það). Þetta á bæði við um langar gjafir og stuttar gjafir. Fyrstu dagana sýgur barnið oftar og styttra í einu. Einnig þarfnast barn nálægðar móður, til tengslamyndunar. Að gefa brjóst á 1½-3 klst fresti yfir daginn er eðlilegt fyrstu dagana. Ef barn þitt sýgur á 4 klst fresti á fyrstu tveim vikunum þá þyngist barnið ekki nóg.
Ef barn sofnar á fyrra brjósti og er frekar latt að sjúga er mjög gott að hafa það eingöngu á bleyjunni og nota húð við húð móður til að örva það til að sjúga. Einnig er gott að skipta tímanum á bæði brjóstin. Barn þitt ætti að sjúga taktfast í 10-15 mín á hverju brjósti eða lengur. Það getur tekið pásur af og til en ætti að sjúga kröftuglega á meðan á gjöf stendur. Oft sofnar barn við brjóstið þegar það hefur sogið vel og ætti þá að vera ánægt. Sé barn syfjað í allri gjöfinni nær það meiri mjólk með því að sjúga í 5 mín á hvoru brjósti þar það hefur fengið nægju sína. Skipting á milli brjósta örvar sog barns.
Þú ættir að heyra barn kyngja er það sýgur brjóstið á 2-3 degi.
Þegar mjólkin er komin þá getur verið næg mjólk í öðru brjóstinu þannig að barn sjúgi einungis annað brjóstið í einu.Ein besta aðferðin til að vita hvort barnið þitt fái nóg er að skoða útskilnað barnsins. Á fyrsta sólarhring ætti barnið að bleyta eina bleyju, á öðrum sólarhring 2-3 bleyjur, á þriðja sólarhring 3-4, á fjórða 4-6 og þar eftir fleiri en 6 bleyjur. Þá ætti þvagið að vera orðið tært/ljóst að lit með mildri lykt. Á fyrstu dögunum getur verið appelsínu/rauð litaður blettur í bleyjunni sem lítur út eins og blóð en eru þvagkristallar, sem er eðlilegt og kemur fyrir hjá sumum nýfæddum börnum.
Jafnframt segja hægðir barnsins til um næringarinntekt þess. Á fyrsta sólarhring skilar barnið svörtum tjörukenndum hægðum, á öðrum til þriðja degi þegar mjólkin fer að aukast verða þær mýkri svartar/grænar, á þriðja degi grænar/gular og á fjórða til fimmta degi gular kornóttar. Þá ætti barnið að skila hægðum 4x á sólarhring miklu magni en gæti skilað hægðum í hverja bleyju, þá minna magni.
Fylgst er með þyngdaraukningu barns á sjúkrahúsi eða í heimaþjónustu ljósmóður. Barnið er vigtað þegar það er þriggja sólarhringja gamalt og síðan í fimm daga skoðun. Eftir það er heldur eftirlit áfram í ungbarnavernd heilsugæslunnar.
Sumar konur geta fengið exem á gerivörtuna á meðan á brjóstagjöf stendur. Exem á vörtu og stundum vörtubaug og brjóstum lýsir sér með roða, þurrki, eymslum og jafnvel brunatilfinningu. Flagnandi útbrot geta líka verið til staðar.
Algeng orsök fyrir exemi er sápuþvottur eða áburður sem inniheldur ertandi efni. Sum krem innihalda hnetuolíu, en þeir sem hafa ofnæmi fyrir hnetum ættu að forðast hana. Önnur krem innihalda lanólín, en þeir sem hafa ofnæmi fyrir ull ættu að forðast þau krem. Kókósmjör er einnig gjarnan notað í krem og ættu þeir sem hafa ofnæmi fyrir súkkulaði að forðast það. Ráðlagt er að konur með exem forðist allt það sem gæti ert húðina t.d. brjóstaskeljar, brjóstainnlegg o.s.frv. Útbrotin hverfa venjulega fljótt með réttri meðferð og konur forðast orsakavaldinn.
Sár vegna snertingar við ertandi efni hafa ekki áhrif á barnið svo ekki er mælt gegn brjóstagjöf nema hún trufli gróandann eða valdi sýkingu. Latex ofnæmi er hægt að meðhöndla með sterakremum og halda brjóstagjöf áfram. Að sjálfsögðu þarf að forðast latex og ber að hafa í huga hversu víða það er notað t.d. í bólstrun gjafabrjóstahaldara og í geirvörtuhlífum.
Fingurgjöf er ákveðin tækni sem veitir þér tækifæri til að gefa barni þínu án þess að nota pela. Fingurgjöf er einnig aðferð sem hjálpar barni þínu til að taka brjóst ef því gengur illa. Ef þig langar til að geta haft barn á brjósti með góðum árangri er betra að reyna að forðast pela áður en mjólkurframleiðslan er komin í gott jafnvægi.
Fingurgjöf er hægt að nota:
- Ef barn neitar af einhverri ástæðu að taka brjóst eða ef barn er of syfjað til að reyna að sjúga. Þetta er einnig góð leið til að vekja syfjað barn.
- Ef barn nær ekki að sjúga brjóst á réttan hátt og nær þ.a.l. ekki að sjúga mjólkina vel úr brjóstinu. (Ef hægt er að nota hjálparbrjóst við brjóstið þá er ekki nauðsynlegt að nota fingurgjöf).
- Ef barn er aðskilið frá móður af einhverri ástæðu. Í þeim tilfellum er besti kosturinn þó sennilega að gefa barni með staupi.
- Ef brjóstagjöf er hætt í stutta stund.
- Ef vörtur þínar eru svo sárar að þú getur ekki lagt barnið á brjóst. Þá getur verið gott að nota fingurgjöf í nokkra daga meðan vörturnar eru að gróa og án þess að barnið venjist á pela. Það er einnig frekar við hæfi að nota staup við þessar aðstæður, og það tekur minni tíma. Þetta er notað sem síðasta úrræði. Rétt stelling og rétt sogtækni við gjafir er miklu betri til að laga sárar vörtur en fingurgjöf.
Fingurgjöf er miklu líkari brjóstagjöf en pelagjöf. Við fingurgjöf verður barnið að setja tunguna niður og fram yfir góminn, hafa munninn vel opinn ( því stærri sem fingurinn er því betra) og að kjálkinn komi fram á við. Hreyfingin á tungu og kjálka er mjög lík því og þegar barn sýgur brjóst. Fingurgjöf hentar best til að undirbúa barn að taka brjóst. Það ætti að nota fingurgjöf í eina til tvær mínútur áður en barn er lagt á brjóst ef það hefur ekki viljað taka brjóstið. Staupgjöf er auðveldari og fljótlegri til að gefa barni fyrstu dagana ef móðir er
Ef barnið tekur brjóstið getur verið gott að nota hjálparbrjóst þurfi barnið að fá ábót. Það er gert meðal annars til þess að barnið haldi áfram að örva brjóst móðurinnar.
Fingurgjöf -er best að læra með því að fylgjast með hvernig hún er framkvæmd eða reyna hana.
- Þvoðu þér vel um hendurnar. Það er betra ef neglur hafa verið klipptar stutt.
- Það er best að þú komir þér og barninu vel fyrir áður en þú byrjar. Höfuð barnsins ætti að hvíla vel á annarri hendi þinni ásamt stuðningi við axlir og háls. Barnið ætti að vera í fangi þínu og snúa að þér. Hvaða staða sem þér þykir best fyrir þig og barnið er það í lagi.
- Þú þarft slöngu (sondu) sem er fest á fingurgóminn og pela eða sprautu sem hefur að geyma brjóstamjólk eða þurrmjólk eftir kringumstæðum. Endi slöngunnar er settur ofan í vökvann.
- Settu slönguna þannig að hún liggi á fingurgómnum. Endinn á slöngunni á að ná fram að fingurgómnum, alls ekki fram yfir fingurgóminn. Ef þetta er vel gert þarf ekki að líma slönguna við fingurinn.
- Þegar fingurinn er notaður með slöngunni, er gott að kitla varir barnsins lauslega, þangað til að barnið opnar munninn vel svo fingurinn komist í munn þess. Ef barn er mjög syfjað, en þarf að fá fæðu má smeygja fingrinum upp í munn barnsins. Oftast byrjar barnið að sjúga þó að það sé sofandi og við að fá vökva vaknar það.
- Settu fingur upp í munn barnsins þannig að fingurgómurinn snúi upp að harða gómnum í munninum. Haltu fingrinum eins flötum og hægt er. Venjulega byrjar barn að sjúga fingurinn og sýgur hann enn lengra inn í munninn. Barnið kúgast ekki þrátt fyrir að það sjúgi fingurinn langt inn í munninn, nema að það sé satt eða vant pela.
- Ýttu höku barnsins niður ef neðri vörin sýgst inn í munninn
- Tæknin virkar ef barn drekkur. Gangi hægt að gefa barninu getur þú þurft að hækka flöskuna yfir höfuð barnsins eða ýta á sprautuna. Reyndu að halda fingri þínum beinum með þrýstingi á tunguna. Beindu ekki fingrinum upp heldur reyndu að halda honum flötum, þannig að tunga barnsins haldist niðri og neðri kjálkinn gangi fram.
- Notkun fingurgjafar með sprautu til að þrýsta mjólk upp í munn barnsins er erfið og oft ekki árangursrík aðferð Ef þú átt í erfiðleikum með að láta barn grípa eða sjúga brjóst, mundu að hungrað barn getur gert þetta erfiðara. Gefðu því barni smávegis með fingurgjöf til að róa það. Þegar barn hefur róast og sogið í 1-2 mín fingurinn skaltu bjóða því brjóstið aftur. Ef þú átt áfram í erfiðleikum, ekki gefast upp, haltu áfram fingurgjöf reyndu síðan aftur brjóstið. Þetta gengur venjulega. Stundum þarf í nokkra daga, viku eða lengur að notast við fingurgjöf
Ef þú ert að útskrifast af sjúkrahúsi og notar fingurgjöf skaltu fá viðtal við brjóstagjafaráðgjafa eftir 1-2 daga. Því fyrr því betra.Þó að barn sé farið að sjúga brjóst getur það þurft að fá ábót með hjálparbrjósti af og til.
Börn virðast fæðast með þær væntingar að geirvörtur móðurinnar séu teygjanlegar. Hvatinn að sogviðbragðinu er snerting á svæðinu á mótum harða og mjúka góms. Ef barn getur ekki mótað vörtuna þannig að hún nái þessu dýpi lendir það í vandræðum með brjóstagjöfina. Barnið getur virkar ruglað í ríminu, hreyfir höfuðið fram og til baka, rekst í brjóstið og kreppir hnefana. Sum börn öskra á meðan önnur detta út og sofna. Sumar mæður upplifa þetta eins og barnið viti ekki hvernig það eigi að loka munninum umhverfis vörtuna. Ef þessi börn fá pelatúttu bregðast þau vel við. Þar kemur snerting sem er nógu sterk til að kveikja á kerfinu. Hins vegar gefur túttan of mikla örvun vegna þess að pelatútta er stór, hörð og óeftirgefanleg og gefur því meiri örvun en mjúk og eftirgefanleg varta að barnið neitar venjulega brjóstinu á eftir jafnvel þótt vartan hafi verið dregin út í millitíðinni. Flöt varta hefur ekkert að segja í keppni við hratt flæði úr pela með túttu sem örvun.
Teygjanleika vörtu er ekki hægt að meta sjónrænt. Taka verður á vefnum með því að klípa saman fyrir aftan vörtuna. Annað hvort þrýstist vartan út, verður flöt eða skreppur inn. Að geta tekið einhvern hluta vörtubaugsvef milli þumals og vísifingur bendir til teygjanleika. Best er ef hægt er að mynda tog á vörtubaugsvef. Stálmi dregur mjög úr teygjanleika vörtu og vörtubaugs og veldur tímanbundið flatari vörtum. Handmjólkun og kaldir bakstrar draga úr þrota og mýkir brjóstið. Það auðveldar barninu grip.
Stór og sterk börn sjúga svo kröftuglega að þau geta ráðið við lítinn teygjanleika. Ef barn er hinsvegar lítið, fyrirburi eða veikt getur það ásamt flatri eða inndreginni vörtu leitt til brjóstagjafavandamála. Samlokutak á brjósti og þynning vefsins í sama plani og munnur barnsins, hjálpar því að finna ákveðnar fyrir vörtunni. Ef móðir getur mjakað þessu horni af brjóstinu langt inn í munninn kveikir það oft á viðbrögðum barnsins. Mikilvægt er að halda takinu á brjóstinu nægilega lengi og ekki sleppa fyrr en barnið er farið að sjúga vel.
Í sumum tilfellum þurfa konur að notast við svokallaðan mexíkanahatt til þess að barnið nái taki á geirvörtunni. Best er að gera það í samráði við ljósmóður sem sinnir heimaþjónustu og fá leiðsögn.
Brjóstagjöf ætti að vera auðveld og vandræðalaus fyrir flestar konur þegar þær hafa náð réttum tökum. Það tekur alltaf smá tíma að læra réttu handtökin og fyrir móður og barn að læra á brjóstagjöfina. Mikill meirihluti kvenna er fullkomlega fær um að hafa börn sín eingöngu á brjósti í 4-6 mánuði. Einstaka kona mjólkar þó ekki nægilega eða getur ekki haft barn sitt á brjósti af einhverjum orsökum. Til dæmis eftir sumar brjóstaaðgerðir, vegna hormónasjúkdóma eða vanþroska á kirtilvef. Ástæður geta líka verið vegna ástands hjá barni svo sem tunguhaft, skarð í vör og góm, veikt eða óþroskað sog og fleira.
Góð byrjun hjálpar til við að tryggja að brjóstagjöf verði ánægjuleg reynsla bæði fyrir móður og barn. Til þess að brjóstagjöf komist vel af stað geta góðir fyrstu dagar skipt sköpum.
Til þess að auka líkur á því að brjóstagjöfin gangi vel, er mikilvægt að barnið sé húð við húð móður eins fljótt og hægt er eftir fæðingu og fái óhindraðan aðgang að brjóstinu fyrstu dagana. Mikilvægt er að koma barninu á brjóst sem fyrst eftir fæðingu.
Mikilvægt er að fá barnið til að grípa geirvörtuna vel. Barn sem grípur vörtu vel fær vel af mjólk. Þegar barn grípur illa fær það ekki næga mjólk og getur það einnig valdið sársauka í vörtunni. Það er mikilvægt að fá ljósmóður til að aðstoða og skoða grip barnsins eftir fæðingu til þess að ganga úr skugga um að það taki brjóstið vel. Móðir þarf að vera örugg í að leggja barn sitt rétt á brjóst áður en hún fer heim af fæðingadeild. Gott grip skiptir sköpum fyrir árangur og er lykillinn að árangursríkri brjóstagjöf.
Leggja ætti barnið að brjósti með maga að bringu móður og nefbrodd að geirvörtunni. Þegar barnið opnar munnin þarf að klemma brjóstið saman eins og munnur barnsins liggur, vísa vörtunni upp í góm á barninu og renna henni eftir gómloftinu upp á tunguna. Það er neðri kjálki barnsins sem kemur fyrst að brjóstinu og það er neðri hluti vörtunnar sem fer meira upp í munninn en sá efri. Þegar barn sýgur rétt er takturinn þannig að það er opnun-stopp-lokun og aftur opnun-stopp-lokun. Það er í þessu örlitla stoppi (sem þó sést alveg) við mestu opnun kjálkans sem mjólkin rennur upp í munninn.
Miðjugrip er það kallað þegar barn opnar munninn og vörtu er vísað beint inn í munninn og barni þrýst að um leið. Þessi aðferð er víða kennd í bókum og hefur verið notuð lengi með góðum árangri. Hún gerir þó sumum börnum ókleift að ná nógu stóru svæði upp í sig sem leiðir til þess að barn nær mjólkinni ekki nógu vel. Einnig er hætta á að barnið loki munni of nálægt vörtunni og særi hana.
Ósamhverft grip felur í sér að stærra svæði vörtubaugs er hulið við neðri vör barnsins en efri vör. Neðri kjálki barnsins kemur fyrst að brjóstinu og vörtunni er vísað ákveðið upp í gómloft barnsins. Áhersla er á að stærra svæði sé tekið í munninn hökumegin. Í upphafi er nef barnsins við vörtuna þannig að það þurfi aðeins að teygja sig í vörtuna. Þessi hreyfing verður til þess að neðri kjálki kemur fyrst að brjósti. Það síðasta sem snertir brjóstið er efri vörin. Ef rétt er gert fletjast varir barnsins út af sjálfu sér. Ósamhverft grip er hægt að nota í öllum stellingum og er sérlega gott ef vörtur eru sárar eða aumar því álagið breytist á vörtunni.
Atriði sem vert er að hafa í huga þegar barn er lagt á brjóst:
Að barninu sé haldið þétt að brjóstinu (frá sjónarhorni móður sést aðeins efri vör og kinn barnsins).
Að barn sé lagt á brjóst áður en það fer að gráta.
Að sogið fylgi eðlilegum takti: opnað vel - stopp - lokað.Þegar handmjólka á brjóstin er gott að byrja á því að setja heitan bakstur á brjóstið í 2-3 mínútur. Nudda síðan brjóstið og geirvörtubaug í nokkrar mínútur til að örva tæmingarviðbragð. Nota skal hringlaga hreyfingar og léttan þrýsting.
Þegar brjóstið er handmjólkað er þumalfingur lagður 2-3 cm fyrir ofan geirvörtu og fjórum fingrum 2-3 cm fyrir neðan (C-grip). Þrýst er inn í brjóstið að brjóstkassa og kreist mjúklega saman, þumli og fingrum er síðan rúllað fram að geirvörtu. Við þetta sprautast mjólk úr geirvörtu. Þrýstingurinn er losaður og ferlið endurtekið. Þegar mjólkurflæðið minnkar eru hendurnar færðar hringinn í kringum brjóstið og ferlið endurtekið.
Þunnan sílikon hatt/mexíkanahatt er hægt að nota til aðstoðar barni sem nær ekki taki á brjósti eða til þess að verja tímabundið sárar geirvörtur móður. Mikilvægt er að velja hatt af kostgæfni. Lengd túttunnar má ekki vera meiri en lengdin á munni barnsins frá mótum mjúka og harða gómsins til vara. Ef svo er verður aðalálagið á mótum vörtu og vörtubaugs sem leiðir til þess að barnið nær lítilli mjólk. Það getur líka leitt til þess að barnið er sífellt að kúgast og verður fráhverft brjóstinu vegna þess. Vídd túttnanna er líka breytileg til að koma til móts við misbreiðar vörtur. Meðalvartan er 15-17 mm breið við rótina. Sum börn virðast eiga erfitt með að ráða við vörtur yfir meðalbreidd. Stórir hattar geta valdið sama vandamáli hjá sumum börnum. Því er mikilvægt að velja rétta stærð á hatti, en of lítill hattur getur valdið sársauka á geirvörtu.
Þegar mexíkanahattur er settur á brjóstið er hann brettur inn, lagður innbrettur og örlítið teygður til hliðanna akkurat á miðja geirvörtu og slétt þar úr honum, þannig sogast geirvartan inní hattinn. Sumum finnst betra að hita hattinn undir heitu vatni áður en lagt er á til að gera hann meðfærilegri. Á einum stað á 360° hattsins er búið að skera úr honum, sá hluti hattsins fer þangað sem nef barnsins mun fara, til þess nef þess liggi ekki utan í plasti.
Þegar venja á af hatti yfir á brjóstið beint hefur gefist vel að byrja í miðri gjöf þ.e. gefa í nokkrar mínútur með hattinum, taka hann af og bjóða brjóstið. Þá er vartan yfirleitt komin út og mesta spennan undir vörtunni farin. Slík afvenjun gengur misjafnlega eins og gefur að skilja og yfirleitt best því fyrr sem hún er framkvæmd. Smærri börn þurfa oft lengur á hatti að halda og fyrirburar eru oft látnir hafa hatt sem millistig frá pela yfir á brjóst.
Hattar eru ófullkomin tæki og fylgjast þarf vel með gjöfum. Stellingu og grip þarf að meta því barn getur sogið hattinn illa. Ef barn sýgur hattinn aðeins fremst er líklegt að sár myndist og lítil mjólk komi. Móður er ráðlagt að pumpa eftir gjafir ef mjólk er ekki næg eða mjólkurvigta til að fylgjast með árangri.
Það eru tveir Herpes Simplex vírusar sem frá sjónarhóli brjóstagjafar má líta á sem einn. Mörg okkar hafa þessa vírusa án þess að vita það. Vírusinn af tegund I veldur munnsárum hjá börnum en frunsum á varir hjá fullorðnum. Hann getur líka valdið sárum líkum hlaupabólu á hvaða aldri sem er. Þó er það oft að fólk sem sannanlega hefur smitast (hefur mótefni í blóði) fær aldrei nein einkenni.
Báðir vírusarnir geta valdið alvarlegum veikindum á hvaða aldri sem er en eru hættulegri fyrir börn innan við mánaða gömul sérstaklega ef þau smitast í fæðingu. Alvarlegasta sjúkdómsmyndin sést þó þegar fóstur sýkist á meðgöngu, einkum á fyrsta þriðjungi.
Vírusarnir smitast með snertingu við opin sár sem innihalda vírusa. Svo lengi sem ungbarn er ekki í snertingu við opin sár er engin ástæða til að forðast brjóstagjöf. Ef sár er á sjálfri geirvörtunni ætti augljóslega að forðast að gefa brjóst á því brjósti. Sár annarstaðar á líkama móður má hylja til að vernda barnið fyrir sýkingu.
Þegar barnið er orðið eldra en mánaða gamalt er mun minni hætta á alvarlegum veikindum af völdum þessara vírusa þótt það sé möguleiki á hvaða aldri sem er.
Sum börn fá sár í munn af völdum herpes víruss. Þau geta valdið þó nokkrum sársauka og í sumum tilfellum neitar barnið að drekka sem getur leitt til þurrks. Oft eru sárin í viku eða meira. Börn sem eru á brjósti eru frekar tilbúin að taka brjóst og forðast þannig þurrk annars þarf að finna aðrar næringaraðferðir. Ef á einhvern hátt er mögulegt að halda brjóstagjöfinni áfram ætti gera það.
Heilbrigðir nýburar eru fæddir með viðbrögð sem hjálpa þeim við brjóstagjöf. Þessi viðbrögð eru t.d. kynging, sog, snúningur höfuðs, að kúgast og hósta.
Hjá börnum sem fæðast fyrir tímann, skaðast eða veikjast svo og óregla á líkamsstarfsemi getur haft áhrif á virkni þessara viðbragða. Ef viðbragð er bælt eða ofvirkt getur barnið átt í vandræðum með að nærast eðlilega.
Kynging þróast snemma í fósturlífi (12-14 vikur) með kyngingu legvatns. Vökvi aftast á tungunni ásamt viðbrögðum efnaviðtaka í koki setja af stað kyngingu hjá nýbura. Vanstarfsemi kyngingarviðbragðs getur leitt til lélegra gjafa og valdið of lítilli þyngdaraukningu.
Sog hefur sést innan legs í fyrsta lagi við 15-18 vikur. Við 28 vikur sjást óskipulegar og handahófskenndar munnhreyfingar. Næringarlaust sogmynstur þróast áður en sog til næringar þróast. Næringarlaust sogmynstur breytist með þroska. Bæði fjöldi soga í hverju sogtímabili og sogkraftur aukast þegar barnið þroskast. Sumir telja að reynsla af næringarlausu sogi sé gott fyrir fyrirbura. Við 32. viku byrjar sterkt sog með mynstri sogtímabila og hvílda að koma fram. Við 34-35 viku geta sum börn haldið reglulegu sogmynstri sem nægir til árangursríkrar næringar. Samt sem áður eru gjafir á þessum aldri yfirleitt stuttar og börnin þreytast fljótt.
Sog er örvað með snertingu við varir og tungu og strokum á mótum harða og mjúka góms. Heilbrigð börn breyta soghraða í gjöf. Mjólkurflæði er lítið áður en mjólkurlosunarviðbragðið fer af stað í fyrsta sinn, svo byrjun gjafar einkennist af hröðum stuttum sogum sem hvetja losunina. Þá breytir barnið yfir í kröftugt en hægara og taktfastara mynstur sogs til næringar. Mynstrið er skipulagt kringum sogtímabilin og aðlagað að miklu mjólkurflæði eftir mjólkurlosunarviðbrögð. Ör kynging sést í sogi til næringar eða u.þ.b. 1-3 sog á móti 1 kyngingu. Venjulega getur barn tekið 10-20 sog/kyngingarhringi áður en það tekur hvíld. Þetta mynstur er endurtekið í nokkrar mínútur. Þegar nálgast enda gjafar verða sogtímabilin styttri og hvíldirnar lengri. Á þessum tíma getur barnið verið að innbyrða hitaeiningaríka eftirmjólk og ætti að fá að enda gjöfina sjálft ef hægt er.
Næringarlaust sog er hraðara, grynnra og með færri kyngingum, 6-8 sog á móti 1 kyngingu. Hraust fullburða börn geta skipt fram og til baka úr sogi til næringar í næringarlaust sog í einni gjöf. Breytilegu sogmynstri í eðlilegri gjöf ætti ekki að rugla saman við barn sem ekki getur sogið sér til næringar. Þau börn eru gjarnan með lokuð augu og geta ekki haldið uppi eðlilegum sogtímabilum til næringar. Einkennandi eru stuttar, grunnar og höggvandi kjálkahreyfingar, engin kynging og skortur á viðbrögðum. Þetta eru vísbendingar um að barnið geti ekki náð mjólk. Í þessum tilfellum getur verið þörf á mjólkurvigtun til að sanna málið.
Með fáum undantekningum er þéttni flestra lyfja í móðurmjólk sérlega lítil og skammturinn sem barnið fær of lítill til að valda áhrifum. Mikilvægt er að kanna vel skráðar upplýsingar um lyf og þéttni þeirra í móðurmjólk. Almennar lyfjaskrár eru ekki besti staðurinn til að afla slíkra upplýsinga því að nær án undantekninga setja lyfjaframleiðendur viðvörun við brjóstagjöf á lyf, aðallega vegna hræðslu við málarekstur en sjaldan vegna lyfjafræðilegra ástæðna.
Magn lyfs sem fer í mjólk byggist á mörgum þáttum s.s. fituleysanleika lyfsins, sameindastærð, blóðþéttni sem næst í blóðrás móður, prótínbindingu í blóðrás móður og helmingunartíma. Í flestum tilfellum er mest ákvarðandi þáttur um ferð lyfja yfir í mjólk þéttni þess í blóði móður. Lyf fara bæði í og, í nær öllum tilfellum, út úr mjólk aftur í samræmi við þéttni í blóðrás móður. Um leið og þéttni lyfsins í blóði móður byrjar að falla fer lyfið út úr mjólkinni samhliða. Fituleysanleiki lyfja er þáttur sem skiptir miklu máli. Lyf sem eru mjög fituleysanleg fara yfir í mjólk í meira magni næstum án undantekninga. Lyf sem eru virk í miðtaugakerfi virðast fara á sömu eiginleikum yfir í mjólk. Þannig að ef lyf virkar í miðtaugakerfi má búast við hærri þéttni þess í mjólk. Próteinbinding skiptir líka miklu máli. Lyf hringsóla í blóðrás móður ýmist bundin albumini eða laus. Það eru þau lausu sem komast yfir í mjólk en þau bundnu verða eftir í blóðrás móður. Þess vegna hafa lyf með mikla prótínbindingu t.d. warfarin lága þéttni í mjólk vegna þess að þau eru lokuð úti.
Þegar lyf hefur komist í móðurmjólkina og barnið hefur innbyrt hana þarf lyfið að fara gegnum meltingarveg barnsins áður en það er tekið upp. Sum lyf eru mjög óstöðug í þessu umhverfi vegna ensíma og sýra. Almennt eru magar nýbura ansi súrir og geta gert mörg lyf óvirk t.d. heparín og insúlín. Önnur lyf eru illa tekin upp í blóðrás nýbura. Að auki eru mörg lyf leyst sundur í lifur og komast aldrei í plasma þar sem þau myndu virka. Þessi upptökuvandamál vinna þegar allt kemur til alls að því að minnka heildaráhrif margra lyfja. En það eru vissulega til undantekningar á þessari reglu og það þarf að hafa í huga að áhrif lyfs á meltingarveg geta verið mikil og valdið niðurgangi, hægðatregðu o.fl.
Það getur verið krefjandi verkefni fyrir nýbakaða foreldra að lesa í merki barnsins. Hvort sem lesa á í þarfir þess, vökustig, svengdarmerki, merki um veikindi og fl.
Barn í góðu, stöðugu ástandi sýnir viðeigandi svefnmynstur miðað við aldur, það getur grátið kröftuglega og hefur hæfileika til að þagna. Foreldrum finnst auðvelt að hugga það og fá skýreyga athygli og jákvæðan andlitssvip.
Barn í streituástandi sýnir hegðun eins og að vesenast, sífra, líta undan eða stara. Foreldrar lýsa því sem pirruðu, grátandi, óhuggandi með kvíðafulla athygli og óeirð. Þessi börn stífna gjarnan upp, gleikka sundur fingur, bregður auðveldlega og gretta sig.
Ef barn sýnir streitumerki aðeins í tengslum við gjafir bendir það til að eitthvað tengt gjöfunum sé yfirþyrmandi fyrir barnið. Tímasetning þess hvenær barn byrjar að sýna streitumerki í gjöf getur bent til orsaka hennar.
Börn geta ekki farið á brjóst djúpt sofandi eða ákaft grátandi. Þar fyrir utan er misjafnt á hvaða vökustigi hverju einstöku barni hentar best að drekka.
Meðgöngulengd, þroski og heilbrigði barns hefur áhrif á hvaða vökustig er ríkjandi. Fyrirburar eyða miklum tíma á svefnstigi og ástand eins og gula gerir börn löt eða pirruð sem hefur áhrif á áhuga þeirra á brjóstagjöf. Börn sem eru meidd eða veik geta haft slík óþægindi að þau ná ekki einbeitingu í gjöf.
Börn sýna mismunandi merki þegar þau verða svöng. Algengast er smjatt eða munni opnað og lokað á víxl. Varir sleiktar, gapað og hönd sett í munninn. Þessi merki eru missterk eða áberandi og það er líka einstaklingsbundið hversu langur tími líður frá fyrstu svengdarmerkjum þar til þolinmæðin er þrotin.
Brjóstaþroski gerist ósamhverft og flestar konur hafa annað brjóstið aðeins stærra en hitt, stundum er áberandi stærðarmunur. Einstaka sinnum eru brjóst rör eða flöskulaga. Það þarf ekki að hafa neina merkingu en getur bent til líkamlegs ástands sem hindrar fulla brjóstagjöf.
Samkvæmt rannsókn framleiddu konur með vanþroska öðrum eða báðum megin 50% eða minna af þeirri mjólk sem nauðsynleg var fyrir barnið. Margar þessara kvenna fundu engar breytingar eða stækkun á brjóstum á meðgöngunni. Þótt sumar næðu rólegri aukningu í framleiðslu með góðri hjálp var 61% þeirra ófær um að ná fullri framleiðslu á fyrsta mánuði. Mikilvægt er að fylgjast vel með barninu til að tryggja eðlilegan vöxt. Mörgum gefst vel að gefa ábót með hjálparbrjósti við þessar aðstæður. Konan þarf líka auka aðstoð til að hvetja til mestu mögulegu framleiðslu hvenær sem þessir líkamlegu annmarkar eru sjáanlegir. Góð ráðgjöf getur haft úrslitaáhrif þegar kona hefur þessi einkenni því þau geta þýtt akkúrat ekki neitt. En þar sem vandkvæði koma snemma fram í brjóstagjafaferlinu þurfa konur með óvenjulega löguð brjóst sérstaka athygli og eftirfylgni til að tryggja að þær nái að nýta alla sína getu til mjólkurframleiðslu.
Sjúkdómar með óeðlilegu hormónastreymi geta haft áhrif á hæfni til mjólkurframleiðslu. Blöðrur á eggjastokkum sem gefa frá sér hormón geta skýrt tilfelli þar sem konur hafa mjólkað eðlilega með fyrra barn en stálmar ekki eða framleiðir mjólk. Vanhæfni til að mjólka eftir fæðingu barns er óeðlilegt fyrirbæri og getur krafist tilvísunar til innkirtlafræðings.
Ónógur kirtilvefur er sjaldgæfur. Konan merkir ekki breytingar á brjóstum á meðgöngu eða eftir fæðingu. Við þreifingu finnst aðeins kirtilvefur í flekkjum í annars linu brjósti. Þrátt fyrir góða aðstoð eru þessar konur ófærar um að mjólka nægilega. Það geta verið tengsl milli ónógs kirtilvefs og skjaldkirtilssjúkdóms. Í tilfellum þar sem mjólkurframleiðsla er léleg í byrjun getur komið til greina að reyna lyf sem auka mjólkurframleiðslu.
Það virðist verða brjóstvöxtur við hverja meðgöngu og það lítur út fyrir að aukinn þroski verði við hverja brjóstagjöf. Eða kannski hafa konur aukið sjálfstraust eða betri stuðning í annað skipti. Allavega hefur rannsókn á konum sem gekk illa með fyrstu brjóstagjöf sýnt að þær framleiddu marktækt meiri mjólk við annað barn.
Mjólk manna getur haft ýmis litbrigði. Broddur getur verið tær, skærgulur, hvítur, appelsínugulur, bleikur og ljósbrúnn. Börn drekka líklega nokkuð oft litaðan brodd en við sjáum það bara ekki. Sum fæða, vítamín, lyf og bragðbættir drykkir geta litað mjólk án þess að skaða barnið. Bleik eða brún mjólk fær lit sinn af blóði úr mjólkurgöngum sem er að hreinsast út við upphaf brjóstagjafar. Þetta er kallað Rusty pipe syndromeog er vel þekkt fyrirbæri. Það er óhætt að gefa barninu þótt móður finnist það kannski truflandi.
Magn brodds er lítið á fyrsta degi, sérstaklega hjá frumbyrjum. Enda getur magi nýburans lífeðlisfræðilega tekið við 6 ml á fyrsta degi og 12 ml á öðrum degi. Þótt magn broddsins sé ekki mikið getur það mætt þörfum barnsins. Handmjólkun er einföld leið til að ná broddi til að gefa barni sem ekki fer á brjóst. U.þ.b. 0.5 ml er stærð sopa hjá nýfæddu barni og 8-10 sopar af þeirri stærð er nægilegt í gjöf á fyrsta sólarhringnum fyrir fullburða heilbrigt barn.
Samkvæmt rannsóknum er heildarframleiðsla mjólkur á fyrsta sólarhring 3-32 ml. Magnið eykst svo hægt og rólega á næstu dögum og er orðið u.þ.b. 175 ml á öðrum degi og 360-500 ml á 3ja degi. Á þessum tölum má sjá að magnið er ansi breytilegt en almennt má segja að heilbrigðar konur geta framleitt mikið magn mjólkur. Hvað barnið tekur til sín er hins vegar breytilegt milli einstaklinga og sá þáttur er ákvarðandi um mjólkurframleiðslu móður frekar en raunveruleg framleiðslugeta.
Einkennandi litabreyting verður þegar broddur breytist yfir í þroskaða mjólk. Mjólk sem orðin er fullþroska er hvít og formjólk hennar getur verið rétt eins og skýjað vatn en eftirmjólkin rjómagul. Formjólkin er þynnri en eftirmjólkin og því fyllri sem brjóstin eru því minna er fituinnihald mjólkurinnar miðað við heildarmagn.
- Munnur barns er vel opinn.
- Varir barns brettast út og hylja meiri hluta geirvörtubaugs við neðri vör.
- Haka barns og nef eru þétt að brjóstinu.
- Höfuð barns hallar aðeins aftur þegar barnið sýgur.
- Kinnar barns virðast fullar og rúnnaðar.
- Barnið er með góðan stuðning í „maga við maga“ stöðu hjá móður sinni.
- Brjóstagjöf er sársaukalaus.
- Barnið sýgur geirvörtu og kyngir á brjóstinu.
Margar mæður þurfa af einhverri ástæðu að mjólka sig með mjaltavél til að viðhalda mjólkurframleiðslu fyrir barnið. Mjaltavél líkir eftir sogi barns en barn getur sogið betur og tæmt brjóstin betur. Oftast tekur lengri tíma að mjólka sig með mjaltavél en að leggja barn beint á brjóst.
Hve oft á að mjólka?
Ákjósanlegast er að mjólka sig á 3 klst fresti með einni lengri pásu, í mesta lagi 6 klst, yfir nóttina. Á fyrstu dögunum er mjólkað í 20-30 mínútur samtals. Til þess að örva mjólkurframleiðslu er gott að mjólka fyrst 5 mín á hvoru brjósti og síðan 10 mín á hvoru brjósti. Þegar mjólkin er ,,komin”í brjóstin er gott að miða við að mjólka jafn mikið magn og barnið þarf á að halda til að vaxa og dafna.Mjólkurframleiðsla
Mikilvægur þáttur í mjólkurframleiðslunni er losunarviðbragðið. Tvö hormón eru nauðsynleg mjólkurframleiðslunni það eru Prólaktín og Oxytósín. Þegar mjólk er til staðar í göngum brjóstanna og örvun verður á geirvörtum veldur það því að boð fara til heila og losa hormónið Oxytósín. Oxytósín veldur því að frumur kringum mjólkurganga dragast saman og þrýsta mjólkinni út. Losunarviðbragð kemur einnig þótt móðir sé ekki að mjólka t.d. ef hún hugsar um barnið eða heyrir það gráta. Sumar mæður finna streymi í brjóstum en aðrar ekki þ.e. þegar losunarviðbragðið fer af stað. Ef barn er að sjúga verður móðir vör við að barnið kyngir örar en sé hún að mjólka sig sér hún meira flæði koma.Losunarviðbragðið getur truflast vegna sársauka, spennu eða álags.Prólaktín er hormónið sem framleiðir mjólk þegar mjólkað er reglulega úr brjóstum með sogi barns eða mjaltavél. Á fyrstu dögunum eftir fæðingu framleiða brjóstin brodd sem inniheldur mikið af mótefnum. Hver dropi er mikilvægur fyrir barnið. Þú getur hjálpað til við losunarviðbragðið með því að hlusta á rólega tónlist, hugsa um barnið eða horfa á mynd af því. Leggja heita bakstra á brjóstin fyrir mjöltun, nudda brjóstin mjúklega ofan frá og að geirvörtu og koma þér þægilega fyrir áður en þú byrjar mjólkun. Athugaðu að taka símann úr sambandi og hafa heitan eða kaldan drykk hjá þér.
Ef þú hefur eingöngu mjólkað þig en vilt leggja barn á brjóst þegar kostur gefst á því er gott að láta barn liggja við brjóstið við sondugjafir. Barn sleikir stundum vörtuna í upphafi og tekur nokkur sog en verður svo þreytt. Barnið getur þurft tíma til að læra að sjúga. Smám saman náið þið svo að vinna saman þar til barn sýgur eingöngu af brjósti. Margar mæður leita til brjóstagjafaráðgjafa eða ljósmóður til að fá stuðning.
Stundum myndast hvítar bólur á geirvörum á fyrstu dögum eftir fæðingu. Oftast er þetta afleiðing af röngu sogi barnsins. Hins vegar getur mjólkurbóla birst eins og þruma úr heiðskíru lofti, stundum mörgum vikum eða mánuðum eftir að brjóstagjöf hófst. Það eru óljós tengsl milli mjólkurbólu og stíflu þannig að stíflan myndast í samsvarandi svæði brjóstsins og bólan á vörtunni. Mjólkurbóla getur þó komið á eftir stíflunni eða án þess að stífla myndist og að sjálfsögðu getur stífla myndast án mjólkurbólu. Sumir telja tengsl vera milli mjólkurbólu og sveppasýkingar.
Mjólkurbóla er alltaf á vörtutoppi og hún lítur út eins og graftarbóla, hvít og útbungandi. Það er þó ekki gröftur undir heldur kristölluð mjólk. Ef mjólkurbóla veldur ekki sársauka og tengist ekki stíflu er í lagi að láta hana eiga sig. Hún hverfur af sjálfu sér á mislöngum tíma. Ef um verki er að ræða geta þeir verið umtalsverðir, sérstaklega meðan barnið sýgur og þá einkum í lok gjafar. Til að mýkja upp mjólkurbólu má dýfa vörtu í heitt vatn eða setja bómullarhnoðra vættum í matarolíu á vörtuna inná brjóstahaldara. Hiti ofan á hnoðrann bæði linar sársaukann og mýkir hraðar upp þannig að hægt er að fletta efstu húðlögunum af. Stundum dugar þetta. Heilbrigðisstarfsfólk getur opnað mjólkurbólu með dauðhreinsaðri sprautunál. Það getur blætt nokkrum dropum sem er saklaust. Svo má kreista vörtubauginn. Út getur komið dröngull af hvítu efni og þar á eftir buna af mjólk. Sársaukinn hverfur þá yfirleitt umsvifalaust.
Þegar barn hefur sogið kröftuglega í nokkrar mínútur finna margar mæður sérstaka fiðringstilfinningu í brjóstunum og taka eftir auknu mjólkurrennsli. Þetta er mjólkurlosunarviðbragð. Það fer af stað nokkrum sinnum í hverri gjöf og mæður taka oft eftir leka úr hinu brjóstinu þegar það fer af stað. Börn bregðast oftast við mjólkurlosunarviðbragðinu með örari kyngingum. Jafnvel þótt ekki finnist fiðringur í brjóstunum er hægt að vita að það hefur farið af stað með því að fylgjast með sogmynstri barnsins. Stundum fer losunarviðbragðið af stað þegar móðir heyrir barn sitt gráta áður en gjöf er hafin. Hægt er að stöðva leka úr öðru brjósti á meðan gefið er af hinu með dyrabjölluaðferðinni. Ýtt er beint framan á vörtuna eins og dyrabjöllu og haldið á meðan talið er upp að 15. Þá ætti lekinn að vera hættur. Þetta getur þó þurft að endurtaka nokkrum sinnum.
Stöku sinnum kemur sterkt mjólkurlosunarviðbragð barni á óvart og því svelgist á og tekur andköf. Oftast nægir að rétta barn upp og leyfa því að jafna sig. En ef þetta er alltaf að endurtaka sig getur komið til greina að láta barnið sjúga upp í móti og láta þyngdaraflið þannig hjálpa til. Auðveldast er að leggja barnið á brjóst í sitjandi stöðu og þegar það hefur gripið vörtuna ð halla sér út af þannig að barnið liggi ofan á. Öðrum mæðrum finnst betra að koma mjólkurlosunarviðbragðinu af stað með handmjólkun og láta það sterkasta ganga yfir áður er barnið er lagt á brjóst. Svo eru sum börn sem nýta sér þá tækni að láta umframstreymið seytla út um munnvikið án þess að sleppa takinu.
Sumar mæður finna alls ekkert mjólkurlosunarviðbragð en það fer samt af stað ef brjóstagjöf gengur eðlilega. Hjá öðrum getur fiðringurinn verið það kröftugur að þær upplifa það sem verki. Á fyrstu vikum brjóstagjafar dregur svo smátt og smátt úr tilfinningunni, jafnvel hverfur hún alveg.
Brjóstamjólk er auðmelt og því vakna flest börn á brjósti oftar á nóttunni en börn sem fá þurrmjólk. Rannsóknir hafa líka sýnt að brjóstabörn eru eldri þegar þau fara að sofa alla nóttina. Það er þó vel hægt að hafa barn á brjósti og fá nægan næstursvefn.
Hægt er að gefa næturgjöf án þess að vakna almennilega, sem gerir það auðveldara að sofna aftur. Þægilegasti staðurinn fyrir næturgjafir er liggjandi í rúminu. Þegar barnið er komið á brjóst getur móðirin dottað eða að minnsta kosti hvílst. Til að skipta um brjóst er hægt að leggja barnið á bringuna á sér og velta yfir á hina hliðina (eða ýta barninu undir og klifra yfir það ef lítið pláss). Þegar barnið er búið að drekka nægju sína getur það sofið áfram við hlið móður sinnar. Mæður þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að þær velti sér yfir barnið. Jafnvel í svefni verða þær varar við barnið. Það ætti þó ekki að láta barnið sofa uppí ef foreldrar reykja, eftir neyslu áfengis, fíkniefna eða lyfja sem breyta svefnmynstri. Ef rúmi er ýtt að vegg er komið í veg fyrir að barn detti út úr rúmi. Börn ættu ekki að sofa í vatnsrúmi, á koddum eða öðru mjúku undirlagi sem hindrað gæti öndun. Foreldrar og börn hafa sofið hlið við hlið frá upphafi mannkyns og samsvefn gerir öllum í fjölskyldunni kleift að fá nægan svefn.
Ekki hentar öllum að láta börnin sofa uppí. Sumar mæður kjósa hægindastóla eða ruggustóla fyrir næturgjafir. Þá er gott að hafa teppi og kodda í seilingarfjarlægð. Það er um að gera að vera sveigjanlegur varðandi skipulag næturgjafa. Það getur breyst í samræmi við breyttar þarfir foreldra og barna.
Börn sem sofa hjá foreldrum venjast á endanum á eigið rúm og þau hætta á endanum að vakna á nóttunni.
Til þess að tryggja góða mjólkurframleiðslu frá upphafi er mikilvægt að leggja barn ört á brjóst fyrstu dagana og halda síðan áfram 8-12 gjöfum á sólarhring. Ef þess er ekki kostur er mikilvægt að móðir mjólki sig jafn oft og barnið myndi drekka. Of fáar og stuttar gjafir eru helstu orsakir of lítillar mjólkurframleiðslu. Aðrar orsakir geta verið streita, kvíði eða andleg vanlíðan, álag í foreldrahlutverki, reykingar, sumar brjóstaaðgerðir eins og brjóstaminnkun, hormónasjúkdómar, vanþroskaður kirtilvefur eða lyf sem móðir þarf að taka.
Til þess að auka mjólkurmyndun er mikilvægt að finna orsökina og leiðrétta hana ef þess er kostur. Annars eru helstu ráðin þau að auka tíðni, lengd og kraft brjóstagjafar og vera viss um að barnið taki brjóstið rétt. Gullna reglan er að því meira sem barnið sýgur því meiri mjólk kemur. Bjóða ætti barninu brjóst á 2-3 klst fresti. Bjóða bæði brjóstin í gjöf og halda barninu við efnið, t.d. með því að hafa það léttklætt og handmjólka upp í það á meðan það drekkur. Brjóstanudd örvar mjólkurframleiðslu, bæði á meðan barnið drekkur og á milli gjafa. Einnig má pumpa brjóstin eftir gjafir. Húð við húð meðferðin getur hjálpað og á það við á meðan barnið drekkur og á milli gjafa.
Ef barnið sýgur vel en sofnar fljótt á brjóstinu er hægt að nota skiptigjafir. Einnig er það tilvalið ef barn eyðir löngum hluta gjafar í tott án þess að drekka og þyngist hægt. Þegar notast er við skiptigjafir er skipt um brjóst um leið og áhugi barnsins minnkar eða hægja tekur verulega á sogi barnsins. Barnið er tekið upp, reynt að láta ropa, skipt er á bleiu og barnið vakið og sett á hitt brjóstið. Þegar sogið hægist aftur er barnið tekið af brjósti, það örvað og aftur boðið fyrra brjóstið. Þannig er skipt um hægra og vinstra brjóst til skiptist í 20-30 mín. í senn á tveggja tíma fresti yfir daginn og fjögurra tíma fresti á nóttunni. Það þarf að passa að barnið grípi vel og vartan sé langt upp í munni.
Mikilvægt er að móðirin fái næringarríkan mat, drekki vel, hvílist og nái slökun yfir daginn.
Á fyrstu dögunum eftir fæðingu þegar mjólkin kemur í brjóstin er eðlilegt að brjóstin verði þanin og móðir mjólki umfram það magn sem barnið þarfnast. Með tímanum stillast brjóstin af og móðirin fer að mjólka jafn mikið og barnið þarfnast til að vaxa og dafna. Ef ástandið er viðvarandi að móðir mjólki umfram þarfir barnsins er hægt að tala um of mikla mjólkurframleiðslu.
Of mikil mjólkurframleiðsla er yfirleitt klínísk greining. Móðirin neyðist þá til að mjólka sig og geyma umfram móðurmjólk. Það að barnið vaxi og dafni vel er mikilvægt við greiningu, því ástæðan fyrir fullum brjóstum getur verið að barnið sé ekki að drekka nógu vel.
Of mikil mjólkurframleiðsla getur virst gleðiefni fyrir konur sem mjólka ekki nægilega vel, en mæður sem mjólka of mikið eru í aukinni hættu á of hröðu mjólkurflæði, brjóstabólgu, brjóstastíflu, krónískum verkjum í brjóstum, pirruðu barni, brjóstapumpun eingögu og að hætta snemma með barn á brjósti.
Helstu einkenni of mikillar mjólkurframleiðslu eru yfirfull brjóst, geta ekki gefið bæði brjóst í gjöf og hratt mjólkurflæði, sem getur valdið því að barnið taki brjóstið of grunnt með tilheyrandi sáramyndun á geirvörtu. Önnur einkenni eru mikill leki úr brjóstum, krónískt þan og eymsli í brjóstum, stíflur og brjóstabólga sökum þess að barnið nær ekki að tæma brjóstin nógu vel. Einkenni hjá barni eru ásvelgingar og andköf þegar flæði mjólkur hefst, óhófleg eða ónóg þyngdaraukning, pirringur á brjósti, tíð uppköst eftir gjafir, vindgangur og sprengihægðir, sem eru jafnvel grænar og froðukenndar. Of mikil mjólkurframleiðsla getur valdið ójafnvægi í inntekt barns á formjólk og eftirmjólk þar sem barnið fær hlutfallslega of mikið af formjólk. Það getur í sumum tilfellum valdið slími og blóðrákum í hægðum.
Algengasta aðferðin til þess að minnka mjólkurframleiðslu er að gefa aðeins annað brjóstið í einu í ákveðin tíma. Þá er best að byrja á því að mjólka alveg úr brjóstunum eins og hægt er. Því næst er barninu gefið að drekka eins og það vill úr báðum brjóstum. Það sem eftir lifir dags er einungis annað brjóstið gefið í 3-4 klst og svo einungis hitt brjóstið næstu 3-4 klst. Þá helst annað brjóstið óáreitt í 3-4 klst og sendir með því skilaboð til mjólkurfrumna að minnka framleiðslu. Ef 3-4 klst nægja ekki til að hvíla annað brjóstið má lengja tímann. Móðirin ætti að finna fyrir minni framleiðslu á innan við 24-48 klst. Stundum dettur framleiðslan það mikið niður að móðirin þarf að gefa bæði brjóst í hverri gjöf. Aðrar þurfa að nota þessa aðferð endurtekið til að framleiðslan minnki. Ef þessi aðferð virkar ekki væri næsta skref að nota jurtir eða lyf til þess að minnka mjólkurframleiðsluna.
Á 3.-6. degi eftir fæðingu þegar fullþroska mjólk kemur í brjóstin í stað brodds verður aukið blóðflæði til brjóstanna vegna mjólkurmyndunar. Ef ekki er losað reglulega úr brjóstunum með árangursríkum hætti er aukin hætta á að stálmar myndist. Þá verður mikill bjúgur í brjóstvefnum sem þrengir að mjólkurgöngum og heftir mjólkurflæði úr brjóstunum. Brjóstin verða þrútin, aum og heit viðkomu og móðirin getur fengið hita.
Besta meðferðin við stálma er að barnið sjúgi oft og vel. Leggja barnið oft á brjóst og passa að það taki brjóstið vel. Erfitt getur verið fyrir barnið að ná góðu taki á brjóstinu vegna þess hve þrútið það er. Þá getur verið gott að mjólka aðeins úr brjóstinu fyrir gjöf til þess að mýkja það upp eða beita þrýstingi með fingrum í kringum geirvörtu. Einnig er gott að fara í sturtu og nudda brjóstin og mjólka úr þeim í sturtunni til þess að mýkja þau upp.
Hitabakstrar fyrir gjöf geta hjálpað með því að auðvelda mjólkurflæðið og kælibakstrar í 10-15 mín eftir gjöf geta hjálpað til að minnka verki og bjúg. Mikilvægt er að móðirin hvílist vel, nærist og drekki vel. Panodil og Ibufen geta hjálpað m.t.t. verkja og bólgu. Stálmar ganga yfirleitt yfir á innan við 48 klst ef þeir eru rétt meðhöndlaðir en geta þróast út í brjóstabólgu og brjóstasýkingu ef ekkert er að gert.
Pelagjafir með túttu á fyrstu vikunum eru taldar tengjast auknum brjóstagjafavandamálum og fleiri konum sem hætta brjóstagjöf. Ástæða þess er að hönnun flestra pelatútta koma barninu til að nota ólíkar tungu, kjálka og munnhreyfingar en þau nota við brjóstagjöf. Aðal ástæða þess er að hratt flæði mjólkur úr pelanum þvingar barnið til að halda tungunni fyrir aftan neðri góminn. Það þrýstir síðan tungunni upp í gómloftið til að stöðva vökvaflæðið þegar það þarf að anda. Þessi hreyfing er andstæða réttrar brjóstagjafahreyfingar þar sem barn á brjósti þarf að teygja tunguna fram yfir neðri góminn til að ná djúpu gripi og sjúga rétt. Valkostir í stað peratúttu eru t.d. teskeið, staup, sprautur, fingurgjöf og hjálparbrjóst.
Hægt er að koma í veg fyrir að barnið noti öðruvísi tungu, kjálka og munnhreyfingar við pelagjöf með því að nota túttu með hægu flæði og hafa pelann í láréttri stöðu við gjöf, til að takmarka flæðið og draga úr ruglingi við brjóstagjafahreyfingu. Hægt flæði getur forðað eða a.m.k. dregið úr þörf barns til að halda tungunni fyrir aftan neðri góminn. Til að prófa túttu ætti að halda henni eins og gert væri við gjöf og þá ætti að vera hægt að telja nokkrar sekúndur milli mjólkurdropa sem leka.
Ristill eru sársaukafull útbrot sem koma hjá fólki sem áður hefur fengið hlaupabólu. Hlaupabóluvírusinn getur legið í dvala í úttaugum mænu árum saman og jafnvel alla ævina. Af einhverjum ástæðum verður vírusinn aftur virkur og einstaklingurinn fær útbrot, yfirleitt aðeins á annarri hlið líkamans, oft í mjög ákveðinni línu. Þau geta komið hvar sem er en oft koma þau á andlit, brjóstkassa eða kviðarhol. Sárin líkjast hlaupabólu eða herpes simplessýkingum. Þau geta verið mjög sársaukafull eða alls ekki. Stundum eru sárin ekki bundin ákveðinni línu heldur dreifast um allan líkamann líkt og hlaupabóla.
Hvernig smitast Ristill? Sárin eru smitandi fyrir alla sem ekki eru ónæmir fyrir hlaupabólu, en bein snerting er nauðsynleg til smits.
Er brjóstagjöf hættuleg barninu?
Þessi staða er allt önnur en sú sem móðir lendir í við fyrsta hlaupabólusmit. Sú staðreynd að móðirin hlýtur að hafa fengið hlaupabólu áður þýðir að hún hefur flutt mótefni gegn henni til barnsins um fylgju. Þessi mótefni eru til staðar hjá barninu til 6 mánaða aldurs eða lengur eftir fæðingu. Að auki hefur mjólk móðurinnar að geyma mótefni gegn hlaupabóluvírusnum ásamt öðrum mótefnum. Þannig að þegar móðir með barn á brjósti fær ristil er engin ástæða til að aðskilja hana frá barni sínu og brjóstagjöf getur haldið áfram.
Þegar sár koma hvar sem er á húð er byrjað á því að hreinsa sárið til að fjarlægja óhreinindi sem gætu valdið sýkingu. Sár á geirvörtum eru engin undantekning. Mælt er með því að þvo sár á geirvörtum með volgu kranavatni eða saltvatni eftir hverja gjöf, til að koma í veg fyrir að sýklar úr munni barnsins nái að hreiðra um sig í sárinu. Sýklar úr munni barnsins eru skaðlausir á heilli húð en geta valdið sýkingu í opnu sári. Mæður geta sprautað á sárið úr brúsa og ættu að gæta vel að góðum handþvotti fyrir og eftir.
Forsenda þess að sár á geirvörtu grói er að barnið taki brjóstið rétt, sjá leiðbeiningar um álögn á brjóst undir dálknum “Brjóstagjöf”. Þegar búið er að leiðrétta grip barnsins á brjóstinu ætti sárið að gróa tiltölulega fljótt. Til að stuðla að gróanda í sárinu er mælt með rakameðferð í stað þurri meðferð. Hydrogel þynnur yfir geirvörtur halda rakastigi geirvarta réttu og búa til hagstæð skilyrði gróanda. Að nudda móðurmjólk á rofna húð stuðlar ekki að gróanda og getur valdið sýkingarhættu.
Sár á vörtum sem gróa ekki eftir að stellingar og grip hafa verið leiðrétt geta bent til sýkingar í sárinu. Staphylococcus Aureus er algengasti sýkingarvaldurinn í sárum. Þegar grunur vaknar um sýkt sár ætti að meðhöndla það með bakteríudrepandi kremi t.d. Bactroban. Það virkar gegn Staphylococcum og flestum Streptococcum auk þess að hafa einhverja virkni gegn sveppum. Einnig er mælt með því að þvo sýkt sár á geirvörtum með mildri sápu tvisvar á dag, auk þess að þvo þær með vatni eftir hverja gjöf. Ef vörtur eru orðnar sjáanlega sýktar og konan kvartar um sáran verk kemur til greina að setja konur á sýklalyf til inntöku.
Sárar geirvörtur:
Algengasta orsök sársauka við brjóstagjöf. Besta fyrirbyggingin er að leggja barn rétt á brjóst frá fyrsta degi.
Orsök
Yfirleitt sú að barn er ekki staðsett rétt við brjóstið eða grip þess á brjóstinu er ekki gott nema hvort tveggja sé. Stundum vantar upp á stuðning við annað hvort barnið eða brjóstið. Einnig getur verið að barnið sjúgi ekki rétt. Svo getur orsökin verið blanda þessara þátta. Barn sýgur rétt af eðlisávísun ef það er aðstoðað við rétta staðsetningu og vörtunni er beint rétt inn í munn þess. Ef vel gengur styrkist rétt sog frá gjöf til gjafar. Snuð, pelatútta eða hattur of snemma getur afvegaleitt rétt sog. Einnig getur gengið illa ef móðir og barn bera sig rangt að frá upphafi. Sum börn virðist síðan einfaldlega þurfa sinn tíma í að ná upp færni í réttu sogi.
Einkenni
Sársauki sem er verstur fyrst í gjöfinni en dofnar eða hverfur þegar líður á gjöf. Roði á geirvörtum, bjúgur á vörtutoppi, sprungur eða sáramyndun.
Meðferð
Sjá brjóstakorn um sárar geirvörtur.
Sveppasýking:
Sveppasýking veldur sársauka í gjöfum og getur verið erfitt að sjá berum augum.
Einkenni
Sársauki í byrjun gjafar sem dofnar en heldur þó áfram og getur orðið verstur í lokin eða eftir að gjöf lýkur. Byrjun á sársauka í vörtum sem hafa verið sársaukalausar í gjöfum í einhvern tíma (jafnvel vikur eða mánuði). Margar konur lýsa sviða eða brunatilfinningu sem jafnvel leiðir inn í brjóstið. Fíngerðar sprungur eða roði á mótum vörtu og vörubaugs.
Meðferð
Fá skoðun og staðfestingu hjá ljósmóður, lækni, hjúkrunarfræðingi, eða brjóstagjafaráðgjafa. Fá viðeigandi lyfjameðferð og fara vel eftir leiðbeiningum. Muna að meðferð gildir alltaf um báðar vörtur og munn barns samtímis. Nota blauta bakstra á vörtur fyrir gjafir. Sjá brjóstakorn um sveppasýkingu á geirvörtum.
Æðasamdráttur í vörtum (Raynaud´s syndrome):
Veldur sársauka sem yfirleitt er meira áberandi eftir að gjöf lýkur.
Einkenni
Verkir (sviði) eftir gjafir sem standa frá nokkrar mínútur og upp í 1-2 klukkutíma. Breytist stundum í sláttverk þegar frá líður. Toppur vörtunnar hvítnar sjáanlega upp á bletti eða alveg. Getur svo blánað, roðnað og hvítnað á víxl.
Meðferð
Laga grip barns á vörtu. Nota snarpheita bakstra (án þess að brenna) á vörtur eftir gjafir í 1-3 mín. Ákveðin bætiefnameðferð er talin geta haft góð áhrif en er lengi að byrja að virka. Lyfjameðferð er gefin í verstu tilfellum.
Mjólkurbóla:
Hvítur útbungandi blettur á toppi vörtu.
Einkenni
Verkir í allri gjöfinni og versna þegar á líður. Oftast lýst sem þrýstingsverk.
Meðferð
Stungið er gat á bóluna eftir örlitla deyfingu og sótthreinsun. Mjólkað út um gatið á eftir og jafnvel er barn lagt á brjóst. Sjá brjóstakorn um mjólkurbólu.
Annað:
Fleiri vandamál geta valdið sársauka í brjóstagjöf en tengjast þá gjarnan undirliggjandi húðvandamálum. Það er sjaldgæfara og þau eru gjarnan löguð hvert á sinn hátt eftir því hvert vandamálið er.
Almennt
Það getur dregið úr sársauka í gjöf að bæta staðsetningu barns og grip þess á brjósti. Það er oft gott að setja blautan bakstur á vörtu áður en barn er lagt á.
Fyrst og síðast á að leita aðstoðar ef illa gengur að laga sársauka í brjóstagjöf. Það á ekki að pínast og þjást um lengri eða skemmri tíma.
Brjóstagjöf á að vera sársaukalaus.
Mannveran er vera snertingar. Á fyrstu árum ævinnar skynjum við meira og minna allan heiminn með snertingu. Mesta snertiskyn nýfædds barns er í munninum en allt yfirborð húðar þess þarfnast líka snertingar. Það er börnum til góðs að foreldrar þeirra snerti þau sem mest. Snerting er ein af grunnþörfum barns sem þarf að uppfylla. Því meira þeim mun betra. Barn sem er svipt snertingu er líklegra til að verða vansælt og óvært.
Í nútíma heimi eru foreldrar vitandi eða óafvitandi farnir að forðast snertingu við börn sín, sérstaklega nakin. Við fyrsta mögulega tækifæri eru börn klædd í föt, er það til að forðast kulda eða forðast snertingu? Það er vitað mál að nakið barn við nakta húð foreldris fylgir hita þess, er rólegra og ánægðara. Næst er barnið sett í vögguna. Það er gert til þæginda en foreldrar leitast oft við að hafa barnið sem mest í vöggunni og taka það upp eins sjaldan og þeir komast af með. Reyna jafnvel löngum stundum að rugga barninu í svefn í vöggunni í stað þess að taka það upp í faðminn þar sem það væri mun fljótara að sofna.
Brjóstagjöf ber með sér mikla og nána snertingu. Tilhneiging er í þá átt að líta á langar gjafir sem óþarfar, óþekkt í barni eða að barnið sé að nota brjóstið sem snuð. Þegar barnið er í raun í örvæntingu að reyna að vera í nánd móður sinnar og fá þá næringu sem líkami þess þarfnast.
Hin nýbakaða móðir getur fundið fyrir aumum þrymlum á brjóstunum. Yfirleitt er það bara annað brjóstið sem um ræðir en stíflur geta vissulega komið samtímis í bæði brjóst. Roði getur verið á húðinni og svæðið verður vanalega mjög aumt og jafnvel heitt. Það sem orsakar stíflur getur verið til dæmis álag, streita, ónóg hvíld, þröng föt og óreglulegt gjafamynstur.
Það er mikilvægt að reyna að vinna strax á vandamálinu.
Lausnir:
- Fá meiri hvíld, leggja sig með barninu á daginn eða biðja maka eða annan aðstandanda að sinna því meðan þú sefur.
- Ekki sleppa næturgjöfum og reyna að hafa betri reglu á gjöfum. Þó á ekki að neita barni sem biður um bjóst en gæta þess að ekki líði of langur tími milli gjafa. Frekar gefa barninu oftar og jafnvel ef stuttur tími líður á milli að bjóða sama brjóstið tvisvar í röð.
Það getur verið gagnlegt að nota mismunandi stellingar við gjafir. Það er ágæt regla að reyna að láta höku barnsins beinast í áttina að stíflunni. Það getur krafist útsjónasemi en konur hafa til dæmis lagt barnið á bakið í rúmi og farið á fjórar fætur fyrir ofan það til þess að losa stíflur á ofanverðu brjósti.
Það getur hjálpað að nudda stíflaða svæðið meðan barnið drekkur. Þá er best að nudda fram með brjóstinu í átt að geirvörtunni.
Ef ástandið batnar ekki er hætta á að móðir fái sýkingu í brjóstið. Hún finnur þá fyrir flensulíkum einkennum og líkamshiti hækkar. Konur geta orðið mjög veikar hratt og er mikilvægt að leita læknis og fá sýklalyf. Ekki ætti að bíða lengur en 12-24 tíma eftir læknisheimsókn. Áfram ætti að beita öllum ráðum til þess að losa stífluna.
Tilgangur stuðnings við brjóst á meðan gjöf stendur er bæði mótun þess til að auðvelda barni grip og til að halda uppi þyngd þess í stað þess að það lendi á munni barns. Ef barn er vel staðsett þarf þó ekki að lyfta brjósti upp.
C-tak: Stuðningur við brjóst með þumalfingur fyrir ofan brjóst og hina fjóra undir brjóstinu. Fingurnir þurfa að vera langt frá vörtubaug til að trufla ekki grip barnsins. Þetta er gott tak í fótboltastellingu og hliðarlegu því þá er auðvelt að klemma brjóstið saman eins og munnur barns liggur. Það á ekki vel við í kjöltustöðu eða öfugri kjöltustöðu því þá verður samanklemmt brjóstið þvert á munn barnsins eða eins og fullorðinn ætlaði að bíta í samloku sem haldið væri lóðrétt.
U-tak: Móðir leggur vinstri lófa á brjóstkassann undir vinstra brjósti. Þegar hún snýr honum upp kemur þumallinn á utanvert brjóstið en hinir fjórir fingurnir á svæðið sem snýr að miðju. Brjóstið hvílir þá í U formi sem myndast milli þumals og vísifingurs. Þetta tak hjálpar mæðrum að halda fingrum frá því að trufla grip barns. Það er mjög gagnlegt við kjöltu og öfuga kjöltustöðu því það er auðvelt að móta brjóstið eins og munnur barnsins liggur og tryggir að barn getur náð góðri munfylli brjósts. Þetta tak virkar ekki vel í fótbolta eða hliðarlegu. Í U-taki er móðir ekki með fingurna ofan á brjóstinu sem minnkar freistingu hennar til að þrýsta á svo barnið geti andað en það togar oft í vörtu og aflagar grip.
Skæratak: Móðir styður við brjóstið með því að hafa vörtu milli vísifingurs og löngutangar. Það er vandasamt að ná þessu taki án þess að vera of nálægt vörtunni og trufla þannig grip barnsins en mæðrum með langa fingur getur gefst það vel.
Samlokutak: Brjóstið er klemmt saman nokkrum cm fyrir aftan vörtu eins og munnur barnsins liggur. Þetta er gert til að auðvelda barni grip á stóru stykki af brjóstinu. Hversu ákveðið þarf að gera þetta fer eftir lögun og áferð brjósta. Samlokutak er oft bara notað fyrstu dagana eða vikurnar en síðan hætt.
Sveppasýking á geirvörtum ógnar brjóstagjöf vegna hins mikla sársauka sem hún veldur. Fyrstu einkenni eru oft kláði og pirringur í húð og stundum sjást agnarlitlar bólur. Það getur verið erfitt að greina sveppasýkingu. Vörturnar geta litið eðlilega út en oft eru þær rauðar og geirvörtubaugurinn rauðbleikur og glansandi. Þær geta verið flagnandi og haft smásprungur á mótum vörtu og vörtubaugs. Hvítir flekkir geta sést á geirvörtubaug, hvít skán í munni barns eða roði og upphleypt húð á bleyjusvæði. Móðir finnur fyrir brunatilfinningu þegar barnið drekkur og á milli gjafa, sem leiðir inn í brjóstið og getur staðið í allt að eina klst eftir gjöf.
Greining er oft byggð á lýsingum mæðra. Þær nota oft orðið bruni til að lýsa sársaukanum og eru ósparar á myndlíkingar. Eins og þúsundir títiprjóna, Eins og verið sé að skera vörtuna af. Hann leiðir inn í brjóstið stundum aftur í bak eða niður í handlegg. Margar mæður lýsa ofurviðkvæmni eins og að þola ekki fötin eða vatnið úr sturtunni á vörturnar. Ekki er hægt að byggja greiningu á ræktunum því sveppir eru partur af flórunni og erfitt að greina hvað er of mikið.
Meðferð hefst samtímis á vörtum móður og munni barns. Nota má Gentian violet, sem fæst án lyfseðils í apóteki. Borið er á slímhúðir í munni barns með bómullarpinna einu sinni á dag í 4-7 daga og á geirvörtur og vörtubaug móður. Ef einkenni eru horfin eftir 4 daga má hætta meðferð. Annar möguleiki er Mycostatin mixtúra sem borin er á geirvörtur, vörtubaug og í slímhúðir í munni barns eftir gjafir, að lágmárki 4 sinnum á dag, helst eftir hverja gjöf í 14 daga. Þriðji möguleikinn er Daktar krem (Miconazole nitrate) sem borið er á geirvörtur móður eða Daktacort sem er með sterum. Þvo þarf geirvörtur fyrir og eftir brjóstagjöf. Ef sjáanleg sveppasýking er annars staðar t.d. á rassi barns er það meðhöndlað með Daktacort um leið.
Ef grunur er um sýkingu inni í mjólkurgöngum má taka Diflucan (Fluconazole) töflur. Þá eru fjórar 150 mg töflur teknar, tvær saman fyrsta daginn, ein annan daginn og ein þriðja daginn.
Hreinlæti er mikilvægt bæði handþvottur og þvottur og þurrkun á vörtum. Allt sem snertir viðkomandi svæði er soðið reglulega og brjóstainnlegg þarf að skipta um við hverja gjöf. Ef grunur er um blandaða sýkingu sveppa og baktería þarf að nota meðferð sem hæfir því.
Barn sem er syfjað í byrjun gjafar gæti þurft aðstoð við að komast í betur vakandi ástand. Kannski liði barninu betur aðeins kaldara þar sem smá lækkun umhverfishita hvetur vöku. Snerting húðar við húð hefur líka hvetjandi áhrif til sogs svo það að klæða barnið úr að einhverju leyti getur verið örvandi fyrir það. Sum börn vakna við að vera sett í upprétta stöðu eða lögð niður og velt mjúklega frá hlið til hliðar. Foreldrar geta talað til barnsins í hvetjandi tón eða spilað fjöruga tónlist. Vel upplýst herbergi er meira örvandi en dimmt. Einnig geta léttar strokur verið gagnlegar en þó er einstaka barn sem þolir illa létta snertingu og líður illa af þeim.
Barn sem sofnar áður en gjöf er lokið á í annars konar vandræðum. Þol þess getur verið vandamál og gæti þá þurft að breyta gjafamynstri þess í margar stuttar gjafir til að bæta upp gjafatíma af venjulegri lengd. Svokölluð skiptigjöf kemur til greina tímabundið en þá er skipt um brjóst í hvert sinn sem barn lognast út af. Á milli brjósta er barn hvatt áfram með bleyjuskiptum og örvandi hreyfingum. Skiptigjafir eru aðeins notaðar í stuttan tíma til að koma barninu yfir ákveðinn hjalla og síðan er farið í venjulega gjafalengd. Annar möguleiki er að gefa barninu ábót af mjólkaðri eftirmjólk til að auka hitaeiningar.
Montgomery kirtlar geta verið frá 4-28 á hverjum vörtubaug. Þeir stækka á meðgöngu og hjaðna aftur í sama horf eftir að brjóstagjöf er hætt. Þeirra aðalhlutverk er að veita fituefni út á vörtubauginn til að halda honum mjúkum og vel smurðum. Montgomery kirtlar hafa sitt eigið gangakerfi sem er svipað og smækkuð útgáfa af brjóstakirtlakerfi. Stundum framleiða þeir örlítið magn mjólkur. Gangarnir sem framleiða fituefni renna stundum saman við ganga sem framleiða mjólk. Það er ekki óvanalegt að sjá vökvadropa á þessum bólulíku fyrirbærum.
Endrum og sinnum stíflast þessir gangar og sýkjast. Þetta er oftast ástand sem líkaminn lagar sjálfur en varleg meðhöndlun með hita og nuddi getur hjálpað svo og sýkladrepandi krem.
Sýklalyfjataka getur lagað ástandið en ef kirtillinn er opinn þarf staðbundinn áburður líka að koma til. Brjóstagjöf getur óhindrað haldið áfram en stöku sinnum lenda konur sem aðeins nota mjaltavél í vandræðum. Þá lendir brún brjóstaskjaldarins á sýkta kirtlinum og veldur sársauka í hverju sogi. Konurnar geta þá notað handmjólkun á meðan ástandið er að jafna sig.
Í upphafi brjóstagjafatímabilsins framleiðir hin nýbakaða móðir broddmjólk sem dugir flestum börnum vel þar til hin eiginlega mjólkurframleiðsla hefst. Margir foreldrar hafa áhyggjur af því að barnið sé svangt fyrsta 1-2 sólarhringinn því oft sést ekki mikil mjólk koma frá brjóstunum og barnið getur farið að vilja hanga á brjóstinu nánast stanslaust.
Raunin er sú að börnin eru mjög dugleg að ná mjólkinni úr brjóstunum og það hvort að mjólk sést leka frá brjóstinu eða ekki segir lítið til um framleiðslugetu þeirra. Einnig er engin fylgni milli þess hvort konur leka á meðgöngu eða ekki og því hversu mikil framleiðslan verður eftir að barnið fæðist.
Börnin fæðast með forða og eru sjaldnast svöng til að byrja með. Þau byrja þó flest að leita að brjóstinu skömmu eftir fæðingu og sjúga mjög fljótt ef þeim er boðið brjóst en það er vegna sogviðbragðsins sem þau fæðast með og er nauðsynlegt til þess að þau nærist. Börnin drekka vanalega mikið fyrstu klukkutímana eftir fæðinguna en sofna svo og mörg eru mjög mikið sofandi fyrsta sólarhringinn. Einnig geta mörg börn kúgast mikið og verið með klígju á fyrsta sólarhringnum sem truflar brjóstagjöfina. Þá getur hjálpað að móðirin handmjólki brodd t.d. í litla skeið eða staup og gefi barninu. Barnið gæti ælt í kjölfarið en það hjálpar því að losna við legvatn og slím úr maganum sem veldur klígjunni. Oftast byrja börnin svo fljótlega að vilja taka brjóstið en það getur þurft að endurtaka þetta í nokkur skipti. Það er mikilvægt að móðirin örvi brjóstin með handmjólkun eða jafnvel rafmagnspumpu ef barnið tekur ekki brjóstið í fyrstu, til þess að stuðla að góðri mjólkurframleiðslu.
Á öðrum sólarhring eru flest börn farin að vakna og vilja hanga mikið á brjóstinu. Hér tekur við krefjandi tími þar sem margir foreldrar telja barnið vera svangt og að það sé ekki næg mjólk. Þá vilja margir grípa til ábótagjafar. Ábótin er þó í flestum tilfellum óþörf og getur frekar truflað eðlilegt upphaf brjóstagjafar. Því meira sem barnið er á brjósti, því fyrr hefst mjólkurframleiðslan og því er gott að leyfa barninu að vera sem mest á brjósti. Það er mikilvægt að móðirin fái næga hvíld á meðan þessu stendur og því mikilvægt að reyna að halda gestagangi í lágmarki svo móðirin geti lagt sig með barninu. Á þessum tíma finnst mörgum foreldrum mjög freistandi að bjóða barninu snuð. Það er vissulega val hvers og eins en mælt er með að bíða með snuðið þar til brjóstagjöfin er komin á gott ról. Ef barninu er boðið snuð á þessum tíma sem það vill helst hanga á brjóstinu er verið að minnka þá örvun sem brjóstin fá og sömuleiðis fær barnið þá minna magn af broddmjólkinni. Mjólkurframleiðslan hefst þá seinna og meiri líkur eru á að barnið verði svangt og að gripið sé til ábótargjafa. Börn sem eru löt að sjúga brjóstið ættu að nota snuð sem minnst til þess að þreyta þau ekki um of því þá hafa þau ekki næga orku í að sjúga brjóstið þegar kemur að brjóstagjöf.
Þegar mjólkurframleiðslan hefst á 3. - 5. degi fer svo að komast meiri regla á gjafirnar og móðirin fær þá aðeins lengri pásur á milli gjafa.
Í sumum tilfellum getur þó þurft að gefa börnum ábót á þessum tíma. Það eru helst börn sem fæðast mjög létt en getur einnig átt við um börn sem fæðast mjög stór. Börn sem fæðast eitthvað fyrir tímann þurfa einnig oft aðstoð í formi ábótagjafa til að byrja með en sogviðbragð þeirra og samhæfing milli sogs og kyngingar getur verið óþroskað og því þarf oft að aðstoða þessi börn í fyrstu. Ef barnið virðist ekki vera að fá nóg eða er farið að gulna er mikilvægt að skoða vel orsakirnar en barnið getur til dæmis verið að taka brjóstið vitlaust. Það er mikilvægt að ljósmóðir eða brjóstagjafaráðgjafi aðstoði foreldra við að meta þetta.
Þegar þarf að grípa til ábótagjafa á fyrstu sólarhringum er mjög mikilvægt að móðirin mjólki sig samhliða gjöfunum. Bestur árangur næst yfirleitt með handmjólkun en það getur verið tímafrekt og lýjandi og því gott að nota góða rafmagnspumpu með til þess að mjólka. Oftast er byrjað á því að leyfa barninu að leggjast á brjóstið í smá tíma og móðirin mjólkar sig svo. Í byrjun er alveg eðlilegt að það komi lítið og markmiðið er ekki að ná sem mestri mjólk heldur að örva framleiðsluna. Mjólkin sem næst er þá geymd í kæli fram að næstu gjöf og má þá velgja hana undir heitri vatnsbunu og nota í næstu ábótargjöf og þannig er smám saman hægt að skipta þurrmjólkurábót út fyrir brjóstamjólk. Athugið að ekki má hita brjóstamjólk í örbylgjuofni.
Ábótin er gjarnan gefin með fingurgjöf eða í staupi og reynt að forðast notkun pela til þess að trufla ekki brjóstagjöfina. Einnig er mjög gagnlegt að nota svokallað hjálparbrjóst en þá er barnið lagt á brjóst og lítilli sondu rennt upp í barnið meðfram vörtunni. Þá sýgur barnið brjóstið og örvar það á sama tíma og það fær ábótina úr sondunni. Þegar barnið er um það bil 3-5 daga gamalt má svo byrja að mjólkurvigta barnið til þess að sjá hversu mikið það drekkur úr brjóstinu og þá er hægt að gefa ábót í takt við vökvaþörf barnsins. Barnið er þá vigtað (með bleiu og í fötum) áður en brjóstagjöf hefst og svo aftur þegar það hefur lokið við að drekka og sýnir mismunurinn á tölunum þá það magn sem barnið drakk. Það er mikilvægt að gæta þess að barnið sé þá í sömu fötum og með sömu bleiu og áður. Ef þarf að skipta á barninu í miðri gjöf þarf að vigta það aftur fyrir og eftir bleiuskipti til að fá réttar tölur.
Fyrstu dagar litla barnsins geta reynst mjög grefjandi fyrir nýbakaða foreldra og skiptir miklu máli að reyna að hvílast sem allra mest og þiggja þá aðstoð sem býðst að hverju sinni. Brjóstagjöfin krefst mikillar vinnu og einbeitingar þessa fyrstu daga en með góðri hjálp og þolinmæði gengur þetta vel í langflestum tilfellum.
Sum börn eiga í erfiðleikum með að skipta auðveldlega milli vökustiga, önnur eru ofurviðkvæm. Minnkun örvunar getur hjálpað þessum börnum. Dempun ljósa og framköllun kyrrðar getur skapað rólegra umhverfi fyrir barn sem þolir ekki truflanir. Þétt, ákveðin handtök eru betri en létt snerting sem þessi börn geta svarað með streitumerkjum. Sumum finnst gott að vera vafin og/eða ruggað. Börn með þessi einkenni drekka mun betur þegar þeim er heitt, þau svefndrukkin og afslöppuð.
Börn með sögu um erfiða fæðingu eða með áverka geta átt erfiðara með að fara á brjóst. Nýburar sýna verki með hegðun sinni. Brjóstagjöf og aukin nálægð við foreldra getur hjálpað barninu að ráða við verkina. Gjafastellingar sem henta barninu eru mikilvægt atriði. Mörgum hentar betur að liggja við hlið móður sinnar og börn með áverka á höfði þarf að höndla varlega og aldrei ýta á höfuðið þegar barn á að grípa vörtuna. Hægt er að styðja við herðar og háls í sama tilgangi. Barn sem tekur ágætlega annað brjóstið en mótmælir hástöfum á hinu gæti hjálpað að renna frá betra brjóstinu yfir á hitt án þess að hrófla mikið við því. Þá er mikilvægt að finna þá stellingu sem barninu finnst þægilegast að drekka í og nota hana þar til ástandið lagast.
Brjóstamjólk verður fullþroska eða „kemur" einhvers staðar á milli 2. og 5. dags eftir fæðingu. Margir þættir hafa áhrif á hvenær mjólkin kemur. Að leggja barn á brjóst fljótlega eftir fæðingu og reglulega eftir það örvar mjólkurframleiðslu. Lyfjalaus fæðing og að hafa barn alltaf hjá móður skiptir einnig máli. Það hjálpar ef móðir er í góðu jafnvægi andlega. Fyrir flestar mæður er það að vera í kunnuglegu umhverfi heimilis síns og frjáls til að kúra með barninu og gefa oft brjóst það sem þarf til mjólkin komin.
Þegar mjólkin kemur geta brjóstin virst ansi þanin. Móðurinni finnst hún geta gefið tvíburum eða jafnvel þríburum. Þessi fylling er vegna aukins blóðflæðis til að tryggja næga næringu og smávegis bólgu í vefnum. Sumar finna lítið fyrir þessu. Í venjulegu ferli hjaðnar þetta þan á nokkrum dögum. Það er sérstaklega mikilvægt að halda áfram að leggja barnið oft á brjóst, þar sem losun mjólkur úr brjóstinu minnkar blóðsóknina. Heit sturta og gjöf á eftir dregur úr óþægindum. Hjá sumum konum þróast eðlilegt þan yfir í stálma þar sem brjóstin verða hörð og með verkjum. Jafnvel getur hitavella fylgt. Þan og stálmi geta valdið því að geirvörturnar fletjist út svo að barnið á erfitt með að ná taki. Þá getur hjálpað að nudda brjóstin og pumpa eða handmjólka smá mjólk til að mýkja og ná vörtunni út. Stundum hjálpar að setja kaldan þvottapoka eða ísbakstur örstutt við vörtuna til að ná henni út. Að gera barninu kleift að ná góðu gripi hjálpar til losunar og að lausn vandamálsins.
Sum börn eru lengur að læra að taka brjóst almennilega en önnur. Þau eru lengi að byrja að þyngjast, líklegri til að gulna og pissa og kúka sjaldan. Þar af leiðandi virðast þau ekki fá næga mjólk. Þessi vandamál er yfirleitt hægt að leysa með mikill vinnu við brjóstagjöfina í örfáa daga.
Sum börn virðast taka svefn fram yfir brjóstagjöf. Þau vakna ekki oft til að drekka eða sofna strax eftir fárra mínútna gjöf. Ástæðan getur verið erfið fæðing, lyf í fæðingu, gula eða fyrirburður. Ekki bíða eftir að þyrnirós vakni. Ef hún hefur sofið í meira en 2-3 tíma á að vekja hana. Það er auðveldast í léttum svefni (miklar augnhreyfingar). Haldið barninu uppréttu, skiptið á því, nuddið bakið eða strjúkið andlit með rökum klút. Hvað sem er sem virðist örva og vekja barnið. Þegar barnið er komið á brjóst á að skipta um brjóst um leið og áhuginn dvínar, til að koma í veg fyrir að barnið sofni á brjóstinu (tæknin kallast skiptigjöf). Taka á barnið af brjósti, láta það ropa, skipta á því og vekja. Bjóða því svo hitt brjóstið, þegar sogið hægist aftur er barnið tekið af, það örvað og aftur boðið fyrra brjóstið. Þannig er skipt fram og til baka í 20 mín. Passa þarf að barnið grípi vel og vartan sé langt upp í munni.
Letinginn
Letinginn virðist vera stöðugt á brjósti en er aldrei ánægður. Hann grætur þegar móðirin endar gjöf. Letilegur sogstíll hans virðist ekki örva brjóstið nóg til að koma af stað losunarviðbragðinu svo hann fær ekki fituríku mjólkina sem myndi fylla hann. Hann getur pissað vel en hefur sjaldan hægðir. Hann léttist. Mjólkurframleiðsla móðurinnar dvínar vegna lélegs sogs. Letinginn notar aðeins varirnar til að sjúga. Það sjást ekki kjálkahreyfingar eða eyrnatif. Hann sýgur stöðugt og mótmælir hástöfum ef tekinn af brjósti.
Skiptigjöf hjálpar letingjanum að sjúga betur. Það getur þurft að skipta um brjóst á 3-6 mínútna fresti í byrjun. Fylgjast þarf sérstaklega vel með hvernig barnið grípur brjóstið og leiðrétta ef það er vitlaust. Athuga þarf vel að skiptigjöf er aðeins notuð tímabundið til að leysa vandamál. Það er ekki gjafatækni sem mælt er með til frambúðar. Þegar vandamálið er leyst er aftur farið í sem lengsta gjöf á fyrra brjósti.
Barn snýr maga að maga. Púði þarf að vera í kjöltu móður til að hækka barn í vörtuhæð. það er mikilvægt að munnur barns sé mjög nálægt vörtunni í byrjun. Ef ætlunin er að gefa vinstra brjóst liggur barn á hægri framhandlegg móður. Lófinn styður milli herðablaða barnsins og greipin er lauslega utan um hálsinn. Þetta veitir stuðning bæði við höfuð og háls. Þegar barn opnar munninn ýtir móðir með lófanum milli herðablaðanna. Þetta gerir það að verkum að haka barns kemur fyrst að brjósti og veitir því tækifæri til að grípa vel ósamhverft um vörtuna. Ekki ýta á hnakka barnsins. Hann er viðkvæmur og barn bregst við með því að streitast á móti
Sumir mæla með að barn liggi utan um móður sína eins og komma. Ef lítur út fyrir að barn geti átt erfitt með öndun þarf móðir aðeins að þrýsta barni betur að sér með olnboganum. Það breytir afstöðunni þannig að nef barns helst frítt. Í öfugri kjöltustöðu er U tak áhrifaríkast til stuðnings brjóstinu.
Sumir mæla með meiri notkun ríkjandi handar. Þá er hægri hönd rétthentrar konu notuð við öfuga kjöltustöðu á vinstra brjósti og svo í fótboltastöðu á hægra brjósti.
Oft er mælt með þessari stöðu á fyrstu dögum barna sem þurfa sérstaka aðstoð við að grípa vel. Móðir hefur betri stjórn á að leiðbeina barninu á brjóstið. Sérlega góður stuðningur er við háls barnsins sem gerir þessa stöðu heppilega fyrir fyrirbura, lítil börn, vöðvaslöpp börn eða börn með yfirbit.
Þegar mæður eru komnar á lagið geta þær jafnvel rennt hinum handleggnum undir barnið og þannig lokið gjöf í venjulegri kjöltustöðu. Öfug kjöltustaða er venjulega ekki stelling til frambúðar.
Öfug kjöltustaða virkar ekki vel með miðjugripi og hún getur verið óþægileg ef ekki er nægur stuðningur við handlegginn sem barnið hvílir á. Hún er góð ef móðir er spennt eða stressuð því þá hættir konum til að draga handlegginn eilítið út frá líkamanum. Í þessari stöðu dregur hún barnið þá í ennþá betri stöðu.