Hegðun nýburans fyrstu dagana

Fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu hafa hraustir fullburða nýburar smá forða og þurfa flestir ekki að drekka mjög oft. Börnin eru vakandi fyrst eftir fæðinguna og vilja fá að drekka. Eftir þessa fyrstu brjóstagjöf sofna þau oft og sofa í nokkra klukkutíma. Algengt er að þau drekki kannski þrisvar til fimm sinnum þennan fyrsta sólarhring.

Eftir þennan fyrsta sólarhring byrja þau svo að verða svöng þar sem næringarforðinn þeirra frá fylgjunni er að klárast. Þá taka oft við næstu tvo sólarhringana svokallaðar keðjugjafir þar sem barnið vill vera nánast alltaf á brjósti. Þessir dagar eru krefjandi fyrir alla fjölskylduna.

Þetta er algjörlega eðlilegt þar sem þessa fyrstu daga er verið koma brjóstagjöf í gang. Þá eru viðtakar í brjóstunum að virkjast og því oftar sem barnið drekkur því minni líkur eru á að móðirin fái stálma, að barnið tapi miklu af fæðingarþyngd og að mjólkurmyndun verði næg á brjóstagjafatímabilinu. Vegna þessa er meðal annars ekki mælt með snuði fyrst eftir fæðinguna. Bæði fær barnið ekki þá næringu sem það er að óska eftir og brjóstin missa af mikilvægri örvun þegar að snuð er notað á þessu tímabili. Hér er grein á ensku um fyrstu daga brjóstagjafar.

Er barnið mitt að fá nóg?

Nánast allir nýbakaðir foreldrar hafa áhyggjur af því hvort barnið sé að fá nóg. Meðalmagn sem barn drekkur í gjöf á fyrsta sólarhring eru einungis 5-7 ml. Besta leiðin til þess að meta hvort barn sé að fá nóg er að horfa á hegðun og útskilnað barnsins. Fyrsta sólarhringinn hefur nýburinn þvaglát einu sinni til tvisvar og magnið er ekki mikið. Barnið skilar fósturhægðum eða meconium sem eru dökkgrænar hægðir sem minna á leðju. Eftir því sem barnið er farið að drekka meira og mjólkin að koma hjá mömmu fer þvaglátum að fjölga og hægðirnar að lýsast.

Það er eðlilegt að nýburar léttist fyrstu daganna frá fæðingarþyngd sinni, en við tveggja vikna aldur ættu nýburar að vera búin að ná fæðingarþyngd sinni. Ljósmæður og ungbarnavernd fylgjast vel með þessu.

Mjólkurhægðir brjóstabarns eru karrígular, fremur linar og oft aðeins kornóttar. Barn sem útskilur vel, er sprækt og virðist líða vel er að fá nóg. Næringarþörf nýburans eykst smám saman á fyrstu dögunum og á fimmta degi er vökvaþörf barnsins orðin 170 ml/kg á sólarhring.

Næringarþörf nýbura

Til nánari útskýringar er hér dæmi um næringarþörf barns sem er 4 kg og er á fimm daga gamalt: Heildarmagnið ætti að vera 680 ml (4 kg x 170 ml). Ef barnið drekkur 8 sinnum á sólarhring þá ætti magnið að vera um það bil 85 ml í senn (680 ml /8x). Börn drekka þó ekki endilega alltaf nákvæmlega jafn mikið í gjöf en heildarmagn 4 kg barns ætti að vera ca. 680 ml yfir sólarhringinn. Ljósmæður í heimaþjónustu og hjúkrunarfræðingar í ungbarnavernd vigta barnið reglulega í upphafi til að fylgjast enn betur með hvernig barnið er að nærast.

Mjög algengt er að nýburar fá gulu en talið er að um helmingur fullburða barna fái gulu í einhverju magni. Börn sem fæðast fyrir tímann eru enn líklegri til að gulna. Oftast gengur gulan yfir að sjálfu sér en mikilvægt er að börnin drekki vel á meðan. Stundum þarf að grípa til meðferðar vegna gulunnar og er þá notast við ljósameðferð. Sjá nánar um gulu hér.