Nýburagula

Nýburagula er í flestum tilfellum saklaust og eðlilegt ferli sem tengist þeim breytingum sem verða í líkama nýburans eftir fæðingu en getur líka verið merki um sjúklegt ástand sem bregðast þarf við. Ef húð barnsins virðist vera að gulna eða er gul er rétt að leita til ljósmóður sem getur skoðað barnið og metið hvort þörf sé á frekari mælingum eða rannsóknum.

Nýburagula orsakast af aukni magni af gallrauða (e. billirubin) í blóði og vefjum nýbura fyrstu dagana. Yfirleitt þarf ekki að meðhöndla nýburagulu en mælingar skera úr um hvort barnið þarf meðferð við gulunni.

Meðferð við gulu

Þegar grípa þarf til meðferðar við gulu er ljósameðferð sú meðferð sem mælt er með í dag en blóðskipti eru gerð þegar ljósameðferð dugar ekki. Ljósameðferð fer fram á spítala. Ljósin sem eru notuð eru sérstök ljós sem aðstoða líkama nýburans að brjóta niður gallrauðann í blóði og vefjum þess.

Ef barnið er með gulu er mikilvægt að það drekki oft. Ef barnið er á brjósti er mikilvægt að leggja það á brjóst á 2-3 tíma fresti og börn sem ekki eru á brjósti þurfa að drekka jafn oft. Börn sem eru með gulu geta verið syfjuð og löt og hafa oft lítinn áhuga á að drekka. Það er hins vegar mikilvægt að halda þeim við efnið því öll fæða sem fer í gegn um meltingarveginn hjálpar þeim að vinna á gulunni.

Barn sem er á brjósti og drekkur lítið, örvar mjólkurframleiðsluna að sama skapi lítið og því getur þurft að örva mjólkurframleiðsluna með handmjólkun eða mjaltavél eftir gjafir. Mjólkina sem kemur við mjólkun má svo gefa barninu eftir næstu gjöf annað hvort með litlu máli eða setja hana í hjálparbrjóst og gefa um leið og barnið sýgur.

Ljósmóðir getur gefið nánari leiðbeiningar um handmjólkun, notkun mjaltavéla og hjálparbrjósts.

Ekki ætti að nota snuð og pela meðan á þessu stendur því notkun þeirra getur valdið því að barnið sýgur brjóstið vitlaust og fær þar af leiðandi ekki nóg að drekka.

Það er gott að leyfa barninu að njóta dagsbirtunnar meðan hún er og því er gott að draga gluggatjöld frá yfir daginn.

Heimild

Anna Sigríður Vernharðsdóttir (2003). Nýburagula. Hlutverk ljósmóður við forvarnir, mat og meðferð. Lokaverkefni í ljósmóðurfræði. Háskóli Íslands: Hjúkrunarfræðideild.

https://www.nhs.uk/conditions/jaundice-newborn/treatment/#:~:text=cause%20brain%20damage.-,Phototherapy,as%20much%20light%20as%20possible.