Svefnvenjur
Svefn ungbarna skiptist í þrjú stig. Léttan svefn, djúpan svefn og einskonar mók. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu sofa börn að meðaltali 16 klukkustundir á sólarhring og gera ekki greinarmun á nótt og degi. Talið er að um þriggja til fjögurra mánaða aldur sé hægt að fara að kenna barninu ákveðnar svefnvenjur.
Svefnstigin
Lengst af sefur barnið léttum svefni. Þá sjást miklar augnhreyfingar og barnið hreyfir bæði andlit og líkama. Öndunin er hraðari og óreglulegri og einstaka bros kemur fram. Barnið dreymir á þessu stigi og vaknar auðveldlega. Það geta heyrst hljóð frá barninu, jafnvel eins og það sé að gráta.
Í djúpum svefni liggja börn alveg kyrr fyrir utan einstaka kippi. Það eru engar andlits- eða augnhreyfingar, öndunin er djúp og regluleg og hjartsláttur er rólegur. Soghreyfingar eiga sér stað, nokkrar í röð með reglulegu millibili. Barnið dreymir ekki og erfitt er að vekja barnið á þessu tímabili.
Þriðja stigið er einskonar mók þar sem barnið opnar jafnvel augun en augnlokin eru þung og lokast fljótt aftur. Öndun er óregluleg og barnið hreyfir sig mismikið. Oft er þetta undanfari þess að barnið vakni alveg en það getur líka sofnað aftur sé það látið í friði.
Svefnvenjur
Fyrstu vikurnar eftir fæðingu sofa börn að meðaltali 16 klukkustundir á sólarhring og gera ekki greinarmun á nótt og degi. Svefnvenjur eru mjög einstaklingsbundnar og t.d geta börn með magakveisu sofið 8 tíma á sólarhring meðan önnur rólegri sofa kannski í 20 tíma.
Svefnvenjur breytast mjög ört fyrstu vikurnar og mánuðina og foreldrar þurfa að aðlaga sig að breyttum svefnvenjum barnsins. Til að byrja með vakna flest börn á 2-3 tíma fresti til þess að næra sig, en fara svo að sofa lengri lúra á nóttunni eftir því sem þau eldast. Mörg börn ná að sofa óslitið í 4-6 klst yfir nóttina við 3-4 mánaða aldur. Einungis um 35% barna undir þriggja mánaða sofa í sex tíma óslitið að nóttu.
Eftir því sem miðtaugakerfið þroskast lengist nætursvefninn í 10-12 tíma. Samfara lengri nætursvefni lengist vökutíminn á daginn og börn taka styttri lúra. Frá þriggja mánaða til eins árs aldurs verður ekki mikil breyting á heildarsvefntíma barns yfir sólarhringinn, en mynstrið breytist frá því að vera svipað allan sólarhringinn í að barnið sefur að mestu á nóttunni og tekur tvo lúra yfir daginn.
Strax á fyrsta mánuðinum fara börn að aðlagast muni á nótt og degi og er rétt að ýta undir það með því að hafa dimmt á nóttunni og bjartara í daglúrum.
Að hvetja börn til að sofa
Talið er að um þriggja til fjögurra mánaða aldur sé hægt að fara að kenna barninu ákveðnar svefnvenjur. Fyrir þann tíma má ýta undir eðlilegan þroska barnsins með ákveðnum athöfnum eins og að minnka þjónustuna við það á nóttunni, kveikja ekki ljósin, horfa ekki í augu barnsins og tala ekki við það, heldur bara gefa brjóstið og svo aftur upp í rúm að sofa. Ef skipta þarf á bleiu ætti að gera það milli brjósta til að minnka truflunina í enda gjafar.
Gott er að gefa barninu að drekka áður en það er lagt til hvílu og jafnvel gefa því aftur þegar foreldrarnir fara að sofa til að ná lengri svefntíma að nóttunni. Mikil koffínneysla móður getur haft áhrif á svefn barnsins og því er ráðlegt að halda koffínneyslu í lágmarki ef móðir er með barn á brjósti.
Ofþreyta og oförvun getur valdið pirringi hjá börnum og gert þeim erfiðara fyrir að sofna. Hinsvegar getur verið gott að lengja vökutímann fyrir nóttina smám saman til að fá barnið til að sofa lengur á nóttinni, en passa að barnið verði ekki of þreytt. Herbergið sem barnið sefur í ætti að vera dimmt og ekki of heitt. Há hljóð, mikil birta og of mikill hiti eða kuldi geta truflað svefn barnsins.
Gott er að koma sér upp ákveðnum venjum á kvöldin og gera alltaf það sama til að barnið læri að nú sé að koma háttatími. Þetta ætti að vera róleg og notaleg stund með fjölskyldunni/foreldrum sem getur falið í sér bað, lesa bók, brjósta/pelagjöf og svo í rúmið að sofa. Einnig er gott að hafa rútínu á svefntíma, leggja barnið til svefns á sama tíma hvers dags/kvölds.
Þegar kenna á barninu að fara að sofa þegar það er lagt í rúmið sitt er mikilvægur undanfari ákveðin rútína fyrir svefninn eins og talað er um hér að ofan. Einnig er gott að venja barnið á huggunartæki eins og lítinn bangsa eða tuskudýr sem barnið tekur með sér í rúmið. Þegar barnið er lagt í rúmið ætti það að vera vel syfjað eftir rólega stund frammi en vakandi. Gott er að hafa ákveðna reglu á því hvað er gert þegar barnið er lagt í rúmið, sem er alltaf sú sama t.d. leggja það í rúmið, láta það hafa bangsann sinn og snuðið, breiða yfir það sængina og kyssa það góða nótt. Þannig lærir barnið að þetta þýðir að nú á það að fara að sofa. Eftir að barnið hefur verið lagt í rúmið sitt er nóttin hafin og þá skerðist þjónustan verulega.
Gott er að sitja hjá barninu á meðan það sofnar og veita því nærveru en enga þjónustu eða athygli. Sitja á stól nálægt rúminu og bíða í 1-3 mínútur, bregðast þá við barninu en veita lágmarks þjónustu t.d. leggja það niður, segja róandi hljóð, rétta huggunartæki, snuddu, breiða yfir það sængina. Endurtaka þetta svo þar til barnið sofnar.
Misjafnt er hvenær börn hætta að þurfa að drekka á nóttunni, oft helst það í hendur við að barnið sé farið að fá vel af fastri fæðu. Jafnframt er munur á börnum eftir því hvort þau fái brjóstamjólk eða þurrmjólk. En þangað til barnið hættir að þurfa á næturgjöfum að halda ætti að halda í þetta mynstur eftir gjöf þannig að barnið læri að fara að sofa aftur sjálft eftir gjöf. Gott er þó að bíða í 1-3 mínútur áður en barninu er sinnt til þess að sjá hvort barnið sofni aftur sjálft. Barnið getur nefnilega gefið frá sér hljóð í svefni sem líkist gráti. Ef barnið er hætt að fá næturgjafir er sömu aðferð beitt á næturna og á kvöldin. Með tímanum ætti barnið að læra að sofna sjálft aftur án aðstoðar foreldra.