Heimsóknir fyrstu dagana
Ættingjar og vinir eru oft mjög spenntir að fá að koma í heimsókn og sjá nýfædda barnið. Það getur verið mjög þreytandi að taka á móti mikið á gestum fyrstu dagana á meðan verið er að koma brjóstagjöfinni í gang og jafna sig eftir fæðinguna eða keisaraskurðinn.
Á þessum tíma er lífið að taka miklum breytingum þar sem lítill einstaklingur er mættur á svæðið sem þarf hjálp við allar athafnir. Því er mælt með því að stilla heimsóknum í hóf eins og hægt er fyrstu dagana. Ákjósanlegast er að þeir sem eru að koma til að hjálpa, til dæmis koma með kvöldmat, sinna heimilisstörfum eða til að passa eldri börn, gangi fyrir.
Að auki er ónæmiskerfi nýbura sérstaklega viðkvæmt fyrstu dagana og því er einnig ávinningur af því að takmarka gestagang þess vegna. Þeir sem koma í heimsókn ættu helst að þvo hendur eða spritta og það sama gildir um systkini sem eru að koma heim úr leikskóla eða skóla. Fullorðið fólk smitar að mestu með óhreinindum af höndum þar sem fullorðnir passa sig yfirleitt að hylja vitin á meðan þeir hósta eða hnerra. Fólk með kvefeinkenni er ekki heppilegur gestur fyrstu dagana og vikurnar.
Ekki er langt síðan að konur lágu sængurlegu á sjúkrahúsi í allt að viku eftir fæðinguna einungis til að hvíla sig, það er ágætt að hafa það í huga þegar heim er komið. Það er mikilvægt að taka því rólega. Margir foreldrar eru að sjálfsögðu líka spenntir að sýna litla barnið og vilja taka á móti gestum. Hver og ein fjölskylda verður að meta það fyrir sig en mælt er með að stýra flæði gestanna eins mikið og hægt er.