Lykkjan
Til eru tvenns konar lykkjur: kopar- og hormónalykkjan. Þær eru báðar T- laga og eru settar gegnum leghálsinn og sitja síðan inní leginu. Uppsetningin tekur stuttan tíma en við hana getur konan fundið til óþæginda. Koparlykkjan inniheldur 380 fermillimetra af kopar og getur verið í allt að 10 ár í notkun í senn. Hormónalykkjan seytir í smáskömmtum hormóninu levonorgestrel og getur verið í notkun í að minnsta kosti fjögur til fimm ár.
Hvernig virkar lykkjan?
Margir þættir virðast stuðla að getnaðarvarnareiginleikum lykkjunar. Aðskotahlutur í leginu virðist koma í veg fyrir þungun. Það verður bólgusvörun sem veldur því að sáðfrumur og eggfrumur eiga erfitt uppdráttar í leginu og frjóvgað egg getur ekki fest sig í leginu. Hormónaáhrif frá hormónalykkjunni geta einnig haft áhrif á egglos, slímhúðin í leginu þykknar með þeim afleiðingum að sæðisfrumur komast ekki að jafn auðveldlega að leginu.
Kostir
Kostir lykkunar eru meðal annars þeir hversu langverkandi hún er. Hins vegar hættir hún að virka þegar hún hefur verið fjarlægð og konur geta orðið ófrískar í næsta egglosi. Lykkjan er talin hafa yfir 99% öryggi sem þýðir að 1 af hverjum 100 konum sem nota lykkjuna ætti möguleika á að verða þunguð á ári hverju. Fáar frábendingar eru fyrir því ekki ætti að nota lykkuna. Meðal frábendinga eru virk sýking í legi, þungun, stórir byggingargallar í legi, brjóstakrabbamein (hormónalykkjan) og koparofnæmi. Lykkjan þarfnast ekki mikils eftirlits og aukaverkanir hennar eru fáar. Notkun lykkjunar minnkar líkurnar á leghálskrabbameini. Með noktun lykkjunar er komist hjá notkun utanaðkomandi hormónsins estrógens (báðar lykkjurnar) og annara hormóna (koparlykkjan). Aðrir kostir eru að einkenni mikilla blæðinga, tíðaverkja, verkja tengdir legslímuflakki og bólgusjúkdóma geta minnkað með notkun hennar.
Fylgikvillar
Alvarlegir fylgikvillar eru sjaldgæfir en þeir eru meðal annars að lykkjan falli, niður (3-6% á fyrsta árinu), móðurlífsbólgur (1% á fyrstu 20 dögunum, 0,5% á fyrstu 6 mánuðunum), þungun (0.2 - 0.8%) en þegar kona verður þunguð á lykkjunni er aukin hætta á utanlegsfóstri og að lokum götun á legi.
Aðrir fylgikvillar eru til dæmis að lykkjan sitji ekki á réttum stað (allt að 10% tilfella) og auknar blæðingar og verkir sem eru jafnfram algengustu ástæðurnar fyrir því konur óski eftir fjarlægingu á lykkunni. Sumir makar geta fundið fyrir endanum á lykkjunni en oftast er hægt að stytta hann þannig að ekki finnst fyrir honum lengur.
Mögulegt er að setja upp lykkju strax eftir fæðingu. Yfirleitt er þó mælt með því að beðið sé í 6 vikur til þrjá mánuði eftir fæðingu þar sem minni líkur eru á aukaverkunum eins og að lykkjan falli niður ef beðið er.