Sængurkvennagrátur og fæðingarþunglyndi
Sængurkvennagrátur einkennist af skapsveiflum, grátköstum, kvíða, eirðarleysi, svefnleysi og fleira. Sængurkvennagrátur er meðal annars talinn stafa af breytingum í hormónajafnvægi líkamans eftir fæðinguna og meðgönguna.
Sængurkvennagrátur er talinn eðlilegt fyrirbæri en ef ástandið varir lengur en 2 vikur er ástæða til að leita sér aðstoðar. Ekki finna allar konur fyrir einkennum sængurkvennagráts en það er mjög algengt, en hátt í 80% finna einhver einkenni. Þreyttar mæður eru líklegri til að finna fyrir einkennum sængurkvennagráts.
Fæðingarþunglyndi
Um 15% kvenna fá fæðingarþunglyndi. Einkennin eru oft þau sömu og við sængurkvennagrát en þau vara lengur og geta verið alvarlegri. Hér má lesa nánar um fæðingarþunglyndi. Það er mikilvægt að leita hjálpar ef grunur leikur á fæðingarþunglyndi þar sem ómeðhöndlað fæðingaþunglyndi getur haft áhrif á tengslamyndun móður og barns. Feður geta einnig fengið fæðingarþunglyndi og er mikilvægt að vera vakandi fyrir því, þar sem það getur einnig haft áhrif á tengslamyndun föður og barns. Gott er að foreldrar séu vakandi fyrir líðan hvors annars og leiti sér hjálpar ef vanlíðan varir lengur en í 2 vikur.
Leita má hjálpar hjá ljósmóður í mæðravernd, hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslu, lækni, eða sálfræðingi.