Hormónastafurinn

Hormónastafurinn er hormónagetnaðarvörn sem inniheldur gestogen (tilbúið prógesteron). Stafurinn er lítill sveigjanlegur plaststafur sem komið er fyrir undir húð á innri handlegg, yfirleitt þann handlegg sem er ekki ríkjandi.

Virkni:

  • Stafurinn seytir jafn og þétt prógesteroni út í blóðrásina. Sem hemur egglos mánaðarlega, þykkir slím í leghálsi til að koma í veg fyrir þungun og hemur að legslímhúð þykkist svo að frjóvgað egg sé ólíklegra til að festa sig.

Kostir:

  • Stafurinn er örugg langtíma getnaðarvörn (>99%) og getur stafurinn verið í allt að þrjú ár í góðri virkni. Hægt er að fjarlægja hann hvenær sem er.
  • Þarf ekki að muna eftir getnaðarvörn daglega.
  • Við fjarlægingu fer virkni hans og áhrif strax úr líkamanum.
  • Hægt að nota á meðan brjóstagjöf stendur.

Aukaverkanir:

  • Getur valdið óreglu á blæðingum, brjóstaspennu, bólum, höfuðverk, skapsveiflum og þyngdaraukningu.
  • Sumir upplifa minni blæðingar, jafnvel engar blæðingar sem er ekki hættulegt og mörgum finnst það vera kostur.

Uppsetning:

  • Framkvæmt af lækni/ljósmóður/hjúkrunarfræðing sem hefur færni og réttindi til þess að setja upp stafinn.
  • Gefið deyfilyf á uppsetningarstað og beðið eftir virkni.
  • Stafurinn settur undir húð, tekur örfáar sekúndur-mínutur.
  • Getur fundið fyrir sársauka þegar deyfilyf er gefið og marblettur myndast eftir uppsetningu.