Þvaglát og hægðir

Fyrstu dagana finna konur fyrir auknum þvaglátum þar sem blóðvökvi minnkar mikið fyrst eftir fæðinguna. Nýbakaðar mæður finna oft fyrir því að þær halda ekki þvagi, lofti né hægðum fyrst eftir fæðinguna. Þetta er algengara þegar tangir eða sogklukka hafa verið notaðar í fæðingunni eða hjá konum sem hafa hlotið þriðju eða fjórðu gráðu spangaráverka en er líka þekkt eftir fæðingar sem hafa gengið vel. Talið er að um 10% frumbyrja finni fyrir þessu og um 20% fjölbyrja.

Stundum missa konur tilfinninguna um þvagþörf eða hún minnkar og finna þær þá ekki þegar blaðran fyllist. Það er því mikilvægt að konur hugi að því að fara á salerni á um það bil þriggja tíma fresti fyrstu dagana eftir fæðingu. Ef þú getur ekki pissað eða finnst þú ekki ná að tæma blöðruna er mikilvægt að hafa samband við ljósmóður eða lækni.

Mikilvægt er að byrja að gera grindarbotnsæfingar strax eftir fæðinguna og gera þær oft á dag. Gott er að venja sig á að gera alltaf grindarbotnsæfingar þegar barnið er lagt á brjóst. Með þessu er móðirin fljótari að jafna sig en engu að síður geta liðið allt að sex mánuðir þar til einkenni hverfa. Ef einkenni eru enn til staðar sex mánuðum eftir fæðingu er ráðlagt að leita læknis.

Þegar kona hefur rifnað í fæðingu getur hún fundið fyrir svolitlum sviða við fyrstu þvaglátin eftir fæðinguna. Ef það gerist getur verið gott að halla sér fram eða jafnvel færa barma aðeins í sundur áður en þvag er losað. Einnig getur verið gott að nota vatnsbrúsa og sprauta á kynfærin á meðan þvagið er losað eða pissa í sturtu og láta buna á svæðið. Það er eins og áður segir mikilvægt að huga vel að hreinlæti, þvo eða spritta hendur fyrir salernisferðir og gæta þess að þurrka alltaf frá þvagrás og aftur að endaþarmi en ekki öfugt til að minnka líkur á sýkingum.

Hægðir

Margar konur finna fyrir kvíða þegar kemur að því að hafa hægðir í fyrsta skiptið eftir fæðinguna og hafa þá meðal annars áhyggjur af því að saumar rakni upp. Það er hinsvegar í góðu lagi að ýta svolítið á eftir hægðunum. Það er mikilvægt að drekka vel, reyna að borða trefjaríka fæðu og um leið og konan treystir sér til er gott að fara í stuttar gönguferðir til þess að koma meltingunni í gott horf. Það er þó mælt með að fara hægt af stað og gæta þess að ofgera sér ekki. Ef konan hefur fundið fyrir hægðatregðu á meðgöngunni er allt í lagi að taka inn hægðamýkjandi lyf áfram til þess að auðvelda hægðalosunina.

Gyllinæð

Gyllinæð sem hefur komið á meðgöngunni gengur venjulega til baka eftir fæðingu en það tekur smá tíma. Stundum finna konur einnig fyrir gyllinæð eftir fæðinguna. Gyllinæð myndast vegna þess að bláæðar í endaþarmi víkka út og mynda æðahnúta. Þessir æðahnútar geta svo komið út úr endaþarminum vegna þrýstings til dæmis ef konan er með hægðatregðu á meðgöngunni eða eftir rembinginn í fæðingunni.

Hægt er að fá krem og stíla sem hjálpa til við einkennin en stundum finna konur fyrir kláða og/eða verkjum. Bæði er hægt að fá lyfseðilskyld lyf eða lyf sem fást án lyfseðils í apótekum við gyllinæð.

Þá geta konur fundið tilfinningu eins og eitthvað sé klemmt í endaþarminum, eða fundið fyrir sársaukalausum hnúðum við endaþarmsopið. Einnig getur orðið vart við smá ferska blæðingu í pappír. Mikilvægasta meðferðin er að reyna að halda hægðum mjúkum með trefjaríku fæði, drekka nóg af vatni og hreyfa sig. En það sem getur hjálpað á meðan einkennin eru að hverfa er til dæmis að nota blautklúta til að þurrka sér, fara strax á salerni þegar maður finnur hægðaþörf, nota kalda bakstra, fara í volgt bað í 15-20 mínútur 2-4 sinnum á dag og taka verkjalyf. Ef gyllinæðarkrem er notað getur verið gott að kæla það áður en það er borið á.