Grindarverkir
Konur sem hafa fundið fyrir grindarverkjum á meðgöngu finna oft áfram fyrir þeim eftir fæðinguna. Oft lagast verkir til muna við fæðinguna en breytingar á grindinni í fyrra horf taka u.þ.b. þrjá mánuði.
Nauðsynlegt getur verið að nota snúningslak og önnur hjálpartæki áfram í einhvern tíma eftir fæðinguna og jafnvel fara í sjúkraþjálfun. Alltaf ætti að passa upp á líkamsstöðu og huga að því að reyna að hafa álag á grindina jafnt. Konur ættu að fara varlega af stað í líkamsrækt og hlusta vel á líkamann. Ekki gera æfingar sem setja mikið álag á aðra hlið grindarinnar. Gott getur verið að hefja líkamsþjálfun undir leiðsögn sjúkraþjálfara.