Legið
Þegar konan hefur fætt bæði barn og fylgju er mikilvægt að legið dragi sig vel saman til þess að minnka blæðingarhættu. Smám saman minnkar legið og nálgast aftur þá stærð sem það var fyrir getnað.
Samdráttarverkir
Fyrstu dagana geta konur fundið fyrir samdráttarverkjum sem minna á hríðarverkina. Þeir eru yfirleitt mestir þegar barnið er á brjósti þar sem hormónið oxytocin myndast við brjóstagjöfina og veldur bæði losunarviðbragði úr brjóstum og hvatar samdráttum í leginu. Oft versna þessir verkir svolítið með hverju barni. Eins og við stálma í brjóstum geta verkjalyfin íbúfen og paratabs dregið úr óþægindum við samdráttarverkjum. Einnig getur hjálpað að leggja hitapoka yfir kviðinn og finna sér þægilegar stellingar. Ljósmæður fylgjast með samdrætti legsins eftir fæðinguna og í nokkra daga eftir að heim er komið.
Úthreinsun
Eftir fylgjufæðinguna er opið sár inní leginu sem er jafnstórt og fylgjan var. Frá því sári og frá slímhúð legsins blæðir í 4-6 vikur eftir fæðingu. Það blæðir mest á fyrstu dögunum en þá á blæðingin að vera rauðleit og magnið eins og rífleg tíðablæðing. Síðan verður blæðingin brúnleit og um það bil tveimur vikum eftir fæðingu verður hún gulhvít. Blæðing þar sem að það blæðir mjög mikið eða stórir blóðkögglar ganga niður þarf að skoða nánar. Eins ef vond lykt kemur af úthreinsuninni, konan finnur fyrir verk yfir kvið eða finnur fyrir vanlíðan er ráðlagt að leita læknis. Við sturtblæðingu þarf konan að komast á sjúkrahús tafarlaust en það er sjaldgæft eftir að fjórar klukkustundir eru liðnar frá fæðingunni. Blæðing getur aukist lítillega þegar konan fer að vera meira á fótum og einnig við brjóstagjöf. Á 10. - 14. degi eftir fæðingu losnar hrúður sem myndast hefur yfir fylgjubeðinu og getir blæðingin þá aukist aðeins aftur í nokkra daga.
Hreinlæti í kringum skipti á bindum er mjög mikilvægt. Skipta á reglulega um bindi og handþvottur fyrir salernisferðir er mjög mikilvægur svo óhreinar hendur séu ekki að handleika bindin áður en þau eru notuð. Það er bæði mikilvægt uppá sýkingu í saumum á spangarsvæði og í fylgjubeði.