Tíðablæðingar

Misjafnt er hve langur tími líður þar til blæðingar hefjast á ný. Rannsóknir hafa sýnt að flestar konur sem ekki hafa börn sín á brjósti byrja innan þriggja mánaða frá fæðingu. Konur sem eru með barn á brjósti byrja hins vegar flestar seinna.

Blæðingar geta verið óreglulegar fyrstu mánuðina. Brjóstagjöf er ekki örugg getnaðarvörn en getur verið 98-100% örugg að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:

  • Tíðablæðingar eru ekki byrjaðar á ný (blæðingar á fyrstu 8 vikunum eru ekki taldar vera tíðablæðingar). Athugið að fyrsta egglosið eftir fæðingu verður tveimur vikum áður en fyrstu tíðablæðingar hefjast.
  • Barnið fær ekki reglulega ábót og ekki líða meira en 4 tímar á milli gjafa á daginn eða 6 tímar á nóttunni (barnið er eingöngu eða nær eingöngu á brjósti).
  • Barnið er ekki eldra en 6 mánaða.

Þrátt fyrir að rannsóknir segi að brjóstagjöf geti verið nokkuð örugg getnaðarvörn eru ekki margar konur sem ná að uppfylla þessi skilyrði algjörlega og ekki hægt að mæla með því að treysta algjörlega á þetta. Við vitum aldrei hvenær fyrsta egglosið verður og því er alltaf öruggast að nota aðrar getnaðarvarnir samhliða ef ætlunin er ekki að verða þunguð strax aftur. HÉR má lesa nánar um getnaðarvarnir.