Svefn og hvíld

Það er mikilvægt að nýbökuð móðir fái tækifæri til þess að hvílast vel á fyrstu dögum og vikum eftir fæðinguna.

Þær líkamlegu breytingar sem verða eftir fæðinguna eru orkufrekar og einnig þarf líkaminn að fá tíma til þess að jafna sig eftir sjálfa fæðinguna. Að auki ná fæstar mæður góðum óslitnum nætursvefni eftir fæðingu barnsins þar sem ungbörn þurfa einnig að nærast á nóttunni. Margar hafa einnig sofið illa í einhvern tíma fyrir fæðinguna. Það er því mikilvægt að reyna að leggja sig á daginn til dæmis þegar barnið sefur. Nýbakaðri móður getur fundist skrítið að leggja sig um hábjartan dag en það er nauðsynlegt til að hafa orku í framhaldið. Það er verðugt verkefni hins nýbakaða föður eða maka að sjá til þess að móðirin fái hvíldartíma yfir daginn fyrstu vikurnar.

Einnig getur verið hjálplegt að einhver taki að sér að sinna barninu í eina til tvær klukkustundir yfir daginn svo móðirin geti sofið án truflunar. Þá er gott að reyna að stýra heimsóknum þannig að þær trufli ekki hvíld móðurinnar. Sjá nánar um heimsóknir fyrstu dagana hér. Ónægur svefn getur almennt leitt til andlegrar vanlíðunar sem aftur gerir allt annað miklu erfiðara en annars.