Bjúgur
Um það bil 80% kvenna finna fyrir einhverjum bjúg á meðgöngu. Breyting á blóðrás á meðgöngunni veldur því að líkaminn getur safnað á sig meiri vökva og þá myndast bjúgur.
Hvað er hægt að gera?
- Drekka nóg og getur þá verið gott að drekka Grape safa (eða borða grape) og annan hreinan ávaxtasafa. Vatnsmelóna er einnig góður kostur í fæðuvali.
- Nota stuðningssokka, sérstaklega ef unnið er í mikilli kyrrsetu eða á ferðalögum.
- Gera reglulega léttar fótaæfingar; t.d. snúa fótunum um ökklan, teygja og rétta úr ökklum, lyfta sér upp á tær o.s.frv.
- Hreyfing í vatni er góð og gott að fara í sund. Þá getur hjálpað að láta buna frekar kalt á fætur í lok sundferðarinnar.
- Forðast langar stöður.
- Hvíla sig reglulega og reyna að hafa hátt undir fótum.
Gott er að ræða við ljósmóður um bjúginn, láta vita af honum og meta í meðgönguvernd. Ef bjúgur er meiri á öðrum fæti, mikill verkur í fætinum eða ef konan finnur einnig fyrir öðrum einkennum eins og höfuðverk, sjóntruflunum, verk undir brjóstkassa, ógleði eða vanlíðan er mjög mikilvægt að hafa samband við ljósmóður eða lækni sem fyrst.
Einnig ef bjúgur eykst mjög skyndilega, er mikill á höndum eða andliti o.s.frv.