Réttindi
Þungaðar konur á Íslandi hafa réttindi sem tryggja vernd gegn uppsögnum, rétt til fæðingarorlofs, og til mæðraskoðana án frádráttar á launum. Uppsögn er óheimil nema gildar ástæður liggi fyrir, og konur eiga rétt á tilfærslu í starfi ef starf þeirra er ógn við heilsu móður eða fósturs. Fæðingarorlof er veitt báðum foreldrum í allt að sex mánuði, með rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar hafa rétt á fæðingarstyrk, og réttindi foreldra eru háð forsjá barnsins.
Réttur barnshafandi kvenna
Tilkynningaskylda
Sannanleg tilkynningarskylda hvílir á þunguðum konum gagnvart vinnuveitendum. Í lögum nr. 57/1987 um fæðingarorlof segir, að óheimilt sé að segja upp þunguðum konum. Þrátt fyrir þetta ákvæði virðast atvinnurekendur vera að segja konum upp við þessar aðstæður. Þegar þessum uppsögnum er mótmælt bera atvinnurekendur því jafnan við þeir hafi ekki vitað um þungun þessara kvenna, auk þess sem ástæður uppsagnarinnar hafi verið af allt öðrum toga. Við þessar aðstæður ber konan væntanlega sönnunarbyrðina á því að hún hafi tilkynnt atvinnurekanda sínum um ástand sitt, sem oft á tíðum reynist erfitt. Það sem konur geta gert til að tryggja réttarstöðu sína, er að tilkynna atvinnurekanda þungun sína hið fyrsta og gera það á sannanlegan hátt t.d. með ábyrgðarbréfi, svo ágreiningur af þessu tagi sé úr sögunni.
Fæðingarorlof
Í 1. grein laga um fæðingarorlof segir, að fæðingarorlof sé leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar. Almennt er því litið á þann tíma sem foreldrar eru í fæðingarorlofi sem launalaust leyfi. Í kjarasamningum Verzlunarmannafélags Reykjavíkur er hinsvegar ákvæði sem segir að eftir tveggja ára starf hjá sama vinnuveitanda teljist fjarvistir vegna fæðingarorlofs í allt að 6 mánuði til starfstíma við mat á rétti til aukins orlofs, útreikning desemberuppbótar og orlofsuppbótar, starfsaldurshækkanna, veikindaréttar og uppsagnarfrests.
Greiðslur í fæðingarorlofi
Greiðslur í fæðingarorlofi eru tvískiptar, fæðingarstyrkur og fæðingardagpeningar. Sjá nánar á faedingarorlof.is.
Tilfærsla í starfi á meðgöngutíma
Atvinnurekanda er skylt að færa barnshafandi konu til í starfi, þar sem því verður við komið, ef starfið er þess eðlis að heilsu hennar eða fóstursins er hætta búin. Slík tilfærsla skal ekki hafa áhrif til lækkunnar á launakjör viðkomandi.
Veikindi á meðgöngu
Réttur barnshafandi kvenna er á engan hátt frábrugðinn rétti annarra launþega til veikindaréttar. Barnshafandi kona skal sýna fram á veikindi sín samkvæmt þeim reglum sem kveðið er á um samkvæmt kjarasamningum. Séu veikindin sönnuð á hún rétt til greiðslna hvort heldur sem veikindin má rekja til þungunar konunnar eða ekki. Almenn þreyta, sem er tiltölulega algeng þegar líða tekur á meðgöngu, er ekki talin til sjúkdóma en það er læknis að meta.
Uppsagnir á barnshafandi konum
Óheimilt er að segja barnshafandi konum upp störfum, nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Ekki verður endilega alltaf lagður sami skilningur í hvað séu gildar ástæður. Það geta verið ástæður tengdar konunni sérstaklega og eins ástæður sem tengjast fyrirtækinu. Skoða verður bakgrunn uppsagnarinnar í hverju tilviki fyrir sig og meta stöðuna út frá því. Almennt séð telst til gildra ástæðna að fyrirtæki flytji í annað umdæmi, fyrirtæki sé lagt niður eða um gjaldþrot fyrirtækis sé að ræða.
Réttur til mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum
Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.
Tenglar
Nánari upplýsingar um rétt barnshafandi kvenna má finna á:
Fæðingarorlof
Hverjir eiga rétt á því að fara í fæðingarorlof?
Báðir foreldrar nýfædds barns eiga rétt á því að taka fæðingarorlof. Auk þess eiga foreldrar rétt á slíkri orlofstöku við frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, sé barnið yngra en átta ára. Einnig skapast réttur til orlofstöku við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvana fæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Skilyrði er að foreldrarnir hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu eða ættleiðingu, með 25% starfshlutfall eða hærra.
Hvaða rétt á fólk í orlofinu?
Foreldrar eiga rétt á því að taka orlof í sex mánuði hvort, af þeim mánuðum eru 6 vikur framseljanlegar á milli einstaklinga. Með samkomulagi við vinnuveitanda má brjóta orlofið niður í nokkur styttri tímabil en þó aldrei styttri en tvær vikur í senn. Laun foreldra í fæðingarorlofi eru greidd af Fæðingarorlofssjóði. Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.
Hvað með fólk sem ekki hefur verið á vinnumarkaði?
Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli eiga rétt á mánaðarlegum fæðingarstyrk. Slíkur réttur nær aðeins til foreldra sem hafa barn í sinni forsjá og hafa átt lögheimili hér á landi í 12 mánuði á undan. Sjá nánar vef fæðingarorlofssjóðs.
Sjálfstæður/sameiginlegur réttur foreldra
Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum á hvort foreldri um sig sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði/fæðingarstyrks í allt að fjóra mánuði.
Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði/fæðingarstyrks í tvo mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða þeir skipt á milli sín. Foreldrar geta fengið greiðslur á sama tíma eða mismunandi tímabilum. Sæki báðir tilvonandi foreldrar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði/fæðingarstyrk er umsókn þeirra sameiginleg og undirrituð af þeim báðum. Skilyrði greiðslna er að störf séu lögð niður á meðan greiðslur vara. Réttur til fæðingarorlofs/fæðingarstyrks fellur niður við 24 mánaða aldur barns.
Forsjá barns
Réttur foreldris er almennt bundinn því að það fari með forsjá barns eða foreldrar hafi sameiginlega forsjá barns við upphaf greiðslna. Forsjárlaust foreldri getur þó átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ef forsjárforeldri samþykkir umgengni þess við barnið meðan á fæðingarorlofinu stendur.
Hægt er að sækja umsókn og fá allar nánari upplýsingar um fæðingarorlof á faedingarorlof.is.