Vímuefni á meðgöngu
Flestir verðandi foreldrar nota því meðgöngutímann til að laga líf sitt og umhverfi að nýjum aðstæðum,sérstaklega með tilliti til öryggis barnsins sem þeir bera ábyrgð á. Strax og ljóst er að barn er í vændum er ástæða til að hin verðandi móðir hætti að neyta áfengis og annarra vímuefna.
Áfengi og fíkniefni
Hér eru upplýsingar sem fram koma í bæklingnum Áfengi, vímuefni og meðganga, sem gefin er út af Áfengis - og vímuvarnarráði í samvinnu við Landlæknisembættið og Miðstöð mæðraverndar.
Vímuefni og meðganga
Landlæknir hvetur barnshafandi konur til að neyta hvorki áfengis né annarra vímuefna.
Undirbúningstími
Fæðing barns hefur mikil áhrif á líf foreldra og annarra aðstandenda.Flestir verðandi foreldrar nota því meðgöngutímann til að laga líf sitt og umhverfi að nýjum aðstæðum,sérstaklega með tilliti til öryggis barnsins sem þeir bera ábyrgð á. Eitt af því sem ástæða er til að huga að er neysla foreldranna á tóbaki, áfengi og vímuefnum. Konur, sem eru að reyna að verða ófrískar, ættu að leggja áherslu á að draga úr eða hætta neyslu slíkra efna því þau geta dregið úr frjósemi og aukið hættuna á fósturláti.
Með hugann við barnið
Níu mánaða meðganga er aðeins stuttur tími af mannsævinni og því ástæða fyrir konur að njóta hans sem best. Mikilvægasta hlutverk verðandi foreldra er að stuðla að heilbrigði barnsins sem í vændum er. Lífsstíll móður, ekki síst mataræði og neysluvenjur, geta skipt sköpum um framtíð og þroska barnsins. Fæðið þarf að innihalda öll nauðsynleg næringarefni fyrir móður og barn en ekki er síður brýnt að varast efni sem geta verið fóstrinu skaðleg. Það getur verið erfitt ef lífshættir nánustu aðstandenda og vina samræmast ekki þörfum móður og barns. Stuðningur aðstandenda og vilji til að koma til móts við nýjar þarfir skipta verulegu máli. Þetta þarf að vera hægt að ræða opið innan fjölskyldunnar.
Er áfengi skaðlegt fyrir barnið?
Já. Meðan konan er barnshafandi er barnið hluti af henni. Allt sem hún borðar eða drekkur fær barnið, einnig áfengi. Vínandi, sem hún drekkur, fer sem leið liggur um naflastrenginn yfir í fylgjuna og inn í blóðrás fóstursins. Líffæri þess eru ekki nægilega þroskuð til að brjóta áfengið niður og fóstrið verður því fyrir meiri áhrifum en móðirin.
Þegar þungunin uppgötvast
Strax og ljóst er að barn er í vændum er ástæða til að hin verðandi móðir hætti að neyta áfengis. Ef hún á í erfiðleikum með það er mikilvægt að leita strax til þess læknis eða þeirrar ljósmóður sem annast hana. Þau geta veitt stuðning og ráðgjöf.
Hve mikil drykkja er skaðleg?
Hvorki er vitað hve mikið áfengi er skaðlegt né á hvaða skeiði meðgöngunnar fóstrið er í mestri hættu. Vitað er að svokölluð hófdrykkja getur valdið skaða og að hættan eykst í takt við aukna neyslu. Fóstrið er í hættu alla meðgönguna en skaðinn er mismunandi eftir því á hvaða þroskastigi heilinn er hverju sinni. Líffærin þroskast á mismunandi stigi meðgöngunnar og eru hvert um sig viðkvæmust þegar þau eru í sem hröðustum vexti. Ef barnshafandi kona sleppir því að neyta áfengis kemst hún hjá því að taka þá áhættu sem fylgir áfengisneyslu.
Hvað getur gerst?
Þekkt er að mikil áfengisneysla á meðgöngu getur haft í för með sér varanlegan skaða t.d. fæðingargalla í andliti, óeðlilega smátt höfuð og í sumum tilvikum hjartagalla og vanskapaða útlimi. Þessu fylgir andleg fötlun og skertur vitsmunaþroski sem koma ekki endilega fram fyrr en barnið kemst á skólaaldur. Þessar alvarlegu afleiðingar eru sjaldgæfar. Hins vegar er staðreynd að mun fleiri börn fá vægari einkenni sem koma fram í námserfiðleikum og hegðunarvandamálum síðar á ævinni, jafnvel þó móðirin neyti ekki mikils áfengis á meðgöngunni.
Er munur á bjór,borðvíni og sterkara áfengi?
Nei. Vínandinn í öllum þessum drykkjum hefur sömu áhrif og getur skaðað fóstrið.
Hvað ef þungunin uppgötvast seint?
Þó kona neyti áfengis fyrstu vikur meðgöngunnar áður en hún gerir sér grein fyrir að hún er með barni er ávallt ávinningur af að hætta neyslu strax. Gott er að leita ráða hjá ljósmóður eða lækni ef áhyggjur vakna vegna áfengis-eða vímuefnaneyslu fyrstu vikurnar.
Hvað með ólögleg vímuefni?
Ólögleg vímuefni t.d. hass, e-töflur, amfetamín, kókaín eða heróín geta m.a. valdið fósturláti, fylgjulosi og fyrirburafæðingu ef barnshafandi kona neytir þeirra. Auk þess er hætta á að vitsmunaþroskinn skerðist og barnið fái ýmsa alvarlega sjúkdóma sem krefjast mikils eftirlits og umönnunar. Kona sem neytir ólöglegra vímuefna þarf að hætta því strax og henni er kunnugt um þungunina. Hún á ekki að hika við að leita aðstoðar, stuðnings og ráðgjafar hjá þeirri ljósmóður eða þeim lækni sem annast hana. Konur sem eru í neyslu þegar þær verða þungaðar fara í mæðravernd á göngudeild Landspítalans þar sem er gott utanumhald og góður stuðningur ljósmæðra og lækna með sérþekkingu á vandanum. Við hvetjum konur sem eru í neyslu til þess að vera hreinskilnar og þiggja þá aðstoð sem býðst á meðgöngu. Meðgangan getur oft verið gott tækifæri til þess að snúa við blaðinu og hætta neyslu fíkniefna.
Hefur áfengis-eða vímuefnaneysla föður áhrif á barnið?
Hvorki hefur verið sannað né afsannað að neysla föður hafi líffræðileg áhrif á fóstrið.Það er hins vegar auðveldara fyrir verðandi móður að hætta neyslu áfengis og annarra vímuefna ef makinn styður hana með því að hætta líka. Lífsstíll föður hefur auk þess mikil félagsleg og andleg áhrif á líf móður og barns.
Er aukin hætta á fósturláti hjá konum sem neyta áfengis á meðgöngu?
Já, meðal kvenna, sem drekka meira en sem nemur einu vínglasi á dag, er aukin hætta á fósturláti.
Skaðast barnið ef móðirin drekkur aðeins við hátíðleg tækifæri?
Best er að drekka aldrei á meðgöngu. Það er hlutfallslegt magn áfengis í blóði sem skiptir mestu máli. Barnið verður fyrir meiri áhrifum en móðirin og er lengur að losna við þau. Það gildir einu hvort drukkið er sjaldan og mikið eða oft og lítið.
Eiga barnshafandi konur að hætta að taka lyf?
Best er fyrir konu, sem notar lyf að staðaldri við einhverjum sjúkdómi, að ráðfæra sig við lækni um hvort ástæða sé til að breyta lyfjagjöfinni á meðgöngunni. Sú meginregla gildir að best er að taka ekki lyf á meðgöngu og að verðandi móðir láti ávallt vita að hún sé barnshafandi ef læknir ætlar að ávísa lyfi á hana.
Er hollt að drekka rauðvín á meðgöngu vegna þess hve járnríkt það er?
Nei, vínandinn í öllum áfengum drykkjum hefur sömu áhrif og getur skaðað fóstrið. Betri járngjafar eru rautt kjöt, morgunverðarkorn, rúsínur, gróft brauð og grænt grænmeti.
Brjóstagjöf og áfengi
Æskilegt er að takmarka áfengisneyslu verulega á meðan barnið er á brjósti. Við brjóstagjöf myndast einstakt og sterkt samband milli móður og barns. Ef móðirin drekkur áfengi fær barnið hluta áfengisins með móðurmjólkinni og verður fyrir meiri áhrifum en hún. Taugakerfi barnsins er enn í mótun og getur áfram orðið fyrir skaða af áfenginu. Aðeins einn áfengur drykkur dregur úr mjólkurframleiðslu, breytir lykt og bragði móðurmjólkurinnar svo hún verður ógeðfelld fyrir barnið og hefur væg slævandi áhrif svo sogviðbrögð þess slakna. Móðir,sem er undir áhrifum áfengis, er auk þess ekki eins árvökul og ella og það eykur slysahættu.
Ef þú vilt vita meira
Listi yfir staði sem hægt er að leita til og fá upplýsingar.
- Heilsuvera, upplýsingar um áfengi á meðgöngu
- Heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir um allt land
- Áfengis-og vímuvarnaráð, sími 585 1470
- Landlæknisembættið, sími 510 1900
Njóttu meðgöngunnar
- Borðaðu góðan og næringarríkan mat.
- Notfærðu þér þjónustu mæðraverndar.
- Hreyfðu þig reglulega eins og þér líkar best.
- Varastu áfengi. Drekktu frekar vatn, ávaxtasafa eða aðra óáfenga drykki með mat, í veislum og þegar þú slakar á í vinahópi.
- Finndu slökunarleið sem hentar þér og þú getur fléttað inn í daglegt líf, t.d. lestur, tónlist, hugleiðslu, leikfimi, gönguferðir eða böð.
- Gerðu eitthvað sérstakt fyrir sjálfa þig eða barnið,eitthvað sem þér finnst gott og skemmtilegt.
- Minntu sjálfa þig á hve vel þér líður og hve öruggt barnið sem þú gengur með er án áhrifa áfengis, tóbaks eða annarra vímuefna.
Útgefið 2002 af Áfengis-og vímuvarnaráði í samvinnu við Landlæknisembættið og Miðstöð mæðraverndar. Sólveig Jónsdóttir,sérfræðingur í klínískri taugasálfræði barna,veitti ráðgjöf.
Nóvember 2018