Meðganga eftir missi
Meðganga eftir missi getur verið rétt eins ánægjuleg reynsla og hver önnur meðganga en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að hún er oft lituð miklum kvíða, hræðslu og óöryggi. Með fyrri missi á meðgöngu varð einnig missir á þeirri trú að meðganga endi alltaf með lifandi, heilbrigðu barni. Það reynist því flestum mun erfiðara að njóta meðgöngunnar.
Meðganga eftir missi
,,Rétti tíminn" fyrir næstu meðgöngu er fyrirbæri sem mörgum pörum sem misst hafa hugleikið, hvenær hann kemur, hvenær líkaminn er tilbúinn, hvenær maður er tilbúinn andlega. Þetta getur verið það fyrsta sem foreldrarnir hugsa um eftir að þeir eru búnir að meðtaka fréttirnar um að barnið þeirra sé dáið: ,,Hvenær get ég reynt aftur?"
Skiptar skoðanir eru á því hvenær þessi rétti tími kemur. Meðgöngulengd og hvort gerður var keisaraskurður getur haft áhrif á hvenær líkaminn er tilbúinn í aðra meðgöngu. Flestir læknar mæla þó með að eftir fósturlát eða eðlilega fæðingu sé gott að bíða a.m.k. tvo til þrjá tíðahringi áður en byrjað er að reyna aftur en a.m.k. sex mánuði hafi keisaraskurður verið gerður.
Meiri ágreiningur er um hvenær foreldrarnir eru andlega tilbúnir að takast á við aðra meðgöngu. Fræðimenn hafa hvort tveggja fundið; að of langur tími milli meðgangna leiði til verri andlegrar líðan og einnig að of stutt á milli meðgangna gefi fjölskyldunni ekki tækifæri til að vinna úr sorg sinni. Hins vegar er það staðreynd að meira en helmingur foreldra sem missa á meðgöngu eru komnir af stað á ný innan árs.
Áhyggjur og kvíði
Kvíði er sú tilfinning sem flestar konur finna fyrir í meðgöngu eftir missi, margar eru mjög áhyggjufullar, viðkvæmar og hikandi, einnig er algengt að finna fyrir reiði og einmanaleika. Þar sem missir á meðgöngu er ekki vinsælt umræðuefni – og e.t.v. síst nálægt ófrískum konum, getur þeim liðið eins og þær séu einar í heiminum með þessar tilfinningar og áhyggjur. Mörgum finnst þær alltaf þurfa að vera á verði og eru aldrei áhyggjulausar, hafa tilfinningu um að vera berskjaldaðar og hafa ekki stjórn á aðstæðum.
Í erlendri rannsókn á áhyggjuefnum kvenna sem misst hafa á fyrri meðgöngu höfðu flestar áhyggjur af heilsu barnsins sem þær gengu með og af því að missa það barn líka. Margar óttuðust áhrif eigin líðanar á barnið, þ.e. hvort það gæti skaðað barnið ef þeim liði mjög illa, og að fá slæmar fréttir, t.d. niðurstöður úr einhverjum rannsóknum. Einnig var algengt að hafa áhyggjur af eigin tilfinningalegu jafnvægi, skort á stuðningi annarra og hvernig annar missir myndi hafa áhrif á framtíð þeirra. Sumum fannst verst að hafa endalausar áhyggjur. Hreyfingar barnsins valda mörgum áhyggjum og einnig er til að kyn barnsins skipti foreldra miklu máli, sumir vilja alls ekki eignast barn af sama kyni og það barn sem þeir misstu meðan aðrir vilja sama kyn.
Upplifun maka
Makar hafa sagt þá reynslu að missa á meðgöngu hafa breytt lífsviðhorfum sínum og þeir hafi tilfinningu um minni stjórn á lífinu almennt. Þeir hafa oftast ríka þörf fyrir að styðja og vernda konurnar sínar en finna ekki síður fyrir kvíða á meðgöngu eftir missi. Þeim finnst áhættan vera meiri en í fyrri meðgöngu og hafa meiri þörf fyrir að fylgjast meira með og vilja meira eftirlit með meðgöngunni. Ljósmæður hafa lýst þessum mökum sem sérstaklega áhugasömum og virkum þátttakendum í meðgöngunni.
Í bók Ingólfs V. Gíslasonar félagsfræðings, ,,Pabbi", sem kom út á síðasta ári er að finna áhrifamikla og lifandi lýsingu föður á missi á meðgöngu og tilfinningum hans á meðgöngunni sem á eftir kom. Hann lýsir t.d. þeirri tilhneigingu fólks í samfélaginu að aðskilja makann frá sorginni, honum fannst erfitt þegar fólk spurði hann um hvernig konan hans hefði það en ekki hann. Hann tók mjög virkan þátt í meðgöngunni eftir missinn en þurfti að hafa fyrir því að fá athygli heilbrigiðisstarfsfólks sem yfirleitt beindi orðum sínum ekki til hans að fyrra bragði.
Viðbrögð systkina
Afar lítið er að finna í heimildum um viðbrögð systkina við meðgöngu eftir missi en það litla sem til er sýnir að þau bregðast misjafnlega við. Ef þau fengu á annað borð að taka þátt í upplifun af fyrri missi fara viðbrögðin eftir þeirri reynslu, aldri og þroska. En eftir þá sorg, sem oft er sú eina sem börnin hafa upplifað, vekur tilhugsunin um aðra meðgöngu oftast kvíða, því hún getur hugsanlega þýtt annan missi.
Foreldrar hafa lýst viðbrögðum eins og að ungt barn sjái það sem sjálfsagt mál að þetta barn muni deyja líka eða spyrji þeirrar spurningar hreint út, yfirlýsingar um að eitt barn (það sjálft) sé alveg nóg og það þurfi ekkert á systkini að halda.
Eins og með sjálfan missinn er nauðsynlegt að maður sé hreinskilinn við börnin og tali um hlutina eins og þeir eru. Foreldrum er t.d. ráðlagt að svara spurningunni um hvort þetta barn muni deyja líka á þá leið að þau viti það ekki en ætli að gera allt sem þau geti til að koma í veg fyrir það.
Tengslamyndun
Margir foreldrar sem hafa lesið sér til um ungabörn eða hafa bara setið sálfræðiáfanga í framhaldsskóla, hafa rekist á eitthvað um mikilvægi tengslamyndunar við barnið. Sagt er að í sálfræðinni sé fátt eins vel staðfest og að ungabarnið myndi sterk tengsl við einhvern einn eða fáa fullorðna og sem betur fer eru það oftast foreldrarnir. Það er talið að slíkt sé forsenda andlegs heilbrigðis síðar meir og þess að geta myndað tengsl við aðra og sett sig í spor annarra.
Tengslamyndun hefst strax á meðgöngu eða jafnvel um leið og foreldrarnir áætla að eignast barn og því hafa vaknað spurningar um hvernig sú streita og tilfinningaumrót, sem oft verður á meðgöngu eftir missi, hafi áhrif á tengslamyndun.
Sumar mæður reyna að brynja sig tilfinningalega með því t.d. að segja aðeins fáum velvöldum frá meðgöngunni og gera ýmsar ráðstafanir til að ,,storka ekki örlögunum", t.d. með því að fresta undirbúning fyrir komu barnsins eins lengi og hægt er, ekki kaupa bílstól eða barnavagn o.s.frv.
Ekki hefur verið sýnt fram á að ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af þessu. Mæður sem eiga þessa reynslu að baki og eru kvíðnar og áhyggjufullar mynda engu að síður tengsl við börnin sín. Einnig er til rannsókn sem leiðir líkum að því að aðeins væg tengsl séu milli tengslamyndunar á meðgöngu og eftir fæðingu.
Meðgönguvernd á meðgöngu eftir missi
Þar sem foreldrar eru oft mjög kvíðnir og áhyggjufullir á meðgöngu eftir missi þá skiptir góð meðgönguvernd þá miklu máli. Erlendis hefur sums staðar komið á fót sérhæfðri meðgönguvernd fyrir foreldra sem hafa misst á fyrri meðgöngu en engin slík sérhæfð þjónusta finnst enn sem komið er hér á landi. Íslenskar ljósmæður eru þó vel menntaðar og hafa allar forsendur til að veita þessum foreldrum góða meðgönguvernd.
Eins og fram hefur komið þá líður alls ekki öllum foreldrum illa þó þeir hafi áður misst og því þarf þeirra meðgönguvernd e.t.v. ekki að vera neitt frábrugðin þeirri hefðbundnu en það getur verið mjög gott fyrir foreldra að gefa ljósmóðurinni hugmynd um hvernig þeim líður í tengslum við fyrri missi, hver þeirra helstu áhyggjuefni eru og koma með eigin óskir um hvernig þeir vilja hafa sína meðgönguvernd.
Ýmislegt er hægt að gera til að létta foreldrum kvíða. Sem dæmi má nefna er að ef móðir hefur miklar áhyggjur af heilsu barnsins getur verið möguleiki á að fá að koma oftar í stutta heimsókn í meðgönguverndina bara til að fá hlustun eftir hjartslættinum.
Gott er að fá upplýsingar um hvert sé hægt að leita þegar eitthvað kemur upp á eða bara þegar þörf er fyrir spjall og hughreystingu. Ljósmæður eiga einnig að vera færar um að veita hvers kyns fræðslu í tengslum við meðgöngu og fæðingu og getur bent á leiðir fyrir foreldra til að verða sér úti um meiri fræðslu.
Konur hafa oftast mikinn stuðning af því að hafa makann með í meðgönguverndina, ekki síst þegar þau hafa orðið fyrir missi áður. Þeir þurfa ekki að gera neitt sérstakt eða setja sig í ákveðnar stellingar heldur er nærvera þeirra það sem gerir gæfumuninn, þeir eru vitni að því sem er að gerast og það hjálpar til þegar foreldrarnir ræða um heimsóknina og rifja hana upp eftir á. Makar hafa líka, og ættu gjarnan að nota meðgönguverndina sem tæki til að létta eigin kvíða á meðgöngu eftir missi.
Frekari stuðningur
Ef foreldrar hafa þörf fyrir frekari stuðning eða þjónustu frá öðrum fagaðilum eins og heimilislækni, fæðinga- og kvensjúkdómalækni, félagsráðgjafa, sálfræðingi eða geðlækni getur ljósmóðirin bent foreldrum á leiðir eða verið milligöngumaður við slíka aðila.
Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að félagsráðgjafar og sálfræðingar hafa verið ráðnir til heilsugæslustöðva og þjónustar þeirra er jafnvel möguleg sem hluti af meðgönguvernd.
Á Miðstöð Mæðraverndar er t.d. félagsráðgjafi í hlutastarfi og á Heilsugæslustöðinni á Akureyri starfar bæði félagsráðgjafi og sálfræðingur í tengslum við meðgönguvernd.
Ágúst 2018