Ungar mæður
Ungar barnshafandi konur fá sömu þjónustu og aðrar konur í mæðravernd, þar á meðal ómskoðanir og foreldrafræðslunámskeið. Þær geta fengið þéttari eftirfylgni og einstaklingsmiðaða fræðslu ef þess er óskað. Félagslegur, fræðandi og tilfinningalegur stuðningur er mikilvægur, þar sem unglingsstúlkur standa frammi fyrir aukinni hættu á þunglyndi, meðgöngueitrun og öðrum heilsufarsvandamálum. Rannsóknir sýna að réttur stuðningur getur bætt líðan, minnkað erfiðleika á meðgöngu og aukið tengsl móður og barns.
Þegar ung kona verður barnshafandi þá er gert ráð fyrir því að hún komi í mæðravernd u.þ.b. 10-12 vikur gengin eða á sama tíma og aðrar konur. Henni er boðið upp á sömu þjónustu og aðrar konur og ef til vill er henni boðið að koma þéttar á meðgöngunni. Henni er boðið að fara í ómskoðun á 19.-20. viku eins og öðrum konum.
Einnig stendur henni og hennar stuðningsaðila til boða að fara á foreldrafræðslunámskeið og getur hún valið úr einkareknum námskeiðum þ.e.a.s. í Reykjavík eða farið á námskeið á vegum heilsugæslustöðvanna. Ef henni líst ekki á það að fara á námskeið þá getur hún fengið einstaklingsfræðslu hjá ljósmóður og fær hún þá lengri tíma í mæðraverndinni í senn.
Ef unga konan á við erfiðleika að stríða þá getur hún fengið viðtöl hjá félagsráðgjöfum og næringarráðgjöfum og fleiri sérfræðingum. Það fer svolítið eftir því hvar á landinu hún er búsett hvaða háttur er hafður á.
Flestar þunganir unglingsstúlkna eru ekki fyrirfram ákveðnar og af þeim sökum geta ýmsir erfiðleikar komið upp. Burt séð frá aldri konunnar getur móðurhlutverkið verið óútreiknanlegt, valdið óöryggi og haft áhrif á sjálfsvirðingu hennar. Unglingsárin eru vegurinn milli barndóms og fullorðinsára.
Þegar ung stúlka verður ófrísk má líkja því við að hún fari út á hliðarveg sem er grýttur og illfær. Til að komast yfir þennan illfæra veg þarf unga konan mikinn stuðning frá sínum nánustu og frá heilbrigðisstarfsfólki. Stuðningurinn getur verið mismunandi en hann getur falist í félagslegum, tilfinningalegum og fræðandi stuðningi.
Félagslegur stuðningur
Með félagslegum stuðningi er átt við það að fundin séu úrræði sem geta mætt þörfum einstaklingsins á heildrænan hátt en ekki þjónusta sem getur leyst líkamleg vandamál. Rannsóknir hafa sýnt fram á að slíkur stuðningur fækkar vandamálum á meðgöngu, léttburum fækkar, aukin tengst verða á milli móður og barns eftir fæðingu, færri stúlkur hætta námi og færri verða þungaðar aftur.
Fræðandi stuðningur
Fræðandi stuðningur felst í upplýsingum, þekkingu og ráðleggingum. Vitsmunalegur stuðningur getur farið fram í gegnum foreldrafræðslunámskeið, þar sem t.d. er farið yfir breytingar á líkamanum, fæðingarferlið, foreldrahlutverkið og hagnýtar upplýsingar. Hugmyndir hafa verið uppi um að námskeið af þessu tagi verði haldin í skólunum eða verði í samvinnu við þá og þannig megi draga úr brottfalli úr skólum.
Tilfinningalegur stuðningur
Tilfinningalegur stuðningur er framkoma við unglinginn sem ýtir undir tilfinningar sem veita vellíðan og veldur því að unglingnum finnst hann vera aðdáunarverður, elskaður og virtur. Þessar tilfinningar veita unglingnum öryggi. Tilfinningalegur stuðningur er mjög mikilvægur á meðgöngu og veldur því oft að unga móðirin sættir sig við þungunina. Algengast er að móðir eða kærasti veiti tilfinningalegan stuðning en þau valda einnig mestum árekstrum við hina verðandi móður. Aðrir sem veita stuðning geta verið, skyldfólk, vinkonur eða aðrir vinir. Jafningjahópar geta líka verið gagnlegir þegar ræða þarf um sameiginleg áhugamál eða vandamál.
Sérkenni ungra þungaðra kvenna
Það er algengt að unglingsstúlkur mæti seint í mæðravernd. Því yngri sem þær eru þeim mun síðar uppgötvast þungunin. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Óreglulegar blæðingar geta verið ein ástæðan en algengast er að þær afneiti ástandi sínu.
Þungaðar unglingsstúlkur eru taldar líklegri til að fá ýmsa sjúkdóma á meðgöngu en þær sem eldri eru. Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem styðja þá skoðun. Sumir sjúkdómar tengjast líferni þeirra eins og reykingum, neyslu alkóhóls, slæmum næringarvenjum o.s. frv. en aðrir tengjast ungum aldri. Má þar nefna háþrýsting og blóðleysi.
Unglingsstúlkur eru líklegri til að fá meðgöngueitrun og eignast oftar börn fyrir tímann, m.a. vegna fyrirmálsrofnunar himna t.d. vegna sýkinga.
Þunglyndi hjá ungum konum
Þunglyndi er algengara hjá ungum konum eftir fæðingu barns en hjá öðrum. Þær eru þrisvar sinnum líklegri til að fá fæðingarþunglyndi en aðrar konur. Almennt má sjöunda hver íslensk kona búast við að finna fyrir slíkum einkennum eftir fæðingu sem er svipuð tíðni og í öðrum vestrænum löndum.
Alvarleiki og algengi einkennanna er háð streitu í foreldrahlutverkinu, óværð barna og félagslegri stöðu mæðra. Þættir sem auka líkur á þunglyndi eftir fæðingu er saga um þunglyndi, þunglyndi á meðgöngunni, óráðgerð þungun, hafa barn ekki á brjósti, atvinnuleysi og að vera einstæð móðir.
Það er staðreynd að fáar konur leita sér hjálpar vegna þunglyndis eftir fæðingu og ástandið er sjaldan greint að frumkvæði heilbrigðisstarfsfólks.
Ástæðurnar eru taldar þær að konurnar gera sér oft ekki sjálfar grein fyrir því að þær eru þunglyndar og starfsfólk hefur ekki fengið þjálfun í að greina og meta einkennin.
Fram að þessu hafa rannsakendur notað mismunandi mælitæki og aðferðir. Rannsóknirnar hafa verið framkvæmdar á mismunandi tímum, þ.e. frá meðgöngu allt til þremur árum eftir barnsfæðinguna. Einn af þessum kvörðum sem hefur verið þróaður er kallaður Edinborgar-þunglyndiskvarði sem á að auðvelda heilbrigðistéttum í heilsugæslu að sjúkdómsgreina þunglyndi eftir fæðingu.
Á foreldrafræðslunámskeiðum gefst tækifæri til að ræða þunglyndi eftir barnsburð. Mikilvægt er að gera greinarmun á depurð og þunglyndi og fara yfir helstu einkenni og afleiðingar.
Ef konan sækir ekki foreldrafræðslunámskeið er nauðsynlegt að ræða um þunglyndi og afleiðingar þess í mæðraverndinni. Ef ungar konur eru aðstoðaðar við að verða öruggar og virkar mæður er hægt að brjóta hringrás þunglyndis.
Heimild
Málfríður Stefanía Þórðardóttir (2003). Ég hefði viljað fá meiri fræðslu: Heimildaúttekt á líðan og aðstæðum ungra þungaðra kvenna. Lokaverkefni í ljosmóðurfræði. Háskóli Íslands: Hjúkrunarfræðideild