Reykingar

Tóbaksneysla getur haft víðtæk áhrif á allt okkar líf. Í tóbaksreyk eru ýmis efni sem skaða mannslíkamann. Til að stuðla að heilbrigði ófædda barnsins/barnanna er eitt mikilvægasta atriðið í því sambandi að reykja ekki á meðgöngu.

Reykingar

Á vef Heilsugæslunnar er að finna upplýsingar um reykingar á meðgöngu og reykingar og uppeldi barna. Þar er fjallað um skaðsemi reykinga, óbeinar reykingar, að hætta að reykja og upplýsingar um hvar nálgast megi ráðgjöf og fræðslu.

Börnin eru okkur allt

- þess vegna ættum við aldrei að reykja í návist þeirra.

Allar verðandi mæður óska þess heitast að barnið sem þær bera undir belti fæðist heilbrigt. Eitt mikilvægasta atriðið í því sambandi er að reykja ekki á meðgöngu. Einnig er nauðsynlegt að gefa börnum kost á að alast upp á reyklausu heimili.

Víðtæk áhrif

Tóbaksneysla getur haft víðtæk áhrif á allt okkar líf. Í tóbaksreyk eru ýmis efni sem skaða mannslíkamann. Efnasamsetning tóbaksreyks fer eftir tegund tóbaks sem reykt er, meðferð þess í vinnslu, hitastiginu sem það brennur við og fleiru. Efnasambönd í reyknum skipta þó ávallt þúsundum (um 4700 mismunandi efnasambönd) og eru í aðalatriðum hin sömu hvert sem tóbakið er. Nikótín er í öllu tóbaki. Það er fyrst og fremst nikótín sem gerir tóbaksneyslu vanabindandi.

Rannsóknir sýna að konur þola síður að reykja en karlar. Þær þurfa ekki að reykja eins lengi til þess að fá alls kyns alvarlega sjúkdóma. Konur verða fyrir óæskilegum breytingum á hormónastarfsemi, ófrjósemi er þrisvar sinnum algengari, hætta á fósturláti eykst umtalsvert og árangur tæknifrjóvgana er ekki eins góður hjá konum sem reykja.

Reykingar á meðgöngutíma eru hættulegar fóstrinu. Fylgjuvefur starfar ekki eins vel og hefur áhrif á hjarta- og æðakerfi fósturs. Að meðaltali verður vaxtarskerðing sem nemur 200 grömmum hjá nýburum og hún verður að miklu leyti í mikilvægustu líffærum barnsins. Lungu barna eru viðkvæm og á þessum tíma vex líkami barnsins ört.

Nikótín fyrir tvo

Ef kona reykir við upphaf meðgöngu berast til fóstursins skaðleg efni á þeim tíma þegar vefjamyndun á sér stað og hættast er við því að ytri áhrif geti valdið vansköpun. Áhrifin verða meiri ef konan reykir mikið og eftir því sem á meðgöngutímann líður.

Nikótín veldur samdrætti í æðum og dregur þannig úr blóðflæði til fylgjunnar. Auk þessa er talið að nikótín hafi bein áhrif á heila- og hjartastarfsemi fóstursins.

Kolsýrlingur (CO) í tóbaksreyk binst blóðrauða móðurinnar, en hann flytur súrefni um líkama hennar og til fóstursins um fylgjuna. Blóðrauði fóstursins hefur tilhneigingu til að taka til sín kolsýrling frekar en súrefni úr blóði móðurinnar og losnar ekki við það nema á löngum tíma. Þannig geta milli 10% og 20% af blóðrauða fóstursins verið bundin kolsýrlingi í stað súrefnis, ef móðirin reykir mikið. Súrefnisskortur er fóstrinu hættulegur og dregur úr þroska þess.

Börn sem verða fyrir mengun vegna reykinga í móðurkviði eru síður búin undir fæðinguna þar sem þau eru næmari fyrir súrefnisskorti (eins og fram hefur komið) og það dregur úr næringarforða.

Hætti kona að reykja fyrir fjórða mánuð meðgöngutímans virðast líkur á burðarmálsdauða minnka verulega. Nokkrar rannsóknir hafa tengt reykingar mæðra auknum líkum á vöggudauða. Vöggudauði er að minnsta kosti tvisvar sinnum algengari meðal þeirra barna sem búa hjá foreldrum sem reykja en barna foreldra sem ekki reykja.

Brjóstagjöf

Flestar mæður vita að reykingar á meðgöngutíma eru hættulegar fyrir ófætt barnið, en því miður átta þær sig ekki allar á því að reykingar eru líka skaðlegar barninu eftir fæðinguna. Oft er það svo að konur sem hætta að reykja á meðan þær eru ófrískar byrja strax aftur eftir að barnið fæðist.

Mæðrum er ráðlagt að hafa barnið á brjósti en ekki má gleyma að vara við því að brjóstmylkingurinn fær eiturefni með mjólkinni ef móðirin reykir. Ef sígaretta er reykt í návist barns eru niðurbrotsefni nikótíns mælanleg í þvagi þess næstu daga á eftir. Reykingar draga úr hormóninu prólaktín sem hefur áhrif á mjólkurframleiðslu. Þess vegna mjólka mæður sem reykja ekki eins vel. Því meira sem konan reykir því minni verður mjólkurframleiðslan.

Ekki má gleyma því að mörg börn fá mjólkina sína úr pela og með aukinni þátttöku feðra í uppeldi barna sinna eru það þeir sem gefa barninu að drekka. Ef móðir eða faðir reykir yfir barni sínu verður það fyrir óbeinum reykingum.

Meiri líkur eru á því að það veikist og veldur reykurinn þeim líka augnsviða og höfuðverk. Raunar ætti hættan af slíkum „óbeinum reykingum" ekki að koma á óvart því að í reyknum umhverfis reykingamanninn eru að minnsta kosti jafnmörg skaðleg efni og í reyknum sem hann sogar að sér, auk þeirra rúmlega 40 krabbameinsvaldandi efna sem í honum eru.

Æskuþroski og aðstæður

Vaxtaskerðingin sem fóstrið verður fyrir tekur til flestallra líffæra þess, meðal annars beina, vöðva og innri líffæra en síður til fituvefs. Samkvæmt nýlegum rannsóknum er magakrampi helmingi algengari hjá börnum mæðra sem hafa reykt á meðgöngu, einnig er staðfest að grátur og óróleiki barna reykingarmæðra sé meiri en hjá mæðrum sem ekki hafa reykt á meðgöngu.

Sýnt hefur verið fram á það að reykingar tengjast með einhverjum hætti hægari vexti, þroska, framförum í lestri, skrift og öðrum lærdómi á æskuárunum. Óljóst er hvað veldur þessum tengslum nákvæmlega, en þau eru ótvíræð.

Þú getur leyst mörg vandamál með því að taka ákvörðun um hvort og þá hvar og hvenær megi reykja heima hjá þér. Það virðist kannski vera svolítið ósveigjanlegt en í raun er það góð leið til að undirbúa sig fyrir þau vandamál sem geta komið upp.

Ef maki þinn reykir er nauðsynlegt að ákveða hvort hann megi reykja inni á heimilinu og þá hvar. Umræðan á að snúast um það hvernig best sé að vernda barnið fyrir tóbaksreyk með því að takmarka reykingar en ekki um það að reykingamaðurinn hætti að reykja.

Það getur verið erfitt og tilfinningaþrungið og því mikilvægt að það snúist um að virða rétt barnsins til að anda að sér hreinu lofti en ekki um afstöðu reykingamannsins til reykbindindis. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að vandamálið er reykurinn – ekki reykingamaðurinn.

Hvað er hægt að gera?

Allflestir reykingamenn, eða um 80%, vilja hætta að reykja. Talið er að um 20-30% þungaðra kvenna reyki. Margar þeirra hætta um leið og þær vita að þær eru ófrískar en til er sá hópur sem á erfitt með að breyta reykingavenjum sínum þrátt fyrir það.

Ekki þarf að vera erfitt að hætta að reykja ef maður lítur á það sem frelsun en ekki fórn. Meira en fimmtíu þúsund núlifandi Íslendingar hafa hætt að reykja. Margir reyna aftur og aftur – áður en það heppnast. Ef þú hefur áður reynt án árangurs hugsaðu þá um að æfingin skapar meistarann. Þú verður færari við hverja tilraun. Flestir fyrrverandi reykingamenn eiga margar misheppnaðar tilraunir að baki.

Búðu þig undir að hætta að reykja. Þú verður að leggja þig alla(n) fram við það. Leitaðu þér aðstoðar, til dæmis hjá Krabbameinsfélaginu í síma 540 1900.

Skiptar skoðanir eru á því hvort æskilegt sé að ófrískar konur noti nikótínlyf eða ekki. Rannsóknum ber þó saman um að ef kona reykir 20 sígarettur á dag eða meira sé skárra að hún noti nikótínlyf en reyki. Ekki er mælt með plástri eða lyfjum sem gefa stöðugt frá sér nikótín. En af tvennu illu væri tveggja milligramma nikótíntyggjó í hófi æskilegra en reykingar. Ef nikótínlyf eru tekin sem viðbót við reykingar á meðgöngu getur það haft alvarlegar afleiðingar. Best er að hætta að reykja og leita sér aðstoðar. Einstaklingsviðtöl eru mikill stuðningur og virðast gefast best.

Ef þér finnst þú missa af einhverju við að hætta að reykja, mundu þá eftir þeim heilsufarslega og fjárhagslega ávinningi sem það felur í sér, fyrir þig og fjölskyldu þína. Að hætta að reykja krefst hugarfarsbreytingar. Það er ekki hægt að kenna fólki að hætta að reykja, aðeins er hægt að veita stuðning og ráðgjöf. Ábyrgðin og árangurinn hvílir á herðum þess sem ætlar að hætta. Hvað gerir ekki barnið sem er að læra að ganga, það dettur og dettur, en stendur alltaf upp aftur – á endanum lærir það að ganga!

Hvað með rafsígarettur eða “veip”?

Markaðssetning rafsígaretta hefur að miklu leyti snúist um öryggi þeirra og skaðleysi og hefur orðið mikil aukning á notkun þeirra á meðgöngu og telja margir að notkun þeirra sé hættulaus. Nýjar rannsóknir sýna hinsvegar að áhrif þeirra á fóstur geti mögulega verið mikil og skaðleg. Í dýrarannsóknum hafa komið fram miklar vanskapanir í andliti og munnholi eftir að fóstur voru útsett fyrir efnum sem notuð eru í rafsígaretturnar. Þar má nefna klofinn góm, klofna vör, lítil andlit og aðrar vanskapanir. Þá sáust slíkar vanskapanir á fósturvísum þrátt fyrir að notaður væri vökvi sem innihélt ekki nikótín. Önnur áhrif hefðbundinna reykinga eru einnig talin eiga við þegar notaður er nikótínvökvi í rafsígarettur. Þar sem rafsígarettur eru enn tiltölulega nýjar á markaðnum eru til takmarkaðar upplýsingar og rannsóknir um áhrif þeirra á meðgöngu en þær rannsóknir sem komnar eru gefa þó sterklega til kynna að þær séu ekki öruggar.

Þó hefur sýnt sig að rafsígarettur geti hjálpað konum að draga úr eða hætta reykingum á meðgöngu. Það er talinn skárri kostur að nota rafsígarettur á meðgöngunni ef konan getur ekki hætt með öðrum leiðum og því mælt með notkun þeirra í slíkum tilfellum.

Heimildir og fræðsla:

Grein eftir Arndísi Guðmundsdóttur og Ölda Ásgeirsdóttur.

The Use of Electronic Cigarettes in Pregnancy: A Review of the Literature. Whittington, Julie R. MD ; Simmons, Pamela M. DO +; Phillips, Amy M. MD ++; Gammill, Sarah K. BS [S]; Cen, Ruiqi MPH [P]; Magann, Everett F. MD [//]; Cardenas, Victor M. MD, PhD *Obstetrical & Gynecological Survey. 73(9):544-549, September 2018.

Correlates of Electronic Cigarettes Use Before and During Pregnancy Cheryl Oncken, MD, MPH Karen A. Ricci, RN, MPH Chia-Ling Kuo, PhDEllen Dornelas, PhD Henry R. Kranzler, MD Heather Z. Sankey, MD. Nicotine & Tobacco Research, Volume 19, Issue 5, 1 May 2017, Pages 585–590,https://doi.org/10.1093/ntr/ntw225

E-cigarette aerosol exposure can cause craniofacial defects in Xenopus laevis embryos and mammalian neural crest cells. Allyson E. Kennedy, Suraj Kandalam, Rene Olivares-Navarrete, Amanda J. G. Dickinson. PLOS. September 28, 2017 https://doi.org/10.1371/journal.pone.0185729

http://smokefreeaction.org.uk/wp-content/uploads/2017/06/eCigSIP.pdf

Uppfært í nóvember 2018