Áhyggjur á meðgöngu
Ótti tengdur meðgöngu og fæðingu er eitthvað sem hefur lengi þekkst. Meðgöngu fylgir bæði óvissa og valdleysi. Helstu ástæður fyrir áhyggjum og kvíða á meðgöngu eru t.d. fósturgallar, fósturmissir eða ýmsir þættir tengdir fæðingu barnsins.
Kvíði og áhyggjur kvenna og maka þeirra á meðgöngu snerta marga ólíka fleti, allt frá áhyggjum af heilbrigði barns að fjárhagsáhyggjum eftir fæðingu þess. Einnig getur fyrri reynsla og lífsgæði spilað veigamikið hlutverk.
Ótti getur verið bæði góður og slæmur. Hann getur ýtt undir að maður framkvæmi eitthvað eða komið í veg fyrir það. Vægur ótti eða smá áhyggjur geta orðið til þess að maður leiti sér upplýsinga um það sem maður óttast og vinni þannig á óttanum. Þessar upplýsingar geta verið varðandi matarræði, hvernig er æskilegt að foreldrar hegði sér á meðgöngu (hvað "má" eða "má ekki"), upplýsingar um hvað er að gerast á hverjum tíma meðgöngunnar eða til að fá upplýsingar um ákveðin einkenni sem konan finnur fyrir. Þannig getur þessi ótti eða áhyggjur verið liður í undirbúningnum undir foreldrahlutverkið.
Ef áhyggjurnar eru hins vegar það miklar að hinir verðandi foreldrar geta ekki notið þeirrar stórkostlegu lífsreynslu sem meðgangan og að ala barn er, eru þær orðnar hindrun sem foreldrar þurfa aðstoð með. Ljósmóðir í mæðravernd aðstoðar konur og maka við að finna bjargráð og leiðir til að draga úr áhyggjum á meðgöngu. Hún er einnig tengill við þau meðferðarúrræði sem eru í boði fyrir fólk sem þurfa aukna aðstoð vegna vanlíðunar í barneignarferlinu.