Hægðatregða

Hægðatregða á meðgöngu er einn af fylgikvillum meðgöngunnar sem sumar konur finna fyrir og aðrar ekki. Ein af ástæðum hægðatregðu er að þarmahreyfingar minnka vegna áhrifa hormónsins prógestróns á slétta vöðva og einnig er aukin upptaka vökva úr hægðunum þar sem líkami móðurinnar þarf á auknum vökva að halda.

Mataræði

Það er mögulegt að vinna á móti hægðatregðunni með því að gera breytingar á mataræði þ.e. drekka meiri vökva, borða meira af ávöxtum og grænmeti og síðast en ekki síst að auka neyslu á trefjum s.s. All Bran, múslí o.fl. Rauðrófusafi þykir t.d. góður við hægðatregðu og inniheldur mikið af vítamínum þ.m.t. járni.

Talandi um járnið þá má heldur gleyma því að inntaka á járntöflum getur ýtt undir hægðatregðu. Barnshafandi konur þurfa almennt ekki að taka inn járn til að fyrirbyggja járnskort en einstaka kona getur þurft að taka járn ef í ljós kemur að um járnskort er að ræða. Mörg svokölluð „óléttuvítamín" innihalda járn þannig að inntaka á þeim getur einnig ýtt undir hægðatregðu. Hægt er að taka inn járnmixtúrur og einnig er til járn í munnúðaformi sem á ekki að valda eins mikilli hægðatregðu. Einu vítamínin sem mælt er með að allar konur taki á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu og helst fyrir getnað er fólínsýra, 400 µg (0,4 mg) á dag og D-vítamín 1000ie á dag. Ef barnshafandi kona borðar hollan mat ætti ekki vera þörf á öðrum vítamínum en fólínsýru og D-vítamíni.

Hreyfing

Á meðan hreyfingarleysi ýtir undir hægðatregðu þá er að sama skapi hægt að vinna á móti hægðatregðu með reglulegri hreyfingu. Finndu hreyfingu sem hentar þér en óhætt er að mæla með gönguferðum og sundi.

Mikilvægt að fara strax

Það er mikilvægt að fara á klósett um leið og þú finnur fyrir þörf fyrir að hafa hægðir og alls ekki að fresta því vegna þess að þá dregur líkaminn ennþá meira vatn úr hægðunum og þær verða ennþá harðari og þá verður bara erfiðara að koma þeim frá sér. Þetta getur orðið slæmur vítahringur.

Ef hægðatregða heldur áfram þrátt fyrir ofangreindar ráðleggingar má taka t.d. magnesia medic töflur eða Sorbitól mixtúru en hún hefur ekki skaðleg áhrif á fóstur svo það er alveg óhætt að nota það í venjulegum skömmtum. Það getur tekið nokkra daga að koma hægðunum í lag. Upplýsingar um skammtastærðir fylgja mixtúrunni.