Líkamlegar breytingar á tvíburameðgöngu

Hjá konum sem ganga með tvíbura eða fjölbura er magn hormóna í blóði aukið samanborið við einburameðgöngu. Þá stækkar legið hraðar og geta ýmsir meðgöngukvillar komið fyrr fram og eru algengari en hjá konum sem ganga með eitt barn.

Strax á fyrstu vikum meðgöngunnar getur þú farið að finna fyrir breytingum á brjóstum. Þau geta orðið aum og þrútin þegar mjólkurkirtlarnir eru að þroskast og jafnvel getur lekið úr geirvörtunum á meðgöngunni.

Margar konur finna fyrir svima og örum hjartslætti en það gerist vegna breytinga sem eru að verða á blóðrásinni. Blóðmagn líkamans eykst og getur það valdið aukinni viðkvæmni í slímhúðum líkamans. Sumar konur fá auðveldlega blóðnasir og getur jafnvel blætt úr gómnum af þessum sökum. Einnig getur blætt frá leggöngum eða leghálsi eftir kynlíf eða ef konan þarf til dæmis að nota skeiðarstíla. Ef blæðingin er lítil er að öllum líkindum ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur en sjálfsagt er að leita ráða og álits ljósmóður.

Brjóstsviði er algengur kvilli sem kemur þar sem legið þrýstir á maga konunnar og magasýrur berast upp í vélinda.

Þreyta og orkuleysi er yfirleitt mest á fyrstu og síðustu vikum meðgöngunnar og líður flestum konum best á öðrum þriðjungi (ca. 13-28 vikur). Mæður sem ganga með fleiri en eitt barn verða þó oft fyrr þreyttar en aðrar og geta þurft að hægja á sér í vinnu snemma og jafnvel hætta alveg. Það er mikilvægt að fá góða aðstoð frá maka eða aðstandendum til þess að konan fái næga hvíld.

Fyrstu hreyfingarnar geta fundist frá ca. 16. viku en það er alveg eðlilegt að finna ekki hreyfingar fyrr en í kringum 20. viku. Staðsetning fylgju skiptir þar miklu máli en fylgja sem er á framvegg legsins getur dempað hreyfingar og spörk frá börnunum.

Þegar líða tekur á meðgönguna finna margar konur fyrir bjúgmyndun á fótum og höndum. Margar verða andstuttar þar sem stækkandi leg þrýstir á lungun og konum finnst stundum eins og þær nái ekki að fylla lungun af lofti.

Margar konur finna fyrir verkjum í baki og grind, sérstaklega á síðustu vikunum. Sumar konur finna þó fyrir verkjum nánast frá getnaði. Á meðgöngu framleiðum við mikið magn hormónsins relaxín sem gerir það að verkum að það slaknar á öllum liðum. Sumar konur finna meira fyrir þessu en aðrar og geta þær jafnvel þurft á sjúkraþjálfun að halda. HÉR má lesa um grindarverki á meðgöngu.

Breyting verður á svefnvenjum. Stækkandi kviður getur gert konum erfiðara að finna þægilegar svefnstellingar og eins geta tíðari þvaglát truflað svefninn. Það er mikilvægt að reyna að koma sér þægilega fyrir á hliðinni og geta púðar af ýmsum stærðum og gerðum hjálpað mikið. Það er til dæmis gott að setja púða milli fóta, undir kviðinn og jafnvel við bakið. Hér er gott að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Margar konur kaupa brjóstagjafapúða og er tilvalið að nota þá á meðgöngunni til þess að koma sér betur fyrir.

Á seinni hluta meðgöngunnar finna margar konur fyrir aukinni útferð frá leggöngum. Það er fullkomlega eðlilegt svo lengi sem hún er ekki illa lyktandi eða grænleit eða önnur einkenni eins og sviði eða kláði fylgja með. Útferðin getur verið mjög þunn og er ekki óalgengt að konur velti því fyrir sér hvort þær hafi misst þvag eða jafnvel að legvatn sé farið að renna. Ef þú ert óörugg er best að hafa samband við ljósmóður.