Andleg líðan á tvíburameðgöngu
Það getur verið yfirþyrmandi að komast að því að barn sé væntanlegt, hvað þá ef þau eru fleiri en eitt. Þá skiptir ekki máli hvort þungunin var plönuð eða ekki. Þá geta viðbrögð verðandi foreldra verið mjög misjöfn og er mikilvægt að báðir aðilar fái tækifæri til þess að átta sig og jafna sig á fréttunum, sérstaklega er um óráðgerða þungun er að ræða. Ef um ráðgerða þungun er að ræða getur það reynst áfall að komast að því að börnin séu fleiri en eitt. Það er nauðsynlegt að ræða tilfinningar sínar og líðan við maka.
Ef verðandi foreldrar finna fyrir miklum áhyggjum eða kvíða á meðgöngunni er mikilvægt að ræða það við ljósmóður en hún getur oft aðstoðað við að finna lausnir eða vísa fólki áfram til viðeigandi aðila eftir því sem við á.
Líta má á meðgönguna sem undirbúningstíma fyrir nýja hlutverkið sem í vændum er. Tengslamyndun verðandi foreldra við börnin hefst mjög fljótlega, það getur verið misjafnt milli foreldranna hvenær það gerist. Oftast er meðgangan ofar í huga hinnar verðandi móður fyrstu vikurnar en er óraunverulegri í augum makans. Þegar foreldrarnir hugsa til barnanna, tala til þeirra, syngja, strjúka kúlunni og svo framvegis, aukast tengslin smám saman.
Algengt er að makinn fari að mynda meiri tengsl um það leyti sem hreyfingar eru farnar að finnast og kúlan að stækka því þá verður meðgangan og tilvist barnanna raunverulegri í hans augum. Ábyrgðartilfinningin fer þá gjarnan að vaxa og praktískur undirbúningur hefst oft um miðja meðgönguna. Eftir því sem líður á meðgönguna fer hin verðandi móðir að hugsa meira og meira um fæðinguna og foreldrarnir fara að sjá fyrir sér stundina þegar börnin koma í heiminn og tímann eftir það. Það er gott fyrir verðandi foreldra að ræða saman um meðgönguna, fæðinguna foreldrahlutverkið og hvaða væntingar og skoðanir þau hafa.
Flestir foreldrar eru “bara” að tengjast einu barni á meðgöngu en það getur reynst flókið fyrir suma að tengjast fleiri en einu barni í einu. Hugsanir eins og “mun ég getað elskað bæði börnin jafn mikið?” geta komið upp og eru alveg eðlilegar. Einnig getur reynst sumum erfitt eða skrítið að sjá sig eða maka sinn fyrir sér sem foreldri. Það getur tekið tíma að aðlagast og venjast þessum hugsunum og hver og einn þarf að gefa sér og maka sínum þann tíma sem þarf. Ef áhyggjur vakna er gott að ræða þetta við ljósmóður í mæðravernd eða í heimaþjónustu/ungbarnavernd eftir að börnin fæðast.
Það er mikilvægt að hafa í huga að ekki allar konur upplifa meðgönguna ánægjulega. Sumum líður illa ýmist andlega eða líkamlega og skiptir miklu máli að ræða þessa líðan við ljósmóðurina svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana.