Hvernig verða tvíburar til?

Tvíburaþungun getur orðið ef móðir losar tvö egg sem frjóvgast bæði og ná að festa sig og er þá talað um tvíeggja tvíbura (dizygotic). Þeir verða þá til úr sitthvoru egginu og sitthvoru sæðinu og hafa því ólíka erfðauppbyggingu, rétt eins og önnur systkini. Fóstrin geta því ýmist verið af sama eða sitthvoru kyninu. Þau eru hvort með sinn líknar- og æðabelg og sitthvora fylgjuna.

Meðgöngulengd í tvíeggja tvíburaþungun nær oftast 37-39 vikum og börnin teljast þá fullburða en þó er alltaf aukin hætta á fyrirburafæðingu.

Eineggja tvíburaþungun (monozygotic) verður þegar móðir losar eitt egg sem frjóvgast en skiptir sér í tvennt og það myndast tvö sjálfstæð fóstur. Þessir tvíburar eru úr einu eggi og einni sáðfrumu og hafa sama erfðaefni og verða því mjög lík. Þau eru ávallt af sama kyni. Eineggja tvíburar geta verið ólíkir að einhverju leyti og eru líkurnar meiri eftir því sem eggið skilur sig fyrr. Þeir hafa sama augn- og háralit og svipaða líkamsuppbyggingu en mismunandi tennur og fingraför. Belgjaskilin geta haft áhrif á vöxt og þroska fóstursins. Ef belgjaskil eru þunn eru t.d. meiri líkur á vaxtarskerðingu hjá öðru eða báðum fóstrum. Algengast er að eineggja tvíburar fæðist eitthvað fyrir tímann.

Ef fósturvísir skiptir sér á 1.-3. degi verða tvíburarnir “dichorionic diamniotic” (þykk belgjaskil).

Ef skiptingin verður á 3.- 8. degi verða þeir “monochorionic diamniotic” (þunn belgjaskil).

Ef skiptingin verður á 9. -12. degi verða þeir “monochorionic monoamniotic” (engin belgjaskil)

Ef skiptingin verður eftir 12. dag verða þeir samvaxnir en það er mjög sjaldgæft.

Greining á belgjaskilum og fylgjugerð er gerð með ómskoðun snemma á meðgöngu. Það er mikilvægt að greina hvort belgjaskilin séu þykk, þunn eða engin því þörf er á nánara eftirliti á meðgöngu þar sem belgjaskil eru þunn eða engin.

Munurinn á þykkum og þunnum belgjaskilum er sá að þegar belgjaskil eru sögð þykk hafa bæði börnin sína fylgju og fósturbelgi. Fósturbelgirnir eru tveir, æða-og líknarbelgir.

Þegar belgjaskil eru þunn þá deila börnin fylgju og æðabelg en hafa hvor sinn líknarbelg (vatnsbelg).

Ef það eru engin belgjaskil þá deila börnin fylgju og báðum belgjum.