Meðgönguvernd tvíbura

Það er misjafnt hvenær konur komast að því að þær eigi von á tveimur börnum (eða jafnvel fleirum). Sumar konur fara í snemmómskoðun og kemur þetta þá í ljós á meðan aðrar fá fréttirnar í 11-14 vikna ómskoðun.

Þegar konur ganga með tvíbura geta þungunareinkenni í mörgum tilfellum verið meiri eða ýktari en hjá öðrum verðandi mæðrum. Þá er algengara að þær þjáist af ógleði og jafnvel Hyperemesis Graviderum sem lýsir sér í miklum uppköstum og viðvarandi ógleði sem hefur víðtæk áhrif á verðandi móður. Ef þú finnur fyrir mjög mikilli ógleði sem veldur því að þú nærð ekki að drekka eða nærast er mikilvægt að fá tíma hjá ljósmóður, jafnvel þó það sé mjög snemma á meðgöngunni. Konur sem ganga með tvíbura hefja meðgönguvernd oft fyrr en aðrar verðandi mæður.

Í upphafi meðgöngunnar ættu konur að hafa samband við ljósmóður á sinni heilsugæslustöð og fá tíma í mæðravernd. Ljósmóðirin fer yfir heilsufar verðandi móður og skráir í mæðraskýrslu. Einnig er farið yfir fyrri meðgöngu- og/eða fæðingarsögu eftir því sem við á. Boðið er upp á ýmsar skimanir fyrir til dæmis blóðleysi, blóðflokkun, lifrabólgu B, HIV, mótefnum fyrir rauðum hundum og sárasótt. Þá er veitt ýmiskonar fræðsla og upplýsingar um fósturskimun.

Konum sem ganga með tvíbura eða fjölbura stendur til boða að hitta fæðingarlækni snemma á meðgöngu. Auk þess fá þær viðtal við ljósmóður með sérþekkingu á tvíburameðgöngum. Það viðtal fer fram á göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum. Þá er mælt með að þær hitti heilsugæslulækni að minnsta kosti tvisvar á meðgöngunni.

Í skoðunum hjá ljósmóður er einnig mældur blóðþrýstingur móður, þvag er skoðað og almenn líðan móður bæði líkamleg og andleg er metin. Fylgst er með legbotnshæð eftir 20. viku og eftir 12. viku er hlustað eftir fósturhjartsláttum. Ekki er hlustað á fósturhjartslátt í meðgönguvernd fyrr en eftir 12 vikna meðgöngu þar sem óvíst er hver áhrif þess á fóstrin á viðkvæmu vaxtarskeiði geta verið. Því getum við ekki mælt með því að konur noti “dopplera” sjálfar heima til þess að hlusta á fósturhjartslátt.

Ljósmóðirin mun einnig ræða um fæðinguna og bjóða upp á fræðslu í tengslum við hana. Við hvetjum alla verðandi foreldra til þess að mæta saman í meðgönguvernd og eru eldri systkini einnig velkomin með ef vilji er fyrir því. Einnig eru sérstök námskeið í boði fyrir verðandi tvíburaforeldra. Ljósmóðirin þín getur veitt þér upplýsingar um þau námskeið sem eru í boði.

Hvar fer meðgönguvernd tvíbura fram?

Konur sem ganga með tvíbura sem hafa svokölluð þykk belgjaskil geta í flestum tilfellum verið í mæðravernd á sinni heilsugæslustöð. Konur sem ganga með tvíbura sem hafa þunn eða engin belgjaskil þurfa að vera í eftirliti á göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum. Einnig þurfa konur sem hafa ákveðna áhættuþætti eins og til dæmis ýmsa undirliggjandi sjúkdóma, fyrri sögu um meðgöngueitrun eða háþrýsting, fyrirburafæðingu, vaxtarseinkun fósturs eða meðgöngusýkursýki að vera í sérhæfðu eftirliti á göngudeild mæðraverndar 22-B á Landspítalanum.

Fjöldi skoðana og ómskoðana á meðgöngu fer eftir því hvort um er að ræða þykk belgjaskil eða þunn/engin og einnig líðan og ástandi móður og barna. Hér má sjá yfirlit yfir þær skoðanir og viðtöl sem verðandi mæður sem eru í eftirliti á heilsugæslustöð ættu að fara í. Þessi tafla er viðmið og getur verið að þú þurfir að hitta einhverja oftar en hér segir. Einnig getur verið að t.d. ómskoðanir séu gerðar á öðrum tíma en hér er talið upp. Ef belgjaskil eru þunn/engin eru fleiri skoðanir en hér eru taldar upp.