Farið legvatn

Legvatnið fer þegar belgir sem umlykja barnið rofna, oftast í upphafi eða á miðri fæðingu, en stundum áður en fæðing hefst. Legvatnsleki getur verið mismikill, og margar konur rugla honum saman við þvagleka eða þunnfljótandi útferð. Mikilvægt er að hafa samband við ljósmóður ef grunur er um legvatnsleka til að meta ástand móður og barns.

a close up of a wave in the water

Legvatn fer að leka í um 8% tilfella að áður en fæðing hefst við fulla meðgöngulengd en mun sjaldnar (innan við 3%) áður en fullri meðgöngulengd (37-42 vikur) er náð.

"Missa vatnið"

Á íslensku er talað um að „missa vatnið“ eða að „legvatnið fari“.

Það er þó alls ekki þannig að allt legvatnið fari í einu, heldur byrjar það að leka þegar belgirnir rofna. Belgirnir sem umlykja barnið og legvatnið eru tveir, vatnsbelgur og æðabelgur, þess vegna er talað um belgina í fleirtölu. Oftast rofna belgirnir þegar fæðing er hafin og jafnvel langt á veg komin en stundum rofna þeir áður en fæðing hefst. Ef þetta gerist fyrir 37 vikna meðgöngu er hætta á fyrirburafæðingu. Þegar þú „missir vatnið“ er líklegt að þú finnir vatn leka frá leggöngunum, í mjög mismiklu mæli. Það er ekki alltaf augljóst þegar „vatnið fer“ og margar konur halda að legvatn sé farið að leka þegar um er að ræða þvagleka, t.d. við hósta eða hnerra. Einnig getur þunnfljótandi útferð líkst legvatnsleka, en útferð getur aukist mjög í lok meðgöngu. Gott er að nota þefskyn til að greina legvatn frá þvagi, en lyktin af legvatni er sæt . Ef grunur er um legvatnsleka er rétt að hafa samband við ljósmóður á heilsugæslustöð eða fæðingardeild því mikilvægt er að greina hvort um raunverulegan legavatnsleka sé að ræða og í kjölfarið meta ástand þitt og barnsins. Flutningsmáti á fæðingardeild fer eftir stöðu barns og hvort kollur er skorðaður eða ekki.

Er hættulegt að missa legvatnið?

Belgirnir vernda fóstrið frá bakteríum og veirum þannig að sýkingarhætta eykst eftir að belgir rofna. Legvatnið er einnig verndandi fyrir naflastrenginn sem getur orðið viðkvæmari fyrir þrýstingi þegar legvatnið minnkar.

Er kollurinn skorðaður?

Ljósmóðirin í meðgönguverndinni metur stöðu barnsins í hverri skoðun og hvort kollurinn er skorðaður. Þetta getur haft þýðingu ef þú „missir vatnið“. Ef barnið er í höfuðstöðu og kollurinn skorðaður þá er óhætt að ganga um þó legvatnið „fari“ og þú getur farið í einkabíl á fæðingardeild. Ef hins vegar kollur barnsins er óskorðaður eða ef barnið er ekki í höfuðstöðu er yfirleitt ráðlegt að leggjast niður um leið og vatnið „fer“ og hringja í 112 og fá sjúkraflutning á næstu fæðingardeild. Þetta er gert vegna mögulegrar hættu á naflastrengsframfalli sem getur ógnað lífi barnsins.

Hvað er best að gera?

Það fer eftir meðgöngulengd sem og ástandi móður og barns hvað gert er þegar legvatn fer að leka.

Ef meðgöngulengd hefur ekki náð 34 vikum er yfirleitt reynt að fresta fæðingu þar til lungu barnsins ná meiri þroska. Í þeim tilfellum eru oftast gefnir sterar til að flýta fyrir lungnaþroska barnsins og sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingu. Í sumum tilfellum eru einnig gefin hríðahamlandi lyf. Ef meðgöngulengd er 34-37 vikur er yfirleitt ekki reynt að fresta fæðingunni ef hún fer sjálfkrafa af stað, en yfirleitt eru gefin sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingu.

Um 79% kvenna sem missa vatnið eftir 37 vikna meðgöngu byrja sjálfkrafa í fæðingu innan 12 tíma og 95% innan sólarhrings. Það er raunhæfur valkostur að bíða og sjá hvort fæðing fari ekki sjálfkrafa af stað ef legvatn er tært og ástand móður og barns gott. Þar sem sýkingarhætta eykst eftir að belgir rofna er þó ekki talið ráðlegt að bíða of lengi. Ef ákveðið er að bíða og sjá er þó mælt með því að fæðingin sé sett af stað ekki seinna en u.þ.b. sólarhring eftir að legvatnsleki hófst og þá er líka yfirleitt hafin sýklalyfjagjöf.

Hættumerki við legvatnsleka

Hvort sem þú ert með staðfestan legvatnsleka og bíður eftir að fæðing fari af stað eða ef þig grunar að legvatn sé farið að leka er mikilvægt að þekkja helstu hættumerki í þessu sambandi. Ef þessi einkenni eru til staðar skaltu hafa samband við fæðingardeild.

  • Litað legvatn, t.d. grænt, brúnt eða blóðlitað
  • Minnkaðar hreyfingar
  • Hækkaður líkamshiti
  • Illa lyktandi legvatn
  • Fersk blæðing
  • Ef framfall verður á naflastreng (naflastrengur kemur niður í leggöng) þá skaltu fara á 4 fætur og hafa rassinn upp í loft, hringja í 112 og biðja um flutning með forgangi.
  • http://www.ljosmodir.is/asset/343/er_legvatnid_farid.pdf

    Suwannachat B. (2007) Planned early birth versus expectant management (waiting) for prelabour rupture of membranes at term (37 weeks or more): RHL commentary. The WHO Reproductive Health Library; Geneva: World Health Organization.