Vatnsfæðingar

Vatnsbað í fæðingu veitir náttúrulega verkjastillingu og stuðlar að slökun, bættri stjórn á hríðum og minni hættu á spangarrifum. Notkun vatns getur dregið úr þörf á verkjalyfjum og aukið líkur á jákvæðri fæðingarreynslu.

Hvernig get ég nýtt mér vatnsbað í fæðingunni minni?

Allar konur geta nýtt sér eigin bað heima hjá sér í upphafi fæðingar til að lina fæðingarhríðir. Þegar líða tekur á fæðinguna og konur hafa valið sér fæðingarstað, hvort sem er í heimahúsi eða á fæðingardeild, stendur þeim til boða á flestum fæðingarstöðum hérlendis notkun á vatnsbaði í þægilegum baðpottum. Heimafæðingarljósmæður bjóða konum á Íslandi upp á afnot af sérhönnuðum fæðingarpottum sem auðvelt er að setja upp í heimahúsi.

Er vatnsfæðing hættuleg fyrir mig eða barnið mitt?

Vatnsböð í fæðingum hafa frá upphafi verið umdeild í flestum löndum. Áhyggjur andstæðinga vatnsfæðinga hafa helst verið að að möguleiki sé á því að barnið geti andað að sér baðvatni með alvarlegum fylgikvillum. Jafnframt að aukin hætta sé á sýkingu fyrir móður og barn. Vitað er að barn getur andað í móðurkviði, drukkið og jafnvel andað að sér legvatni. Fræðilegar líkur eru því á því að ef barn andar að sér baðvatni geti það leitt til alvarlegra aukaverkana s.s. hyponatremíu, votra lungna og sýkinga. Hins vegar hafa rannsóknir ekki sýnt fram á skaðleg áhrif eða aukna tíðni vandamála hjá mæðrum eða börnum þar sem fæðingin fór fram í vatni.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að náttúrulegt lífeðlisfræðilegt ferli, m.a. losun hormónanna prostaglandíns, progesterons og endorfíns frá fylgjunni, komi í veg fyrir öndun barns í vatni og einnig hafi hinn lági efnaskiptahraði barns í móðurkviði þar áhrif. Þá séu til staðar efnaviðtakar sem m.a. finnast í koki barnsins sem gera því kleift að greina á milli vökva sem það getur kyngt og andað að sér. Barnið hafi því eðlislæga getu til að greina baðvatn sem það má ekki anda að sér. Truflun á þessu verndandi ferli getur orðið ef barnið verður fyrir súrefnisskorti í móðurkviði en ólíklegt er að það gerist í eðlilegum fæðingum.

Fylgjendur vatnsbaða og vatnsfæðinga hafa haldið því fram að vatnsböð hjálpi móðurinni að slaka á, minnki notkun á verkjalyfjum og stuðli að eðlilegum fæðingum. Sú sýn samræmist niðurstöðum rannsókna. Flestir læknar og ljósmæður líta á notkun vatns á fyrsta stigi fæðingar í eðlilegum fæðingum sem jákvæða þróun og að notkun vatns í fæðingum sé ein leið til að standa vörð um eðlilegar fæðingar og betri fæðingarreynslu.

Hvernig hjálpar vatnið mér í fæðingunni?

Á fyrsta stigi fæðingar þegar leghálsinn er að opnast getur notkun vatns:

  • hjálpað þér við að ná betri slökun
  • hjálpað þér við að ná betri stjórn á hríðunum
  • auðveldað hreyfingu
  • stytt fæðingartímann
  • minnkað þörf á læknisfræðilegum inngripum , t.d. í formi lyfja sem auka styrk hríðanna.
  • minnkað þörf á verkjalyfjum, s.s. mænurótardeyfingu
  • stuðlað að ljúfari/betri fæðingarreynslu

Á öðru stigi fæðingar, sem oft er kallað rembingsstig, getur notkun vatns:

  • minnkað líkur á spangarrifu, þar sem vatnið teygir á spönginni (svæðið milli legganga og endaþarms) svo hún gefur auðveldar eftir þegar barnið fæðist
  • aukið líkur á eðlilegri fæðingu
  • stuðlað að ljúfari/betri fæðingarreynslu fyrir þig og barnið þitt.

Mun ég geta notað vatn í fæðingunni minni?

Ef þú átt eðlilega meðgöngu að baki eru allar líkur á að þú getir nýtt þér vatnsbað í fæðingu. Flestir fæðingarstaðir hérlendis hafa útbúið leiðbeiningar til að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt. Rannsóknir benda til þess að kunnátta og reynsla ljósmóður af vatnsfæðingum skipti miklu máli hvað öryggi varðar. Flestar konur geta nýtt sér bað á fyrsta stigi fæðingar en ef einhverjir áhættuþættir koma upp í fæðingunni gæti konan þurft að koma uppúr vatninu. Stundum geta konur nýtt sér vatnsbað á fyrsta stigi fæðingar en eru beðnar að koma uppúr á öðru stigi fæðingarinnar (rembingstímbilnu). Helstu frábendingar við notkun vatnsfæðinga eru eftirtaldar:

  • Meðganga undir 37 vikum
  • Að þú gangir með fjölbura
  • Afbrigðilegt fósturhjartsláttarrit
  • Grænt legvatn (hægt að nota baðið á fyrsta stigi fæðingar)
  • Ríkuleg blæðing frá leggöngum
  • Sjúkdómar móður s.s. alvarleg meðgöngueitrun og alvarlegir blæðingarsjúkdómar
  • Mænurótardeyfing
  • Notkun sterkra verkjalyfja eins og morfíns og petidíns


Sagan á bakvið vatnsböð til að lina hríðarverki

Ekki eru ríkar mannfræðilegar heimildir fyrir því að konur hafi fyrr á öldum notast við vatn í fæðingum. Þær heimildir sem þó eru til leiða fyrst og fremst í ljós að konur hafi sóst eftir eigin rými sem var hlýtt og verndandi, án mikillar birtu. Þó eru til frásagnir um Indjánakonur frá Maórí sem fæddu börn sín í heilögu fljóti og konur sem byggðu eyjar við Kyrrahaf fæddu börn sín við ströndina og sumar í grunnu, hlýju vatninu.

Nýjar hugmyndir um áhrifamátt vatns í fæðingum frá sjöunda áratug síðustu aldar má að mörgu leyti þakka rússneska sundkennaranum Igor Tjarkovski, sem heillaðist af notkun vatns í fæðingum hjá spendýrum og yfirfærði þær hugmyndir til barnshafandi kvenna. Rannsóknir sínar byggði Tjarkovski á hegðun annarra kvenspendýra sem notuðu vatn í fæðingum, eða fæddu í vatni, og hugsuðu um afkvæmi sín að hluta til neðansjávar.

Nokkrum árum síðar, eða á níunda áratug síðustu aldar, fylgdi franski fæðingarlæknirinn Michel Odent í kjölfarið og fór að nota vatnsbað á hinum fræga Pithiviers spítala í Frakklandi til að lina sársauka í fæðingarhríðum. Á daginn kom að margar konur neituðu að fara upp úr vatninu þegar annað stig fæðingar hófst og vatnsfæðingar urðu æ algengari á Pithiviers spítalanum. Odent flutti þær fregnir til „heimsbyggðarinnar" að vatnsböð væri góður valkostur fyrir konur til að lina hríðarverki og í kjölfarið fóru æ fleiri fæðingarstaðir víðs vegar um heiminn að gefa konum kost á að nýta sér vatnsbað í fæðingum.

Fyrsta vatnsfæðing á Íslandi átti sér stað 22. júlí árið 1987. Þetta var heimafæðing sem var vandlega undirbúin og móðirin hafði sjálf undirbúið þessa fæðingu með ljósmóðurinni sem var með henni. Fæðingin gekk vel og móður og barni heilsaðist vel á eftir. Nokkrum árum síðar bauð sjúkrahúsið á Selfossi sunnlenskum konum upp á vatnsböð í fæðingum og smærri fæðingarstaðir fylgdu í kjölfarið. Íslenskar konur gerðu strax góðan róm að vatnsböðum til að lina hríðaverki. Á þeim rúmum 30 árum sem liðin eru frá því fyrsta vatnsfæðing hérlendis átti sér stað hefur mikið vatn runnið til sjávar, fæðandi konum til heilla.