GBS berar

Talið er að um það bil 25-33% kvenna beri bakteríuna streptókokkur af hjúpgerð B í meltingarvegi sínum og/eða í leggöngum. Oftast er talað um þessa bakteríu sem GBS en það er stytting úr ensku og stendur fyrir Group B streptococcus. Hér á landi hefur ekki verið mælt með skimun allra barnshafandi kvenna fyrir GBS.

Það að vera GBS beri er ekki það sama og að vera sýktur af GBS. Berar eru ekki veikir og þarfnast ekki meðferðar á meðgöngu nema til sýkingar komi. Það er ekki hægt að gera neitt til að koma í veg fyrir að bera bakteríuna í sinni bakteríuflóru. GBS getur einnig verið bundin tímabilum og getur sama konan borið bakteríuna á einhverju æviskeiði en ekki á öðru. Bakterían er að öllu jöfnu skaðlaus en nái hún að valda sýkingu getur hún verið hættuleg.

Hættan er lítil en GBS berar geta á meðgöngu fengið þvagfærasýkingu af völdum bakteríunnar. Jafnframt getur GBS valdið sýkingu í belgjunum sem umlykja barnið í leginu og valdið þannig fyrirbura- eða andvana fæðingu. Í kringum fæðingu er möguleiki á að GBS geti sýkt nýburann og einnig fylgjubeðið inní leginu eftir fæðingu. Nýburar sem sýkjast geta orðið mjög veikir og fengið lungnabólgu, blóðeitrun eða heilahimnubólgu. Sýkist nýburi af GBS er meðferðin innlögn á Vökudeild þar sem gefin eru sýklalyf í æð og einkenni svo sem öndunarerfiðleikar meðhöndlaðir eftir þörfum. Mæður sem sýkjast þarfnast einnig gjarnan innlagnar á Sængurlegudeild og fá sýklalyf í æð.

Fyrir konur sem hafa áður fætt barn sem sýktist af GBS eða hafa greinst með GBS í þvagi eða leggöngum/endaþarmi á meðgöngunni er mælt með sýklalyfjagjöf í æð í fæðingunni. Slík sýklalyfjagjöf dregur úr þéttni bakteríunnar og getur þannig dregið úr líkum á sýkingu. Með þessu er einnig sýklalyfjameðferð barnsins hafin fyrr ef það sýkist eftir fæðingu. Börn sem eru í mestri hættu á að smitast eru fyrirburar þar sem þau hafa minni mótstöðu gegn sýkingum en fullburða börn.

Belgirnir vernda barnið að miklu leyti fyrir sýkingu og því er barn í aukinni hættu á sýkingu ef legvatn hefur verið farið lengi. Einnig eru börn mæðra sem hafa verið með hita í fæðingu í aukinni hættu á sýkingu. Fylgst er vel með börnum og mæld af þeim lífsmörk fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu séu mæður þeirra þekktir GBS berar eða ef einhverjir af fyrrtöldum áhættuþáttum eiga við. Konum sem áður hafa greinst með GBS er ráðlagt að senda strok í GBS leit við 36 vikur.

Ljósmóðir í mæðravernd getur séð um sýnatöku og eftirfylgni. Sýnið er talið hafa 95-98% forspárgildi næstu fimm vikurnar og sé það neikvætt er ekki þörf á sýklalyfjagjöf við fæðingu. Ekki hefur verið sýnt fram á að sýklalyfjagjöf um munn sé áhrifarík til verndar nýbura fyrir GBS sýkingum. Tilgangur sýklalyfjameðferðar er að koma í veg fyrir snemmkomna GBS nýburasýkingu.

Ábendingar til sýklalyfjagjafar í fæðingu til forvarna við GBS:

  • Móðir er GBS beri á meðgöngu
  • Móðir hefur áður fætt barn sem greindist með GBS eftir fæðingu
  • Fyrirburafæðing (Fyrir 37 vikna meðgöngu)
  • Ef móðir fær hita í fæðingu (>38 °C)