Virkt stig fæðingar

Virka stig fæðingar hefst þegar hríðarnar verða reglulegar og kröftugar, sem stendur yfir í 40-60 sekúndur. Tíminn milli hríða er notaður til að hvíla sig, en mikilvægt er að fylgjast með framgangi fæðingarinnar. Virka stigið skiptist í þrjú stig: útvíkkunartímabil þar sem leghálsinn opnast (0-10 cm), rembingstímabilið þegar barnið er fætt, og fæðing fylgjunnar. Tímalengdin er mismunandi, en frumbyrjur upplifa oft lengri tíma á fyrsta stigi (12-14 klst) en fjölbyrjur (6-10 klst).

Virka stigið hefst þegar að hríðarnar verða kröftugar, reglulegar og standa yfir í 40-60 sekúndur. Ákveðinn stígandi er í hríðunum og þarf því að vinna meira og meira fyrir þeim. Á þessu stigi er erfitt að tala á meðan hríðin kemur og best er að nýta tímann á milli til hvíldar.

Tíminn frá því að ein hríð hefst og fram að byrjun næstu hríðar telst tíminn á milli hríðanna. Þegar verið er að fylgjast með hríðunum er nú til dags til mikið smáforritum (öppum) til að tímasetja þá. Munið bara að treysta ekki smáforritinu blint með leiðbeiningarnar sem það gefur.

Virkt stig fæðingar skiptist í þrjú stig

1. stig: Útvíkkunartímabilið

Fyrsta stigið hefst þegar reglulegar hríðar byrja. Vegna hríðanna fer leghálsinn að opnast, styttast og þynnast og undirbúa sig undir það að barnið komist þar út. Útvíkkun er metin frá 0 cm og upp í 10 cm og fyrsta stiginu lýkur þegar fullri útvíkkun leghálsins er náð eða hún er orðin 10 cm, en þá er leghálsinn ekki lengur fyrirstaða fyrir því að barnið komist í heiminn. Oft er tímabilið þar sem leghálsinn er að klára að opnast og barnið að fara í gegnum hann kallað “transition” eða umskipti. Þá er líkaminn að skipta frá útvíkunnartímabilinu yfir í rembingstímabil. Þetta tímabil er oftast það sem er mest krefjandi og sá tímapunktur sem einstaklingar vilja stundum gefast upp og hætta við allt saman. Góðu fréttirnar eru þær að þegar þessu stigi er náð styttist í að hægt sé að byrja að rembast og klára fæðinguna.

2. stig: Rembingstímabilið

Annað stigið hefst þegar fæðandi einstaklingur byrjar að fá rembingstilfinningu og fer að remba barninu í heiminn. Þessu stigi lýkur svo þegar barnið fæðist.

3. stig: Fæðing fylgjunnar

Þriðja stigið hefst um leið og barnið er fætt og því lýkur þegar fylgjan og belgirnir eru fædd. Sjá nánar í bæklingnum „Þriðja stig fæðingar. Hvaða val hef ég um meðferð?" í bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands.

Tímalengd stiganna þriggja

Þetta er mjög mismunandi eftir fæðingum og það er ekki hægt að koma fram með einhverjar heilagar tölur um þetta. Í raun ætti ekki að setja fram neinar tölur, því hver fæðing á að fá að taka sinn tíma svo lengi sem móður og barni heilsast vel. En tímaramminn sem hefur verið settur fram til viðmiðunar lítur svona út:

Frumbyrjur:

  • 1. stig = 12-14 klst.
  • 2. stig = 60 mín.
  • 3 stig = 20-30 mín.

Fjölbyrjur:

  • 1. stig = 6-10 klst.
  • 2. stig = allt að 30 mín.
  • 3. stig = 20-30 mín.