Fyrsta klukkustundin eftir fæðingu
Stundum er talað um fyrsta klukkutímann eftir fæðingu sem hina gullnu klukkustund. Loksins eftir langa bið hitta foreldar barnið sitt og geta virt það fyrir sér, snert það, faðmað, talað við það og kysst. Þarna strax í upphafi er lagður grunnurinn að farsælli brjóstagjöf og tengslamyndun. Í nútímasamfélagi eru margir uppteknir af símum og að tilkynna vinum og vandamönnum komu barnsins sem fyrst.
Fyrsta klukkutímann ætti að vera ró og næði þar sem barnið er húð við húð í fangi móður sinnar þar til eftir fyrstu brjóstagjöf. Sé ætlunin ekki að gefa brjóst ætti barnið að vera húð við húð hjá móður fyrsta klukkutímann og fá svo sitt fyrsta þurrmjólkurstaup í fangi hennar.
Þegar barn er húð við húð þá myndast ástarhormónið oxytósín sem veldur samdráttum í legi og dregur þannig úr líkum á blæðingu eftir fæðingu. Hormónið veldur einnig losunarviðbragði úr brjóstum móður. Hjá báðum foreldrum stuðlar oxýtósín að slökun, tengslamyndun og vekur vilja til að vernda afkvæmið. Rannsóknir sýna að því meira sem barn er húð við húð því líklegra er að brjóstagjöf verði farsæl og að tengslamyndun gangi vel. Þess vegna er kjörið að bíða með símtöl og tilkynningar þar til barnið hefur tekið brjóst í fyrsta sinn. Síðan er tilvalið að barnið fari húð við húð til föður eða maka um leið og færi gefst. Eins ef móður heilsast ekki vel eftir fæðingu eða hún þarf nauðsynlega hjálp sem krefst aðskilnaðar við barnið er faðir eða maki hvattur til að hafa barnið húð við húð þar til mamma kemur aftur.
Stundum þarf barnið aðstoð og eftirlit sem krefst aðskilnaðar við móður. Í mörgum tilfellum getur þá faðir eða maki fylgt barninu á Vökudeild og fengið að hafa barnið húð við húð þar undir eftirliti. Í sumum tilfellum er ekki mögulegt að hafa barnið húð við húð strax eftir fæðingu en þá er ekkert ónýtt heldur ætti að hefja húð við húð um leið og mögulegt er og verja sem mestum tíma þannig til að fylla upp í skarðið sem varð vegna aðskilnaðarins. Mælingar og nýburaskoðanir geta oftast beðið þar til eftir að barnið er búið að taka brjóst eða að minnsta kosti orðið klukkutíma gamalt.