Grænt legvatn

Legvatn verndar barnið á meðgöngu, stuðlar að þroska lungna og meltingarfæra, og verndar naflastrenginn frá því að klemmast. Grænt legvatn, sem orsakast af hægðum barnsins, getur átt sér stað ef barnið verður fyrir streitu. Flest tilfelli krefjast ekki inngripa, en eftirlit er nauðsynlegt. Örsjaldan getur barnið andað að sér þykku grænu legvatni, sem krefst sýklalyfjagjafar og öndunarstuðnings.

Legvatn samanstendur af vatni, söltum, próteinum, kolvetnum, fituefnum, þvagefnum og fósturfrumum. Hlutverk legvatnsins er að vernda barnið fyrir höggum og áverkum, viðhalda ákjósanlegu hitastigi í móðurkviði og vernda naflastrenginn frá því að klemmast. Legvatnið hvetur einnig til þroska lungna, meltingarfæra og stoðkerfis þar sem barnið andar að sér vatni og drekkur það auk þess sem það auðveldar því að hreyfa sig.

Legvatn er venjulega litlaust eða mjög ljós-gult og hefur milda, sæta lykt sem sumum finnst minna á lykt af klór.

Legvatn verður grænt þegar barnið hefur losað hægðir í legvatnið (meconium). Það getur gerst ef barnið verður fyrir streitu á meðgöngu af völdum súrefnisskorts eða sýkinga en gerist líka ef meðgangan dregst á langinn og barnið er einfaldlega orðið það þroskað að það er farið að losa hægðir.

Áhættuþættir fyrir grænt legvatn eru lengd meðganga, reykingar móður, sykursýki móður, hár blóðþrýstingur móður og vaxtarskerðing fósturs vegna lélegs flæði í naflastreng. Löng og erfið fæðing getur einnig verið áhættuþáttur.

Yfirleitt er grænt legvatn ekki stórt áhyggjuefni í fæðingu. Það er ástæða til eftirlits en ekki inngripa. Konur eru hafðar í fósturhjartsláttarriti svo hægt sé að fylgjast með líðan barnsins í gegnum fæðinguna. Við fæðingu er svo þurrkað vandlega úr vitum barnsins.

Örsjaldan andar barnið að sér þykku grænu legvatni sem getur valdið sýkingu og fleiri vandamálum í lungum nýburans. Einkennin eru öndunarerfiðleikar, hröð öndun, slappleiki, erfiðleikar með brjóstagjöf þar sem barnið á fullt í fangi með að anda, léleg úrvinnsla súrefnis úr andrúmslofti o.fl. Meðferðin er sýklalyfjagjöf og öndunarstuðningur eftir þörfum á Vökudeild.