Verndun spangar

Á öðru stigi fæðingar, þegar konan er farin að rembast og kollurinn er kominn niður að grindarbotni geta ljósmæður beitt svokölluðum spangarstuðningi til þess að vernda spöngina og reyna að minnka líkur á slæmum áverkum. Þó skal hafa í huga að það er aldrei hægt að koma í veg fyrir allar rifur og húð- og vefjagerð kvenna hefur einnig mikil áhrif á útkomuna.

Þegar spangarstuðningur er veittur notar ljósmóðirin hendur sínar til að styðja við spangarsvæðið og koll barnsins til þess að stýra honum rólega út. Hún biður konuna í flestum tilfellum um að hætta að rembast þegar kollurinn er við það að fæðast í þeim tilgangi að hægja á honum og gefa húðinni meira tækifæri til að teygjast og gefa eftir. Það getur reynst erfitt en gagnlegt er að “purra” eða “mása” á þessum tímapunkti. Það er gott að ræða þetta við ljósmóðurina á fyrsta stigi fæðingar.

Einnig er hægt að fá heitan bakstur á spöngina en rakinn og hitinn getur hjálpað til við að mýkja upp húðina og gera hana teygjanlegri. Mörgum finnst einnig gott að finna fyrir hitanum á þessu svæði. Endilega óskaðu eftir slíkum bakstri ef þú hefur áhuga og ljósmóðirin hefur ekki boðið hann af fyrra bragði.

Ef kona fæðir í vatni er spangarstuðningi ekki beitt nema í undantekningartilfellum. Það er bæði erfitt að komast að svæðinu þegar konan er í vatninu en einnig er talið að betra sé að snerta kollinn ekki mikið þegar barnið fæðist í vatni. Ljósmóðirin reynir þá frekar að leiðbeina konunni munnlega og er mikilvægt að reyna að láta kollinn ekki fæðast allt of hratt. Hitinn og rakinn frá vatninu er þó talinn hafa verndandi áhrif fyrir spangarsvæðið.

Spangarnudd

Rannsóknir hafa sýnt fram á að nudd á spangarsvæðið frá 34. viku meðgöngu getur minnkað líkur á spangarrifum, sérstaklega hjá frumbyrjum sem eru yngri er 30 ára. Nuddið getur einnig dregið úr þeim sársauka sem konur finna þegar kollurinn er að fæðast. Við nuddið kynnast konur betur þessu svæði líkamans og það getur auðveldað þeim að slaka á þessum vöðvum í fæðingunni. Nuddið miðar að því að teygja á spangarsvæðinu en það er svæðið á milli leggangaopsins og endaþarmsins.

Ekki ætti að nudda spangarsvæðið ef sýking er í leggöngum eða sár s.s. herpes útbrot. Gætið þess að nudda mjúklega, hafið hendur hreinar, neglur stutt klipptar og vel snyrtar svo þær særi ekki og gætið þess að nudda ekki í kringum þvagrásina.

Nuddið tekur um 10 mínútur og mælt er með nuddi daglega frá 34. viku meðgöngu.

Hér koma svo nuddleiðbeiningar þýddar af vefsíðu University of Michigan. Þar eru meiri upplýsingar svo og góð mynd sem kannski segir meira en þúsund orð.

  • Sittu eða liggðu í þægilegri stellingu. Heitt bað eða heitur klútur á spangarsvæðið í 10 mínútur fyrir nuddið getur auðveldað slökun.
  • Við nuddið þarf að nota olíu og/eða sleipiefni. Settu olíu, t.d. olívuolíu eða spangarolíu eða K-Y gel (fæst í apótekum) á þumalfingurna og á spangarsvæðið.
  • Settu þumalfingurna vel inn í leggöngin og þrýstu þeim niður og færðu til skiptis til hliðanna og til baka að miðju þar til þú finnur fyrir smá sviða eða óþægindum. Haltu áfram að þrýsta í u.þ.b. 2 mínútur eða þar til þú finnur fyrir dofa á svæðinu. Andaðu hægt og rólega og reyndu að slaka á grindarbotnsvöðvunum. Haltu áfram að þrýsta niður þumalfingrunum og nuddaðu rólega og mjúklega upp til hliðanna og til baka að miðju aftur með U-laga hreyfingu í 3 mínútur.
  • Slakaðu á og endurtaktu einu sinni.
  • Þegar þú ert kominn upp á lagið með nuddið getur verið gott að gera grindarbotnsæfingar um leið. Það þjálfar grindarbotnsvöðvanna og hjálpar þér að þekkja þá.

Hvað ef ég rifna?

Í lang flestum tilfellum er um að ræða svokallaðar 1°eða 2°spangarrifur.

1°spangarrifa þýðir að sárið nær ekki ofan í vöðvalag heldur einungis húðina. Það geta verið grunn sár á skapabörmum og/eða í slímhúð legganga og er þá húðin deyfð og tekin einhver spor til þess að loka húðinni. Í sumum tilfellum þarf ekki að sauma slíkar rifur en ljósmæður meta þörfina á því.

2°spangarrifa þýðir að sárið nær ofan í efstu vöðvalögin sem eru milli legganga og endaþarms. Í flestum tilfellum er einfalt að gera við slíkar rifur en þó er mikilvægt að hafa í huga að saumaskapurinn getur tekið svolitla stund þar sem ljósmæður (og læknar) vilja vanda til verka. Konan er deyfð áður en er saumað og sumum finnst einnig gott að nota glaðloftið á meðan saumað er.

Þessar rifur gróa ótrúlega hratt og vel í langflestum tilfellum. Það er eðlilegt að finna fyrir einhverjum óþægindum og smá kláða fyrstu dagana en það er um að gera að láta ljósmóður í heimaþjónustu vita og getur hún litið á svæðið til að kanna að allt sé eins og það á að vera. Mikilvægt er að gæta vel að hreinlæti og er mælt með að skola svæðið amk 1-2x á dag og þvo og spritta hendur fyrir klósettferðir. Hér má lesa nánar um saumana.

3°og 4°rifur

Þetta eru sár sem ná í dýpri vöðvalögin og eru tiltölulega sjaldgæfar. Ef þú lendir í slíkri rifu mun læknir sjá um saumaskapinn og fræða þig um framhaldið. Í þessum tilfellum er t.d. mælt með að konur fari í eftirskoðun til að fylgjast með að allt sé að gróa rétt og vel.