Verkir í fæðingu
Engin fæðing er eins, og verkjaupplifun í fæðingu er mismunandi milli einstaklinga. Hræðsla getur aukið verulega á verkina og jafnvel hamlað framgangi fæðingarinnar. Skortur á fræðslu er oftast undirrót hræðslu, og því er mikilvægt að undirbúa sig vel.
Engin fæðing er eins og verkjaupplifun ólík milli einstaklinga. Að fæða barn er alltaf vinna, eins og enska orðið „labour“ gefur til kynna.
Verkjaupplifun í fæðingu er samspil innri og ytri þátta. Innri þættir, eins og hræðsla, getur aukið verulega á verkjaupplifun. Einnig getur hún hamlað framgangi fæðingarinnar og þess vegna er svo mikilvægt að mæta ekki hrædd til leiks í fæðingu.
Einn af þeim þáttum sem getur aukið á hræðslu fyrir fæðingu er skortur á þekkingu. Fræðsla og undirbúningur fyrir fæðingu eru því mikilvæg atriði. Fæðingarhræðsla eða ótti er ekki óalgengur og hugsanlega er hann tilkominn vegna frásagna um hræðilegar fæðingar og Hollywood-kvikmynda þar sem fæðingar eru oftar en ekki sjúkdómsvæddar og gerðar ógnvænlegar. Þetta getur orðið til þess að einstaklingar verði dauðhræddir við fæðingu jafnvel löngu áður en þungun verður. Einnig virðist alltaf heyrast hærra í þeim sem eiga neikvæða reynslu af fæðingum en þeim sem eiga jákvæða.
Fyrri fæðingarreynsla sem var erfið getur setið í konum í langan tíma og það er mikilvægt að vinna úr þeirri upplifun áður en farið er af stað í næstu fæðingu. Á Landspítalanum er boðið upp á þjónustu fyrir einstaklinga sem hafa átt erfiða fæðingarreynslu, sem kallast Ljáðu mér eyra, þar sem ljósmóðir fer yfir fæðinguna með þeim tilgangi að vinna úr því sem erfitt var.
Aðrir innri þættir eins og þreyta og streita geta einnig magnað upp verkjaupplifun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góður stuðningur í fæðingu hafi jákvæð áhrif á útkomu og upplifun í fæðingu. Ytri þættir eins og upphaf og gangur fæðingar, staða barns í grindinni og hvort vatnið sé farið getur einnig skipt máli. Engin manneskja er eins, sögur þeirra ólíkar og fæðingar þeirra líka. Til að efla sjálfstraustið fyrir fæðingu eru hér dæmi um góðar bækur til fræðslu og valdeflingar.
Mindful Birthing: Training the Mind, Body, and Heart for Childbirth and Beyond