Keisaraskurður
Keisaraskurður er stór kviðarholsaðgerð þar sem gerður er skurður á kvið móður og barnið sótt inn í legið. Nú til dags er oftast gerður svokallaður “bikinískurður” þar sem skorið er þvert á neðri hluta legsins en við sérstakar aðstæður þarf stundum að gera skurðinn langsum yfir legið. Slíkum skurði getur fylgt aukin áhætta á fylgikvillum.
Tíðni keisaraskurða á Íslandi árið 2015 var 16,3% sem er nálægt viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunnar, sem hefur gefið út þá yfirlýsingu að hlutfall keisaraskurða ætti að vera á milli 10-15%. Þegar hlutfallið er innan þessa viðmiðs er talið að öryggi móður og barns sé best tryggt. Víða í heiminum er sú tíðni allt of há en of lág á öðrum stöðum t.d. í sumum löndum Afríku.
Ástæður og flokkun keisaraskurða
Keisaraskurður getur ýmist verið ákveðinn fyrirfram eða verið framkvæmdur brátt þegar bráðar aðstæður koma upp í meðgöngu eða fæðingu. Keisaraskurður er alltaf gerður þegar að vitað er að fylgjan er fyrirsæt. Þá liggur fylgjan neðst í botni legsins yfir leghálsinum og þegar hann opnast þá rofna æðarnar, sem liggja inn í fylgjuna og það fer að blæða. Aðrar ástæður fyrir fyrirfram ákveðnum keisara er til dæmis ef vitað er að mjaðmagrind móður er, vegna sjúkdóms eða slyss, ekki heppileg fyrir fæðingu, konan hefur innvortis leghálssaum, legu barnsins vegna getur það ekki fæðst um leggöng (t.d. þverlega eða andlitsstaða með hnakka fram). Sumir sjúkdómar móður geta gert það að verkum að fæðing sé ekki heppilegur kostur en það er sjaldgæf ábending. Stundum þarf að vega og meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort keisari eða fæðing um leggöng sé betri valkostur. Þetta á til dæmis við þegar barnið er í sitjandi stöðu, konan óskar eftir keisara, hún hefur áður farið í keisaraskurð, þegar um fjölbura ræðir eða konan hefur farið í aðgerð á grindarbotni. Þessi listi yfir ábendingar fyrir keisaraskurð er ekki tæmandi.
Fyrirfram ákveðinn keisari kallast í daglegu tali valkeisari og er hann yfirleitt gerður í mænudeyfingu. Þegar mænudeyfing er lögð er konan látin liggja í fósturstellingu eða sitja í keng. Stungið er mjórri nál í bak hennar milli hryggtinda fyrir neðan annan lendarlið þar til mænuvökvi lekur þaðan út. Þá er sprautað staðdeyfilyfjum og/eða ópíötum inn í mænuvökvann. Sjúklingur dofnar á u.þ.b. 5 mín og deyfing endist í 3 – 5 klst.
Allir keisarar sem ekki eru fyrirfram ákveðnir kallast bráðakeisarar. Hins vegar geta þeir verið misbráðir en við aðstæður þar sem þarf að ná barninu út eins fljótt og auðið er þá er móðirin svæfð og keisarinn gerður eins fljótt og hratt og hægt er. Þannig keisarar hafa gjarnan verið kallaðir neyðarkeisarar en ábendingar fyrir neyðarkeisara geta verið fylgjulos, bráð fósturstreita, fæðingarkrampi vegna meðgöngueitrunar, legrof eða naflastrengsframfall. Við aðrar aðstæður eins og ef fæðingin er orðin langdregin og enginn framgangur hefur orðið er hægt að gera keisarann í meiri rólegheitum og konan getur fengið mænudeyfingu og verið vakandi í aðgerðinni. Stundum er konan nú þegar komin með mænurótardeyfingu (utanbastsdeyfingu) og hægt er að nota þann legg til að deyfa hana fyrir aðgerðina. Þegar mænurótardeyfing er lögð er legustelling sjúklings sú sama og þegar mænudeyfing er lögð. Stungið er sérstakri nál inn á milli hryggtinda þangað til komið er inn í mænurótarbilið. Þá er þræddur örmjór leggur gegnum nálina og inn í mænurótarbilið. Þar er leggurinn skilinn eftir og nálin fjarlægð. Í legginn eru síðan gefin deyfingar- og/eða verkjalyf. Mænurótardeyfing er lengur að ná virkni en mænudeyfing eða 20-30 mínútur. Nánari umfjöllun um mænurótardeyfingar má sjá hér.
Hugsanlegir fylgikvillar keisaraskurðar
Keisaraskurður framkvæmdur í kjöraðstæðum er fremur örugg aðgerð og getur verið algjörlega lífsnauðsynlegur fyrir bæði móður og/eða barn. Eins og allar aðgerðir getur keisaraskurður haft í för með sér fylgikvilla og þegar kona er komin með keisaraör á legið er einnig hætta á fylgikvillum vegna þess á næstu meðgöngu. Sýkingar til dæmis í þvagblöðru, kviðarholi og í skurðsári eru meðal algengustu fylgikvillanna og er hlutfall þeirra á milli 3-15%. Að öllu jöfnu eru gefin sýklalyf í aðgerðinni til að lágmarka þessa áhættu. Jafnframt er viss hætta á blóðtappa, ekki síst vegna hreyfingarleysis eftir aðgerðina. Konur fá því blóðþynnandi lyf og eru hvattar til að hreyfa sig eins fljótt og þær geta eftir aðgerð. Verkir eftir aðgerðina geta gert það að verkum að konan á erfitt með hreyfa sig og sinna nýburanum. Við því eru gefin verkjalyf sem sum hver eru sterk morfínskyld lyf og geta haft slævandi áhrif og aðrar aukaverkanir. Eins er aukin hætta á blæðingu í keisara og skaði getur orðið á þvagblöðru eða þörmum í aðgerðinni. Á næstu meðgöngu eru lítillega auknar líkur á að fylgjan festi sig á óeðlilegum stað eða á óeðlilegan hátt við legið. Vegna skorts á hormónum sem vanalega stýra fæðingarferlinu getur keisaraskurður haft áhrif á tengslamyndun móður og barns og brjóstagjöf. Keisaraskurð ætti ekki að framkvæma án ábendingar heldur eingöngu þegar fæðing um leggöng er ekki lengur valkostur vegna ástæðna hjá móður eða barni. Konur með keisaraör á leginu geta reynt fæðingu um leggöng í næstu fæðingu og í 72-75% tilfella gengur áætluð fæðing upp. Árangursrík fæðing eftir keisara hefur minnstu fylgikvillana í för með sér og er því oftast góður kostur. Móðir og barn eru þá undir sérstöku eftirliti í fæðingunni vegna áhættunnar sem getur fylgt örinu. Möguleiki er á, en það er sjaldgæft (0,5%), að örið gefi sig og það komi rifa á legið. Konum með keisaraör á leginu er boðið viðtal við fæðingarlækni á meðgöngunni til að fara yfir hvaða fæðingarmáti henti henni best. Konur með keisaraör á legi geta fætt á fæðingarstað með þjónustu frá A-C1. Sjá nánar um fæðingarstaðina og um flokkun þeirra hér.
Áhrif keisaraskurðar á börnin
Börn sem fæðast með keisaraskurði eru líklegri að fá svokölluð vot lungu en börn sem fæðast gegnum leggöng. Þetta á sérstaklega við um börn sem fæðast með valkeisaraskurði fyrir 39 vikna meðgöngu. Það er vegna þess að börn sem fæðast með valkeisara fá ekki sömu hormónin og börn sem ganga í gegnum fæðingu. Einnig er misjafnt hvenær lungu barns eru fullþroskuð og þegar fæðing fer ekki sjálfkrafa af stað getur verið að barnið sé ekki alveg tilbúið fyrir lífið utan legsins. Stundum eru konum gefnar sterar í vöðva til að flýta fyrir lungnaþroska barnsins, fyrir keisarann, til að draga úr líkum á því að þetta gerist. Vot lungu einkennast af öndunarerfiðleikum nýburans. Í verstu tilfellunum þurfa börnin öndunaraðstoð eða þróa með sér lungnabólgu. Væg einkenni eru hröð öndun og nasavængjablakt. Lungu nýburans eru vökvafyllt með legvatni þegar barnið er enn inni í leginu en þegar það tekur fyrsta andardráttinn þá þrýstist það vatn útí vefina. En þegar töf verður á þessum flutningi legvatnsins úr lungunum útí vefina er talað um vot lungu. Nýjar rannsóknir benda einnig til þess að börn sem fæðast með keisaraskurði eru líklegri til að þróa með sér ofnæmissjúkdóma eins og exem og asthma heldur en börn sem fæðast um leggöng. Verið er að rannsaka hvaða önnur áhrif keisarafæðing getur haft fyrir börnin. Það er ekki alveg vitað með vissu hvaða áhrif það hefur á börn að verða af þeim hormónum og þeirri örvun ónæmiskerfisins sem fæðing um leggöng gefur.
Undirbúningur fyrir keisaraskurð
Hér er myndband um valkeisaraskurð á Kvennadeild Landspítalans.
Hér er upplýsingabæklingur frá Kvennadeild Landspítalans fyrir konur sem eiga bókaðan valkeisaraskurð.
Hér er upplýsingabæklingur um keisaraskurð frá HVE Akranesi.
Hér er upplýsingabæklingur um keisaraskurð frá SAk Akureyri.
Hægt er að hafa samband hingað til að fá nánari upplýsingar um keisaraskurð á Ísafirði.
Hægt er að hafa samband hingað til að fá nánari upplýsingar um keisaraskurð á Neskaupsstað.