Tvíburafæðingar
Undirbúningur fæðingar tvíbura er mikilvægur fyrir foreldra, þar sem tvíburafæðingar teljast til áhættufæðinga. Í tvíburameðgöngu er stefnt að fæðingu við 36-38 vikur, oftast um leggöng ef tvíburi A er í höfuðstöðu. Við undirbúning er mikilvægt að ræða við ljósmóður og fæðingarlækni um möguleika á fæðingarmáta og fæðingaráætlanir. Góð samskipti, skýr ákvörðun um fæðingarmáta, og gott umhverfi í fæðingu hjálpa til við að tryggja örugga og jákvæða upplifun fyrir bæði móður og börn.
Undirbúningurinn
Það er mikilvægt að nota tímann á meðgöngunni vel til þess að undirbúa fæðinguna. Þú og maki þinn eða stuðningsaðili ættuð að ræða vel við ljósmóður og fæðingarlækni um fæðingarmáta, þá möguleika sem eru í stöðunni og þær aðstæður sem kunna að koma upp. Ef meðgangan hefur gengið vel þá er það fyrst og fremst staða tvíburanna sem skiptir máli þegar kemur að ákvörðun um fæðingarmáta. Almennt er stefnt að fæðingu um leggöng en ef leiðandi fóstur (tvíburi A) er ekki í höfuðstöðu þarf að ræða sérstaklega fæðingarmátann. Í eðlilegri tvíburameðgöngu hjá heilbrigðri móður er stefnt að gangsetningu við 36-38 vikur og fer tímasetningin eftir því hvort um þykk, þunn eða engin belgjaskil er að ræða. Í sumum tilfellum getur þurft að framkalla fæðingu fyrr og einnig er algengara að konur sem ganga með tvíbura fari sjálfar af stað fyrir tímann.
Fæðing tvíbura telst alltaf til áhættufæðinga og er markmið heilbrigðisstarfsfólks alltaf að tryggja öryggi móður og barna sem allra best. Það er einnig markmið þeirra að gera fæðinguna og tímann kringum hana sem allra ánægjulegasta fyrir verðandi foreldra og eru góð samskipti mjög mikilvæg. Það er þvi mjög mikilvægt að þú og maki þinn séuð ófeimin að spyrja spurninga og láta ykkar skoðanir og óskir í ljós og er alltaf reynt að koma til móts við óskir verðandi foreldra ef það er hægt. Þó er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður geta breyst og getur það haft áhrif á plön sem hafa verið lögð fyrir á meðgöngunni.
HÉR er hægt að lesa nánar um tvíburameðgöngu
Fæðingarstaðir
Á Íslandi fæðast tvíburar nær einungis á Landspítala en einstaka fæðing fer fram á Akureyri og Akranesi. Um 50% tvíbura fæðast fyrir 37. viku, flestir í viku 36 til 37. Mikilvægt er fyrir foreldra að hafa í huga líkur á fyrirburafæðingu. Þess vegna gæti verið skynsamlegt að fara snemma á foreldrafræðslunámskeið, en sérstök námskeið eru í boði fyrir verðandi tvíburaforeldra. Ljósmóðirin þín í mæðraverndinni getur gefið nánari upplýsingar.
HÉR má lesa svo um einkenni fyrirburafæðinga
Fæðingin sjálf
Eins og áður segir er reynt að virða óskir foreldra varðandi fæðinguna eins og hægt er. Á fæðingarstofunni er leitast við að reyna að skapa rólegt og jákvætt andrúmsloft. Gott er að deyfa ljósin, kveikja jafnvel á rafkertum (oftast eru þau til staðar á fæðingardeildinni en það má einnig koma með sín eigin), spila þægilega tónlist og reyna að ná sem allra mestri slökun. Ilmkjarnaolíur geta líka hjálpað til að skapa slakandi umhverfi.
Þegar fæðingin er komin af stað eru fylgst með börnunum í sírita. Nemarnir, sem eru festir við kvið móðurinnar með teygjum, eru þráðlausir og getur móðirin því yfirleitt verið á hreyfingu, setið á bolta og jafnvel notað sturtuna til verkjastillingar. Því miður er ekki hægt að nota vatnsbað í fæðingunni.
Þegar belgurinn hjá tvíbura A hefur rofnað er oft komið fyrir svokallaðri elektróðu á kollinn til þess að hægt sé að fylgjast betur með hjartslættinum og ganga úr skugga um að verið sé að fylgjast með réttum hjartslætti en það getur stundum reynst flókið að greina á milli hjartslátta barnanna og svo móðurinnar. Settur er upp æðaleggur hjá móðurinni og teknar blóðprufur en þetta er gert í öryggisskyni ef þörf verður á inngripum í fæðinguna.
Í tvíburafæðingum er mælt með að mæður þiggi mænurótardeyfingu og er ástæðan sú að stundum þarf að grípa inn í við fæðingu tvíbura B og er þá hjálplegt að móðirin sé deyfð. Það er þó ekki skylda og getur verðandi móðir afþakkað slíka deyfingu. Þetta er gott að ræða vel við fæðingarlækni á meðgöngunni.
Á fyrsta stigi fæðingarinnar fylgist ljósmóðir með verðandi móður og börnunum. Hún er mikið inni á stofunni og veitir stuðning og ráð auk þess að fylgjast með að allt sé eðlilegt. Þegar kemur að öðru stigi fæðingarinnar og farið er að styttast í að kollurinn á tvíbura A fæðist kallar ljósmóðirin eftir þeim aðilum sem eru einnig viðstaddir fæðinguna. Það kemur alltaf að minnsta kosti ein ljósmóðir til viðbótar, fæðingarlæknir, deildarlæknir og barnalæknir. Stundum eru barnalæknarnir tveir og mögulega hjúkrunarfræðingur frá vökudeild en það er helst ef börnin fæðast mikið fyrir tímann. Allir þeir sem koma inn á stofuna hafa eitthvað hlutverk og reyna að láta eins lítið fyrir sér fara og hægt er.
Eftir að tvíburi A er fæddur er mikilvægt að tryggja að tvíburi B sé í langlegu. Ljósmóðir eða læknir gera það með því að halda um kvið móðurinnar og stýra barninu niður í grindarinnganginn. Stefnt er að því að sem stystur tími líði milli fæðinga barnanna og er fylgst vel með líðan tvíbura B. Stundum þarf að grípa inn í með dreypi til þess að örva samdrætti í leginu. Ef hjartsláttur tvíbura B er óeðlilegur ákveður fæðingarlæknir hvort þörf er á aðgerðum til þess að flýta fæðingu, ýmist á fæðingarstofunni eða inni á skurðstofu og er þá viðbúnaður til staðar ef þörf er á keisaraskurði. Oftast gengur þó fæðing tvíbura B vel fyrir sig.
Eftir fæðinguna
Eftir fæðinguna er fylgst mjög vel með líðan móður og barna. Móðirin liggur á fæðingardeildinni í að minnsta kosti 4 klukkustundir áður en hún getur farið á sængurlegudeildina. Eftir tvíburafæðingu er aukin blæðingarhætta frá legi þar sem það hefur verið mikið þan á því á meðgöngunni. Því er fylgst mjög vel með því að legið dragi sig vel saman. Gefin eru samdráttarlyf strax eftir fæðingu tvíbura B til þess að reyna að tryggja góðan samdrátt og koma í veg fyrir blæðingu. Samdráttarlyfið hjálpar einnig til að flýta fylgjufæðingunni.
Stundum þurfa börnin, annað eða bæði, að fara á vökudeildina, sérstaklega þau sem fæðast fyrir tímann. Það fer bæði eftir meðgöngulengd og einnig börnunum sjálfum og getu þeirra til að anda eðlilega, halda á sér hita og nærast, hvort þau þurfi að vera þar og hversu lengi. Eftir því sem meðgöngulengdin er lengri eru líkurnar á að þau þurfi ekki að fara á vökudeildina meiri.
Þegar fæðing fer af stað mikið fyrir tímann er reynt að gefa foreldrum tækifæri á að skoða vökudeildina ef aðstæður leyfa og einnig fá þau viðtal við barnalækni.
Ef börnin geta ekki verið hjá móður fyrst eftir fæðingu eða geta ekki nærst af brjósti til að byrja með, aðstoðar ljósmóðir hana við að handmjólka brjóstin til þess að koma af stað mjólkurframleiðslunni og freista þess að ná broddi fyrir krílin. Það er þó alveg eðlilegt að það komi ekkert þegar brjóstin eru mjólkuð í fyrstu. Eftir það fær móðirin svo kennslu á mjaltavél sem er notuð til þess að örva brjóstin og hefja mjólkurframleiðsluna og safna mjólk fyrir börnin. Um leið og börnin eru tilbúin geta þau svo reynt brjóstagjöf. Í langflestum tilfellum gengur þetta nokkuð vel en getur verið talsverð vinna í fyrstu. Á meðgöngu er hægt að ræða um brjóstagjöf tvíbura við ljósmóður sem er sérhæfð í tvíburameðgöngu og umönnun tvíbura.
Heimferð og brjóstagjöf
Fyrstu dagar, vikur og mánuðir eru gjarnan mjög krefjandi í lífi tvíburaforeldra. Oft virðist sem það séu ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til þess að komast yfir verkefnin sem þarf að sinna. Börnin þurfa að nærast reglulega og taka gjafir gjarnan góðan tíma af sólarhringnum, hvort sem um er að ræða brjóstagjöf, pelagjöf eða blandaðar gjafir. Það er best að reyna að byrja strax á að gefa börnunum á sama tíma og reyna að samstilla rútínuna þeirra. Ef börnin eru á brjósti er hægt að láta þau drekka af sitthvoru brjóstinu samtímis og getur þá verið gott að hafa auka hendur, sérstaklega til að byrja með. Sumar kjósa þó að gefa öðru barninu í einu. Tvíburabrjóstagjöf krefst mikillar þolinmæði, sérstaklega fyrstu dagana en gott er að hafa í huga að í flestum tilfellum verður þetta auðveldara eftir því sem börnin þroskast og stækka.
Margir spyrja sig hvort mögulegt sé að metta tvö börn með brjóstagjöf eingöngu og svarið er já, í langflestum tilfellum. Framleiðsla brjóstamjólkur fer nefnilega eftir eftirspurn, því meiri örvun sem brjóstin fá, því meira framleiða þau. Ef gengur illa að næra börnin á brjósti eingöngu er hægt að gefa pela með og stundum gengur brjóstagjöfin ekki upp eða móðirin kýs að gefa ekki brjóst og þá er þurrmjólkin besti kosturinn í stöðunni.
Tvíburamæður eiga rétt á heimaþjónustu ljósmæðra ef þær útskrifast af sjúkrahúsi innan vissra tímamarka sem eru ákvörðuð út frá því hvernig fæðingin gekk og líðan móður og barna eftir hana. Þær geta þá einnig óskað eftir að fá brjóstagjafaráðgjafa í vitjun ef illa gengur fyrstu dagana.
Það er gott að reyna að samstilla svefn barnanna og margir tvíburaforeldrar kjósa að vekja hitt barnið ef annað vaknar á nóttunni til að drekka. Mikilvægt er fyrir móðurina að reyna að nýta tækifærið þegar börnin leggja sig til að hvílast og því er gott að reyna að stýra heimsóknum með tilliti til þess.
Það þarf svo auðvitað að sinna heimilisverkum og jafnvel eldri systkinum. Þá er gott að nýta alla aðstoð sem býðst. Ef fólk kemur í heimsókn er ekkert að því að biðja viðkomandi að skella í uppþvottavélina, brjóta saman þvott, koma með mat eða jafnvel elda fyrir ykkur. Flestir eru boðnir og búnir að hjálpa og um að gera að nýta það vel. Það gefur oft kærkomna hvíld og tækifæri til þess að kynnast börnunum betur.
Hér má lesa fæðingarsögu frá tvíburamóður.
Hér má lesa nánar um tvíburafæðingu.